Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Fyrirmynd

Ég hef ekki átt neitt sérstaklega mörg ædol í gegnum tíðina, held ég. Þegar ég var lítil var það helst pabbi. Hann vissi allt og kunni allt. Og er reyndar þannig enn.

Þegar ég var umglingur urðu aðrir ædol eins og Cliff Richard og Elvis Presley en það var af því þeir voru svo sætir og sungu svo æðisleg lög. Svo komu Bítlarnir til skjalanna og eftir þá hef ég ekki fundið neitt betra til að trúa á. Þeir sögðu allt sem þurfti að segja.

Ég hef reynt að finna mig á ýmsum vettvangi, nenni ekki að telja það allt upp en mér finnst bara að ég sé enn bítlastelpa. Friður, ást og kærleikur. Hafa áhuga á náunganum og sjá litlu skemmtilegu hlutina í lífinu sem er allt um kring. Bítlarnir eru því miður hættir að koma saman en samt lifir ýmislegt sem þeir sögðu.

Mér datt þetta í hug þegar ég var að horfa á Silfrið í dag. Það að horfa og hlusta á Silfur Egils gerir það að verkum að ég sé enn von í þessu landi. Það kom alltaf einhverjir svo gáfaðir og klárir í þáttinn að ég finn þessa von að þjóðinni verði bjargað.

Og ædolið mitt á þeim vettvangi er hagfræðingurinn Þorvaldur Gylfason.

Ef einhver spyr mig af hverju hann sé það sem þú trúir á, verð ég bara að fá að svara eins og þegar ég var spurð um Bítlana hér áður: "Af því bara."


Mismunur á lífeyri

Ég man eftir Guðna Ágústssyni á sveitaböllunum í den. Hann er líklega árinu eldri en ég. Við höfum bæði unnið fyrir hið opinbera mest alla ævina. Bæði að búa betur í haginn fyrir komandi kynslóðir.

Hann hætti í vinnunni, ófarvarandis um daginn. Ekki ég.

Hann hefur miklu hærri laun en ég og hann mun hækka um 200 þúsund þegar hann verður sextugur.

Hann mun njóta góðs af eftirlaunafrumvarpinu sem var sniðið handa Davíð.

Ég er farin að íhuga hvenær ég hætti í vinnunni. Ég veit að ég get ekki hætt þegar ég verð sextug af því launin mín munu lækka svo mikið við það eitt að fara á lífeyri.

Er skrítið að maður tuði?

Og Ingibjörg Sólrún sem lofaði að koma eftirlaunabullinu frá.


Óraunverulegur draumur

Í fantasíunni í framtíðinni

sé ég fallega liti, birtu og gleði

Í veruleikanum virði ég fyrir mér

vonleysi, reiði og kvíða

Ég vildi að ég gæti horfið

inn í fantasíuna


Friðsæl mótmæli

Við, Simmi minn, vorum á Austurvelli í gær á mótmælafundi. Við urðum dálítið hissa þegar við horfðum á sjónvarpsfréttir í gærkvöldi og komumst að því að þar hefðu orðið einhver læti. Þau fóru alveg fram hjá okkur.

Við urðum jú vör við hávaðann og reykspólunina frá mótórhjólagæjunum en þeir létu Alþingishúsið hverfa í reyk rétt áður en fundur hófst. Það var tilkomumikið, ég viðurkenni það. Þeir voru ekki á vegum þeirra sem skipulögðu fundinn. Hörður Torfa sagði að þeir hefðu lofað að gera þetta ekki.

Við sáum líka strákinn sem dró Bónusfánann að húni. Hann truflaði fundinn þannig að það sem ræðumaður var að segja á meðan á fánadrættinum stóð fór fyrir ofan garð og neðan hjá flestum því það var dálítið fyndið að sjá Bónusfánann þarna við hún í nokkur augnablik.

Við misstum af fleiri uppákomum. En það gerðu fjölmiðlar greinilega ekki.

Ég held að þeir  hefðu frekar átt að fjalla um efni fundarins heldur en að koma með æsingafréttir af honum.

Fjölmiðlar bera ábyrgð.


Feluleikur

Ég heyrði því fleygt um daginn að pappírstætarar væru uppseldir á landinu.

Ég heyrði því líka fleygt að menn væru í óða önn að farga hörðu diskunum sínum.

Ætli það séu margir sem hafa eitthvað að fela?

Það skyldi þó aldrei vera.


Spilling

Ég var að vona að við mér blasti eitthvað nýtt þegar ég kíkti inn á einkabankann minn í dag.

En því var nú ekki að heilsa.

Engum hafði hugkvæmst að afskrifa skuldirnar mínar.

Þær voru þarna og æptu á mig.

Mér finnst að það ætti jafnt yfir alla að ganga.

Ég er með svona jafnaðarhjarta.

Djöfuls spilling.

Spilling á Íslandi.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband