Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Skúrað út

"Ertu vön að setja skóna út á stétt þegar þú ryksugar og skúrar forstofuna," spurði Simmi minn þegar hann ákvað í dag að hjálpa mér við þrifin á kotinu okkar.

Hann ákvað að ryksuga en ég mátti skúra.

"Já, það auðveldar talsvert að skúra forstofuna ef ekkert er að þvælast fyrir mér," kallaði ég til baka.

Ég heyrði að hann fór eitthvað að bauka í forstofunni með útidyrnar opnar og bað mig svo um að koma og sjá hversu hallaðist á hann þegar kæmi að skóeign okkar hjóna.

Hann hafði raðað sínum skóm öðru megin á stéttina fyrir utan og skónum mínum, sem voru í forstofunni, hafði hann raðað hinum megin.Skótau 002

Ég yrði voða fegin ef ég gæti látið eitt skópar duga við öll dress eins og hann Simmi minn gerir en það er bara ekki þannig hjá mér.Skótau 007

 


Rétt klædd

Það rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég var að tygja mig af stað í morgun, í áhættumat hjá Hjartavernd, þegar ég lenti fyrir 20 árum eða svo í hjartarannsókn og fór í nýju flottu samfellunni minni. Ég vissi ekki að ég yrði sett í þrekpróf á hjóli og varð að fara úr að ofan. Ég var tengd með vírum í einhverja vél og var látin hjóla í óratóma, að mér fannst. Þarna varð ég að hamast á hjólinu með brjóstin dinglandi út um allt. Þrír ungir karlmenn voru að sniglast í kringum mig. Ég hefði verið í haldara ef mig hefði grunað í hverju ég lenti.

Vegna þessarar reynslu fór ég ekki í samfellu í morgun en var þá auðvitað ekki sett á hjól í þrekpróf. Það verður bara gert ef lækni sýnist að þess þurfi eftir að ég fer í viðtalið, sem er seinni koma vegna áhættumatsins.

Það er alltaf jafn erfitt að vita hvernig maður á að vera klæddur.


Aftur í eróbikk

"Mittistaska?  Nei, það getur ekki verið, ég er ekki með neina mittistösku."

Þetta var hugsunin sem skaust upp í heilabúið mitt þar sem ég var í "eróbikkleikfimi" eftir eins og hálfs árs hlé. Ég stóð í þeirri góðu trú að morgunsundið og gönguferðirnar hefðu gert eitthvert gagn og haldið mér í þokkalegu formi.

Ég man samt ekki eftir því, síðast þegar ég var í leikfimi, að mér fyndist ég slá lærunum í mittistösku þegar ég gerði hnélyftur. En sú varð raunin í gær. Það var eitthvað þarna fyrir lærunum. Tekið skal fram að ég get lyft hnjánum nokkuð hátt en nú strandar allt á einhverju þarna á maganum.

Það skyldi þó aldrei vera að maginn hafi stækkað eitthvað. Það er eins gott að mæta í leikfimi aftur.

En  ég var samt mjög ánægð með að komast harmkvælalaust  í gegnum tímann.


Eftirlát amma, verri tengdamamma

“Amma, I need Mavis," sagði Lúkas Þorlákur við mig í símann áðan. Ég þurfti að fá útskýringu á Mavis hjá mömmu hans. Mavis er sem sagt ein af lestunum í lestasafninu hans. Hann safnar Thomas and friends lestunum og á svo mikið af teinum, húsum, lestum og dóti sem fylgir þessu að það þekur stofugólfið heima hjá honum.

En upp úr þurru í dag, þegar hann var að leika sér að lestunum sínum, sagði hann meira við sjálfan sig: "I need Mavis, amma kaupa Mavis." Þegar hann heyrði að mamma hans var að tala við mig í símann bað hann um símtólið og tilkynnti mér þetta. Nú verð ég að athuga hvort Mavis fáist á Íslandi og senda barninu, annars verð ég að gera aðrar ráðstafanir. Lúkas verður að eignast Mavis.

Áður en við mæðgur kvöddumst heyrði ég að tengdasonur minn sagði það hátt að ég átti að heyra:"I need tölvu. Gunna kaupa tölvu." (Merkilegt, orðið tölva er notað á þessu breska heimili).

Það er ekki leiðinlegt að eiga breskan tengdason þegar maður elskar breskan húmor.

Eða á ég kannski að hlaupa út í búð og kaupa tölvu?


Skemmtileg menningarnótt

Menningarnótt byrjaði hjá okkur Simma mínum með því að horfa á Latabæjarhlaupið. Af því að ég hafði skráð sonardótturina í hlaupið fannst mér ég bera svolitla ábyrgð á þessu.  Nanna stóð sig aldeilis vel, hljóp af miklum krafti alla leiðina og tók þessu af mikilli alvöru. Enda var hún að hlaupa fyrir fátæk börn í útlöndum.

Eftir hlaupið fórum við á rand. Við vorum í því að sýna okkur og sjá aðra. Alda og Valdi voru með okkur og lentum við á hinum og þessum stöðum eins og á jasstónleikum í glertjaldi, rokktónleikum í porti við Laugaveginn, hlustuðum á  Stjána stuð og konu hans, drukkum bjór, hlustuðum á Þorvald Halldórsson og konu hans syngja Drottinn er minn hirðir, keyptum geit í Malaví, sáum dansflokka, misstum af vinum okkar Færeyingum, nutum veðurblíðunnar, spjölluðum við fólk, fengum okkur pizzasneið og pepsí svo fátt eitt sé nefnt.

Um kvöldmat mættum við svo á pallinn hjá Vesturgötuliðinu og tókum þar þátt í 200 manna garðveislu. Eigendur hússins voru að fagna að þeir eru næstum því búnir að taka húsið í gegn að utan. Tveggja ára vinnu að ljúka. Húsið hefur líka tekið stakkaskiptum. Þar var búið að hengja upp skrautljós, allskonar, og koma fyrir hátalarakerfi.  Þar tróðu upp hljóðfæraleikarar og skemmtikraftar á öllum aldri og öllum boðið í grillaðan mat. Heill lambaskrokkur var grillaður á teini og 20-30 kíló af fiski. Gestir voru líka á öllum aldri, frá nokkurra mánaða til rúmlega áttræðs.

Við skemmtum okkur konunglega. Við erum að vonum rosalega ánægð með að skólafélagar Kalla, sem við höfðum ekki hitt áður,  trúðu því ekki að við værum foreldrar hans. Héldu að við værum jafnaldrar hans. Annaðhvort erum við svona ungleg eða Kalli svona karlalegur. Ha, ha!


Önnur fjallaferð

"Hvernig heldurðu að vegirnir þarna inn eftir séu?" spurði Simma minn Dodda Gríms þegar hann heyrði talað um að keyra í kringum Kerlingafjöll á sunnudaginn var.

"Vegirnir," sagði Doddi og hló. "Það eru engir vegir, kannski slóðar."

Ég sá að Simmi minn varð enn spenntari við þessar fréttir.

"Hvað heldurðu að þessi ferð taki langan tíma?" spurði Simmi. Laufskálahátíð 2007 022

"Svona þrjá til fjóra tíma, kannski fimm," svaraði Doddi. "Annars veit hann Bjössi hennar Systu allt um þetta hann hefur farið svo oft."

Við fengum að slást í för með þremur öðrum bílum sem voru að fara í fjallaferð. Jóna og Finni sátu í hjá okkur. Þau vildu ekki heldur missa af þessu ævintýri. Farið var frá Flúðum inn á Tungufellsveg og þaðan inn á Hrunamannaafrétt. Í fyrstu var um veg að ræða sem við gátum fylgst með á korti en síðan breyttist vegurinn í slóða og eftir að við fórum hjá Svínárnesi var eiginlega bara troðningur og er hann ekki merktur inn á kort. Það tók okkur um sex tíma að komast inn í Setrið, sem er skáli 4x4 klúbbsins. Þaðan var farið í Kerlingafjöll og upp  á Kjalveg og eftir það var vegurinn greiður til  byggða.

Ferðin tók alls tíu tíma og sé ég ekki eftir einni einustu mínútu.

Ég vildi að ég ætti orð til að lýsa fegurð landsins míns. Laufskálahátíð 2007 035

Ef ég reyndi yrði ég örugglega allt of væmin.

Það vantar í mig skáldið til þess að gera það vel.

Það verður að upplifa fegurðina til að skilja.


Aldrei of gamall að leika sér

Þegar ég kom heim úr 10 daga ferð um fallega landið mitt, varð ég þess áskynja að ég hafði verið klukkuð. Séra Baldur nefnir mig, ásamt nokkrum öðrum, í sambandi við þennan furðuleik á netinu. Ég hef séð þetta einhvers staðar áður og fundist eins og að þessi leikur sé búinn til handa þeim sem hafa ekkert hugmyndaflug.

En þegar presturinn minn nefnir mig til sögunnar get ég ekki sagt nei. Mér skilst að ég þurfi að nefna átta staðreyndir um sjálfa mig og helst það sem fáir eða enginn veit nú þegar. En þá kom upp vandamál. Ég er alltaf svo sjálfhverf í mínum skrifum og segi öllum allt um mig, þannig að ég á enginn leyndarmál til að upplýsa, og þó, eftir nokkrar vangaveltur fann ég þetta:

1. Ég er haldin óstjórnlegri símafælni. Mér finnst allt í lagi að svara í síma en hræðilega erfitt að hringja. Það er alveg sama í hvern. Það reynir á mig. Ég svitna í lófunum og fæ aukinn hjartslátt ef ég þarf að hringja. Ég er sérfræðingur í að humma fram af mér símtöl.

2. Ég á hallærislegasta "lagið okkar" í heimi. Það er Angelía með Dúmbó og Steina.

3. Ég hef aldrei þolað lagið House of the rising sun. Það er engin sérstök ástæða fyrir því.

4. Mér finnst hundleiðinlegt að synda þó að ég hafi synt á hverjum morgni í nokkur ár, þannig að ég er fegin innst inni að sundlauginni hefur verið lokað í eitt ár.

5. Ég hef þróað með mér ódýran smekk á rauðvínum. Einstöku sinnum kaupi ég "dýrt" rauðvín og undantekningarlaust finnst mér það verra en þessi ódýru sem ég kaupi venjulega.

6. Ég á erfitt með að rata um höfuðborgarsvæðið. Ef ég fer ein á bíl lendi ég eiginlega alltaf í smávandræðum.

7. Ég sá einu sinni svo fallegan mann á flugstöð í Lúxemborg að ef hann hefði gefið mér bendingu um að koma með sér hefði ég gleymt Simma mínum og horfið.

8. Ég féll á landsprófi 1966 en tók fjórða bekk með glans og komst í gegnum Kennaraskólann með ágætum.

Nú á ég að klukka átta menneskjur. Það er búið að klukka flesta sem ég veit að lesa mig þannig að enn lendi ég í vandræðum. En ég get nefnt dóttur mína, Hörpu litlu Guðfinns, Huldu litlu Gunn og Hrönn Guðfinns. Ég nefni Siggu Guðna líka því hún hefur ekki svarað klukki og gaman væri ef Þórdís og Birgitta segðu frá sér. Og hvar ertu Daníel Haukur?

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband