Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
29.3.2007 | 00:13
Sir Cliff
Ég skemmti mér konunglega á tónleikunum með Cliff. Hann er að verða 67 ára gamall en lítur út eins og táningur. Ég geri ráð fyrir að mannshöndin eigi þar inngrip en mér er alveg sama. Hann söng bæði gömul lög sem allir þekkja og önnur sem ég þekkti ekki en skemmtileg og grípandi. Hann dansaði og dillaði sér allan tímann eða í rúma tvo tíma. Geri aðrir yngri betur.
Ég var að pæla í glitrandi gallabuxunum sem hann kom í eftir hlé. Ég vil trúa því að hann noti þær eingöngu á sviði en ekki hversdags svo ég fyrirgaf honum að vera í þeim.
Það var alveg þess virði að bíða í tæpa hálfa öld eftir að sjá Cliff Richard.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.3.2007 | 17:32
Uppáhald
Cliff Richard er tíu árum eldri en ég.
Ég veit ekki hvenær ég byrjaði að hlusta á hann. Mér finnst hann alltaf hafa verið til.
Ég man þegar ég lá með eyrað við útvarpið heima í Smáratúni 3 og reyndi að heyra hvernig útlensku orðin voru í Lucky lips, mig langaði svo að kunna textann. Mér finnst það lag ekkert betra en öll hin, þetta er bara ein af bernskuminningunum.
Ég sá Summer Holliday í Selfossbíói á sínum tíma. Þá var ég að verða skvísa. Eða þannig man ég mig. Ég sá myndina svo einhvern tíma seinna og það er ekki hægt að segja að hún hafi elst vel. En mikið rosalega fannst mér hún skemmitleg í den.
Annaðhvort hélt fólk með Cliff eða Elvis Presley. Það var eiginlega ekki hægt að halda upp á þá báða. Það varð að velja. Ég var Cliff manneskja. Kannski hefur Labbi í Glóru haft áhrif á það val. Hann spilaði næstum því eingöngu Shadowslög á fyrstu árunum í hljómsveitarbransanum og Shadows voru hljómsveitin hans Cliffs. Og Labbi var auðvitað háttskrifaður hjá okkur krökkunum, hann spilaði á gítar og kom á fót hljómsveit.
Ég er búin að halda upp á Cliff í næstum því hálfa öld og ég fæ að sjá hann með berum augum í kvöld. Það finnst mér hreint ótrúlegt.
Vinir og fjölskylda | Breytt 29.3.2007 kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2007 | 10:04
Að tala fyrst og hugsa svo
Orðatiltækið, að vera númer eitt, tvö og þrjú, er líklega ekki til í orðabók. Ég veit það þó ekki, ég hef ekki gáð. Þetta er mikið notað í talmáli, ég hef ekki tekið eftir þessu orðatiltæki í ritmáli. Ég held að allir geti verið sammála um hvað þetta þýðir. Það að eitthvert málefni ætti að hafa forgang.
Árni Johnsen notaði þetta í gær í sjónvarpsfréttum þegar spjallað var við hann um höfn í Bakkafjöru og ferju þar á milli lands og Eyja og hins vegar jarðgöng.
Hann ætlaði örugglega ekki að vera fyndinn á þessu augnabliki en það var mjög skondið þegar hann sagði að höfn í Bakkafjöru ætti að vera númer tvö og jarðgöngin númer eitt, tvö og þrjú.
Vinir og fjölskylda | Breytt 29.3.2007 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.2.2007 | 10:54
Vetrarfrí
Það eru forréttindi að vera kennari.
Í morgun vaknaði ég á sama tíma og venjulega en þurfti ekki að fara á fætur, ég gat snúið mér á hina hliðina og lokað augunum aftur. Það var óneitanlega mjög notalegt. Fyrir utan gluggann nauðaði vindurinn með rokum öðru hverju. Það gerði enn notalegra að kúra undir sænginni.
Það eru ekki aðeins jólafrí, páskafrí og sumarfrí sem kennarar fá. Núna hafa vetrarfrí bæst við í mörgum skólum.
Það eru forréttindi að fá að vera kennari........
....... þangað til launaumslagið er opnað. Ég hef farið í fýlu einu sinni í mánuði í rúmlega 35 ár.
13.2.2007 | 22:13
Kaupadella
Það kom bæklingur frá Belís heilsuvörum ehf inn um lúguna hjá mér um daginn. Venjulega hendi ég þessum bæklingi strax í ruslið en einhverra hluta vegna opnaði ég þennan og fór að lesa.
Og áður en ég vissi af fann ég að mig vantaði ótrúlega margar vörur úr bæklingnum. Bráðvantaði hitt og þetta. Mig vantaði leðurtösku, brjóstahaldara með bakstuðningi, höggdeyfanleg innlegg, stækkunargler með ljósi og margt fleira.
Ég var komin á fremsta hlunn með að panta eitthvað af þessu þegar ég rakst á grein í Mogganum í dag um hóp kennara í Laugarnesskóla sem tók sig saman og ætla ekki að kaupa neina nýja hluti, nema nayðsynjar, á góu og þorra. Þeir ætla að þreyja þorrann og góuna líka án þess að kaupa nokkuð nema það sem flokkast undir mat, hreinlætisvörur, lyf og öryggisvörur. Hins vegar má kaupa notaða hluti. Fyrirmynd kennarana er hinn bandaríski Compact hópur sem ætlar ekki að kaupa neitt nýtt í heilt ár.
Mér finnst þetta bráðsnjallt. Ég er samt ekki viss um að ég gæti þetta í heilt ár en í tvo mánuði væri gaman að prófa.
Ég ætla alla vega ekki að panta neitt upp úr Belís bæklingum því þegar betur er að gáð vantar mig ekkert sem þar er auglýst.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.2.2007 | 18:52
Tilfinningasemi
Þegar appelsínugular rendur
birtast á ísgráum himninum
fell ég í stafi
og get ekki
mælt orð af vörum.
Ég ræð ekki við þetta. Á gamals aldri verða til svona setningar í huga mínum og brjótast út.
Um leið og ég skrifaði þetta kom mér gömul minning í hug. Það var þegar hún dótla mín var á leikskólaaldri. Þá teiknaði hún, einn daginn, mynd af manni sitandi við borð. Þegar leikskólakennarainn, hún Dóra Odds, spurði hana útí myndina þá svaraði dótla mín að þetta væri Ómar Ragnarsson í sjónvarpinu að lesa fréttir.
"En hvað er þetta á höfðinu á honum", spurði Dóra.
"Hann, Ómar, hann er með svona appelsínugul bönd á höfðinu", svaraði dótla mín.
Þetta var á þeim tíma er Ómar var að reyna að leyna skallanum með því að greiða hárið sem eftir var yfir skallann.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2007 | 22:05
Salt, sykur, vatn og eitthvað þaðan af verra
Ég hef verið að velta fyrir mér, aukaefnum í matvælum, að undanförnu. Ég hef ekki mikið vit á þessu en reyni að verða mér úti um upplýsingar eins og ég get. Les það sem ég næ í og spyr mér vitrari manneskjur um þessi málefni. Ég hef hent nokkrum kryddstaukum í kjölfarið og hætt að nota súpur og sósur í pökkum. Það er kannski dropi í hafið en vonandi byrjunin á betra og bættu mataræði.
Kompásþátturinn í kvöld var vatn á mína myllu.
Ég hef lengi haft óljósan grun um að aukaefni væru í matvælum en ekki getað fengið mig til að trúa neinu slíku upp á íslenska matvælaframleiðendur. Ég treysti alltaf öllum svo rosalega vel.
Annað kom í ljós í kvöld.
Næsta mál er að lesa enn betur innihaldslýsingar matvæla og velja og hafna.
10.2.2007 | 14:46
Heilsubót
Það var hressandi að ganga Nesið í morgun. Dálítið kalt og vindgnauð í eyrum. Heilmikill brimgnýr var og tilkomumikið að sjá brimölduna brotna á Hafnarberginu og þeytast marga metra í loftið. Þar sem náttúruöflin eru að verki er stórkostlegt.
Það er ekki hægt að komast hjá því að ganga fram hjá draugahúsum á Nesinu, húsum sem hýstu drauma, vonir og þrár manna sem sáu framtíð í fiskeldi. Það er sorglegt hvernig það dæmi fór allt saman. Rétt þar hjá eru önnur hús sem hýsa líka drauma manna. Ekki veit ég hvernig gengur með Feygingarverksmiðjuna en vonandi rætast draumar um að þar verði vinnustaður margra manna.
Þegar við, gamli minn, vorum komin á heimstímið vorum við með vindinn beint í fangið. Við drógum uppi par sem gekk á undan okkur, reykjandi. Þar sem vindurinn var beint á okkur fengum við reykingarlyktina og mengunina beint í æð. Oj, barasta.
Það var hressandi að ganga Hafnarnesið í morgun.
7.2.2007 | 23:05
Hvatvísi
6.2.2007 | 21:54
Að finna sig í pólitík
Í sjálfstæðisbláu ljósi
-er sparkað í mig
Í framsóknargrænni bitru
-er ég svikinn
Í vinstrigrænnafjólubláum loga
-finn ég kulda og hörku
Í frjálslyndrableiku skini
-fæ ég hroll
Í samfylkingarrauðum bjarma
-finn ég taktinn