Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Íslenska eða ekki íslenska

Ég hef alltaf jafn gaman af umræðu um íslenskt mál, hvort sem rætt er um málfræði, mállýskur, málvenju, staðbundinn framburð, sérvisku, nafngiftir, málfar, orðatiltæki, orðaleiki, bókmenntir, nýyrðasmíð, málshætti, samanburð við önnur tungumál eða annað hvaðeina sem varðar hina ástkæru tungu sem ég nam innum nefið eins og Nóbelskáldið sagðist hafa lært Skandinavísku. Allt sem viðkemur íslenskri tungu finnst mér gaman að ræða um.

Ég er enginn snillingur í málinu, langt frá því, en það kemur ekki í veg fyrir áhuga minn á málinu. Ég er alin upp í þágufallssjúku umhverfi og varð að taka upp nýtt mál þegar ég gerðist kennari og það er meira en að segja það. En það er ekki mál dagsins.

Umræða hefur skapast að undanförnu um íslenskuna, eins og svo oft áður, en nú um það hvort hún verður að heimamáli og enskan verði allsráðandi sem vinnumál. Með innrás og útrás fyrirtækja hefur mátt búast við þessu. Forkólfar fyrirtækja eru að finna sínum fyrirtækjum farveg til þess að takast á við breytt landslag.

Mér finnst það í fínu lagi að fyrirtæki verði tvítyngd. Það er eðlileg þróun. Ég hræðist það ekki svo mjög að íslenskan verði sett út í horn og hætti að þróast því ég trúi því að í hverri kynslóð rísi upp ungir menn og konur sem  haldi vörð um okkar ástkæra, ylhýra mál, eins og Jónas kallaði íslenskuna, og geri sér grein fyrir mikilvægi þess að halda íslenskunni og leyfa henni að þróast og fylgjast með því sem er að gerast.

Íslenskan verður aldrei sett út í horn og gerð að annars flokks máli á meðan við eigum ungt fólk eins og uppáhaldasonarson minn, sem sagði við mig í gær að það væri nauðsynlegt fyrir okkur að halda vörð um málið okkar því það væri það eina sem við ættum til þess að vera stolt af. Aðrar þjóðir geta státað sig af gömlum miðbæjum, glæsilegum húsum og höllum en við ættum ekkert svoleiðis.

"Við eigum bara málið okkar og gömlu bækurnar", sagði Kolbeinn, "til þess að halda okkur saman sem þjóð." 

Ég veit ekki hvort var stoltara ömmuhjartað eða hjarta íslenskukennarans, nema hvort tveggja sé.


Skattur á skatt ofan

Fyrir nokkrum árum var stofnaður sjúkrasjóður innan stéttarfélagsins míns. Það var mjög þarft verk og hefur vonandi komið sér vel fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda vegna veikinda. Sjóðurinn tekur einnig þátt í ýmsum lækna- og sérfræðingakostnaði og hef ég nýtt mér það í sambandi við Laser augnaðgerð,  krabbameinsskoðun, tannlæknakostnað og áhættumat hjá Hjartavernd.

Það er fyrst þegar endurgreiðslan kemur sem reiðin blossar upp.

Mér finnst varla rétt að tala um endurgreiðslu því það er tekinn 32,72% skattur af endurgreiðslunni. Ég veit ekki betur en að ég sé búin að borga skatt af laununum mínum og skil þess vegna ekki af hverju ég þarf að borga skatt aftur þó að aurarnir mínir fari á smá flakk þ.e. ég borga lækninum fyrir veitta þjónustu og sendi kvittun í sjóðinn minn sem sendir mér aurinn til baka en því miður ekki allan. Ríkið hirðir hluta af peningunum mínum. Þvílíkt óréttlæti. T.d. borgaði ég 12.600 krónur fyrir áhættumat hjá Hjartavernd. Sjóðurinn veitir fullan styrk en ég fæ samt einungis til baka 8.099 krónur.

Ég skil ekki hvernig það er hægt að búa til svona óréttlátar reglur.


Matardagbók

Ég skrifaði matardagbók um daginn, í nokkra daga, því leikfimiskennarinn minn bauð upp á að fara yfir slíka bók. Ég fann það að á meðan ég hélt samviskusamlega dagbókina þá hafði það áhrif á hvað ég lét ofan í mig því ég vildi ekki að kennarinn minn sæi græðgina sem býr í mér. Ég borðaði sem sagt ekki nærri því allt sem mig langaði til þessa daga. Samt fékk ég fullt af athugasemdum hjá kennaranum rétt eins og ég væri nemandi að fá ritgerð til baka. Ég stóð mig meira segja að því að afsaka sumt rétt eins og nemendur mínir gera þegar ég gef þeim athugasemdir. Svona snýst allt við, einu sinni var leikfimiskennarinn nemandi hjá mér.

Ég þarf að taka matarræðið enn betur í gegn og ég sem hélt að ég gæti ekki betur.

Mér líður núna eins og ég megi andskotann ekkert éta!


Lúkas í skóla

Mér finnst svo stutt síðan hann fæddist. Hann Lúkas litli Þorlákur. Yngsta barnabarnið mitt. Hann er samt að byrja í skóla í dag. Mætti í skólann sinn í skólabúning með tösku á bakinu. Hann á að fara að læra stafina og litina og eitthvað fleira. Hann mun fá heimavinnu. Það er stutt síðan hann fæddist. Hann er bara þriggja ára. Verður fjögurra ára eftir tæpa tvo mánuði. Af myndum að dæma, sem mamma hans  setti út á netið í morgun, var hann ekkert spenntur fyrir því að fara af stað. En það hýrnaði yfir honum þegar hann fattaði að hann myndi hitta krakka. Fyrsti skóladagurinn

Hann mun að öllum líkindum aldrei upplifa þá miklu spennu og tilhlökkun sem flestir íslenskir krakkar finna fyrir áður en þeir byrja í grunnskóla. Hann er svo ungur að hann skilur þetta varla.

Kannski er það bara allt í lagi því margir krakkar verða líka fyrir vonbrigðum þegar í grunnskólann kemur.


Seinni koma í Hjartavernd

hjartaverndÉg bæði hlakkaði til og kveið fyrir að fara í seinni heimsóknina í Hjartavernd. Ég hakkaði til að þeim kafla í lífi mínu lyki, þar sem ég hefði einhverjar áhyggjur af hjartanu mínu og kveið fyrir að fá fréttir af því að ég þyrfti að hafa áhyggjur áfram af þessum sama líkamshluta.

Ég hitti á svona líka þægilegan lækni. Hann vildi miklu frekar tala um sameiningu sveitarfélaga og skólamál heldur en hjartað í mér. Hann hafði áhyggjur af börnunum sínum sem þurfa núna að glíma við það að vera  í íslenskum skóla og taka þátt í því að vera í blönduðum bekkjum. Þau höfðu verið í skóla í Bandaríkjunum þar sem fyrirkomulagið var með öðrum hætti.

Eftir að hafa rætt við þennan nýja lækni minn um þessi mál öll, fundum við út að við áttum það sameiginlegt að finnast Iowa city kósy borg og þangað langaði okkur bæði að koma aftur á lífsleiðinni. Hann var þar við nám um leið og Kalli minn og þekkjast þeir nokkuð. Ég segi það enn og aftur: Hann er lítill og skondinn þessi heimur.

Lækninum leist ekki betur en svo á ástandið á mér  að hann ætlar að senda mig í sneiðmyndatöku til að fá úr því skorið hversu mikið kólesteról hefur safnast inn á kransæðarnar.

Nú er ég komin á einn af þessum frægu biðlistum í heilbrigðiskerfinu og þarf að bíða í nokkrar vikur að mér skilst.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband