Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Læst úti

Ég þurfti að skjótast heim úr vinnunni til að redda smávegis. Sá þá að ruslafatan í eldhúsinu var full og tók ómeðvitaða ákvörðun að fara út með ruslið. Hurðin kom á eftir mér og skelltist í lás.

Fyrir tveimur dögum lenti Simmi minn í þessu sama nema hann var svo heppinn að stofuhurðin var, aldrei slíkum vant ólæst. Ég hreykti mér af því við hann að ég tæki alltaf úr lás þegar ég færi með ruslið því ég vissi það hurðin á það til að lokast af sjálfu sér.

Ég hefði betur ekki sagt neitt. Ég stóð þarna fyrir utan húsið mitt í djúpum skít. Við erum með varalykla alltaf geymda hjá mömmu en ég hafði þurft að nota þá í fyrradag og var ekki búin að skila þeim. Allir mínir lyklar voru inni í húsinu.

Venjulega eru allir gluggar lokaðir en tveimur mínútum áður en ég læstist úti hafði ég opnað gluggann í vaskahúsinu til að hleypa fersku lofti inn. Ég hef ekki opnað hann í marga mánuði. Þessi gluggi er það stór að maður getur skriðið inn um hann ef hann er opnaður upp á gátt.

Ég bankaði hjá nágranna sem kom með alls kyns græjur og tæki til að opna alveg og skreið meira að segja líka inn fyrir mig.

Það er gott að eiga góða nágranna.

 


Sólardagur.

Ó, hvað svona sólardagur gerir lífið léttara og einfaldara!

Einfaldara og léttara!

Léttara og skemmtilegra.

Og grillsteikina betri.

Ummm... sól, staldraðu við!


Morgunstund

Sveitarfélagið Ölfus var með starfsdag í gær fyrir alla þá sem vinna hjá sveitarfélaginu. Þetta var í þriðja skiptið sem þetta var gert. Fenginn er fyrirlesari og síðan boðið upp á snittur og drykk. Fyrirlestrarnir hafa gengið út á það að efla starfsanda á vinnustöðum.

Í gær talaði Edda Björgvins. Mér hefur alltaf fundist hún æðisleg gamanleikona. Ég hef líka einu sinni áður hlustað á hana fara með fyrirlestur. Ekki brást hún í gær. Hún talaði um það að dreifa góðum tilfinningum og sagði að það væri bannað að dreifa neikvæðum tilfinningum. Hún vill að við söfnum góðum tilfinningum í tilfinningabankann okkar. Eitt ráð hennar var að hugsa til þess þegar við hlógum síðast það mikið að við gátum ekki hætt að hlæja. Hún vill meina það að þegar við hlæjum myndum við endorfín sem er vímugjafi. Þegar maður hugsar um það þegar maður hló síðast fer maður aftur að hlæja.

Þetta er alveg satt hjá henni. Ég get ekki gert að því að ég skell upp úr í hvert sinn sem mér dettur í hug ákveðinn atburður í lífi mínu fyrir nokkrum vikum.

Ég lá enn í rúminu. Það hlýtur að hafa verið helgi. Simmi minn var farinn fram úr og var eitthvað að bauka við að klæða sig. Þá sé ég allt í einu útundan mér að önnur gardínan dregst frá glugganum. Ég reisti mig upp til að sjá hvernig í ósköpunum þetta gat átt sér stað því ég vissi að hann stóð ekki við gluggann að draga frá. Skýringin reyndist sú að þegar Simmi minn beygði sig eftir sokkunum þá festist gardínan á milli rasskinnanna á honum og þegar hann sneri sér til að taka seinni sokkinn upp þá dróst frá.

Hann dró frá með rassinum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband