Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Nám barna af erlendum uppruna

Ég þurfti í dag að setja hugsanir mínar á blað, án mikillar umhugsunar, og senda það sem ég skrifaði í tölvupósti til ókunnugrar manneskju.

 

Ég fékk, í tölvupósti frá einum framhaldsskóla í landinu, beiðni um það að ef ég hefði einhverjar hugmyndir um hvernig framhaldsskólinn geti bætt móttöku nemenda af erlendu bergi brotnir þá væru allar ábendingar vel þegnar.

 

Ég lét skoðun mína flakka en hún er sú að ef grunn-og framhaldsskólinn ætli að koma til móts við þarfir nemenda af erlendum uppruna þá verði að ráða til starfa kennara sem tala móðurmál nemendanna. Það er útilokað að nemendur sem koma erlendis frá og fara beint í efstu bekki grunnskólans, geti með nokkru móti nýtt sér það námsframboð sem framhaldsskólar bjóða upp á. Þeir geta ekki verið orðnir það færir í íslensku og íslenskri menningu að námið verið þeim að gagni.

 

Fjöldi nemenda af erlendu bergi, sem flosnar upp úr námi, sýnir þetta.


Að loknu páskfríi

Senn lýkur þessa indæla páskafríi. Ég hef verið að velta því fyrir mér í hvað ég hef eytt frídögunum eftir að ferming var yfirstaðin og Veilsverjarnir voru flognir til síns heima. Ég hef mestmegnið:

Borðað, drukkið, bragðað, snætt,

blásið, gúffað og etið,

hugsað, talað, hlegið, rætt,

hangið, legið og setið.

Sem sagt, varla gert neitt af viti og er því meira en tilbúin til þess að hitta samstarfsfólkið á morgun og ekki síður nemendur mína.


Ömmubörn

Þegar Nanna ömmustelpa hringdi áðan úr gemsa stödd í Hrútafirði þá datt mér í hug þetta myndmynd sem ég tók af henni og Kolbeini sumarið 2004.

Og hér er Lúkas Þorlákur nokkurra mánaða gamall en veit hvað hann vill.


Gleðilega páska

Þegar börnin mín voru lítil þá skriðu þau gjarnan upp í til okkar á páskadagsmorgun með páskaeggin sín. Það var sama hvaða ráðstafanir ég gerði með að hlífa rúmfötunum fyrir súkkulaðiklíningi þá kom það fyrir ekki. Rúmið mitt varð alltaf útbíað í súkkulaði.

Núna kemur enginn með páskaegg upp í til mín og rúmfötin eru tandurhrein. Ég hef stundum sagt að ég sakni þess að fá ekki súkkulaði í rúmfötin. Mér hefur verið bent á það sé minnsti vandi að klína súkkulaði hér og hvar en það er nú ekki alveg það sama.

páskaeggÉg óska öllum gleðilegra páska.


Dónadúettinn

 Við, Simmi minn, vorum límd við tölvuskjáinn klukkan korter yfir átta í kvöld þar sem við gátum hlustað á beina útsendingu frá hátíðinni Aldrei fór ég suður sem er á Ísafirði nú um páskahelgina.

Ástæðan var sú að Dónadúettinn var að skemmta þar. Dónadúettinn skipa þeir félagar, Ottó Tynes og Karl Ægir. Af því ég hef heyrt í þeim áður þá bauð ég mömmu og pabba ekki að koma í kvöld og hlusta þó að mamma dýrki elsta barnabarnið sitt og vill fylgjast með öllu sem hann gerir.

Ég gúgglaði að gamni mínu Dónadúettinn og eftirfarandi var meðal annars sem kom upp:

Dónadúettinn (e. the duette of rudeness) is one of the rudest bands ever to emerge from Iceland. Their lyrics are about rude shop assistants and all kind of general rudeness. They have whritten songs like “I don´t give a damn” and “Larger penis”

Ég hringdi í Kolbein til að athuga hvernig honum hefði fundist pabbi sinn standa sig en honum fannst hljómsveitin á undan miklu betri.

Þrátt fyrir dónaskapinn þá grenjuðum við Simmi minn, úr hlátri hérna heima. En það er kannski bara af því að við erum ekki hlutlaus.


Heimsmynd

McArthurÉg hef lært að skilja marga hluti upp á nýtt og lært að sjá ýmislegt með öðrum augum eftir að ég fór að kenna börnum af erlendu bergi brotin. Ég hef þurft að fara út úr mínum litla heimi og kasta burtu skoðunum mínum og því sem ég hef haldið að væri það eina rétta. Ég hef orðið miklu umburðarlyndari á undanförnum árum gagnvart menningu annarrra þjóða og reyni að taka öllu með opnari huga en ég gerði áður.

Samt fékk ég eins og högg í magann þegar ég sá kort McArthurs í fyrsta skipti. Minn heimur er allur hugsaður út frá Evrópu í miðjunni og að norður sé upp. Ég hafði mjög gott af því að sjá að heimurinn er ekki endilega eins og ég hélt að hann væri. Mér fannst fyrst pínulítið móðgandi að hafa Ísland í horninu lengst til hægri en svona hlýtur mörgum nemendum mínum að líða þegar við erum að leita að landinu þeirra á heimskorti og það er kannski úti í horni eða ekki til í skólanum nema pínulitið og varla nothæft.


Stórinnkaup

Það ræðir ekki um annað en að fara af bæ til þess að gera stórinnkaup. Þess þurfti ekki um tíma þegar við í Þorlákshöfn vorum svo lánsöm að hafa lágvöruverslun hér í bæ.

Krónan var hér í eitt eða tvö ár. Þegar raddir heyrðust um að það ætti að loka þeirri verslun risu íbúar upp og vildu fá fund um málið. Það var gert. Forsvarsmenn Krónunnar komu á íbúafund þar sem málin voru rædd. Þar var gerð samþykkt. Íbúar Þorlákshafnar lofuðu að versla meira og Krónumenn lofuðu að standa sig betur hvað vöruúrval og gæði varðaði. Íbúarnir stóðu við sitt. Ég þori að fullyrða að flest allir Þorlákshafnarbúar gerðu sín innkaup í Krónunni. Krónumenn stóðu ekki alveg eins vel við sitt. Vöruúrval var ekki nógu gott og iðulega fengum við gamalt og þreytt grænmeti.

Einn góðan veðurdag, þegar Þorlákshafnarbúar komu á fætur, hafði orðið breyting á í skjóli nætur. Nýtt skilti var komið á verslunina. Nú hét hún Kjarval. Innan dyra var allt óbreytt nema verðið. Það hafði tekið stökkbreytingu.

Þegar ég kom úr Bónusferð minni í dag voru tveir bílar við Kjarval. Í Bónus í Hveragerði var svo mikið að gera að það var ógerningur að taka kerruna með inn í kælirýmin. Enda voru margir Þorlákshafnarbúar þar að gera  páskainnkaupin.


Stutt stopp

Það gerir okkur svo miklu auðveldara fyrir að hitta dótlu og fjölskyldu síðan Icelandair fór að fljúga beint til Manchester. Svava Rán og Lúkas Þorlákur skruppu um helgina til Íslands til þess að vera við fermingu Kolbeins. Dave átti því miður ekki heimangengt. Þó að þau stoppi bara í þrjá daga þá er það betra en ekki neitt. Núna er Lúkas farinn að þekkja okkur og hann man greinilega eftir októberheimsókninni því hann mundi hvar dótakassinn er og hann leitaði að ákveðnum bíl í honum. Hann vissi líka hvar dótið er hjá langömmu sinni.

1.apríl 2007 024Fjölskyldan mín að leika sér í Skötubót.

Okkur finnst alltaf jafn  skondið að tala við Lúkas því hann skilur íslenskuna alveg en svarar á ensku. Hann er heppinn að hin barnabörnin mín eru enskumælandi líka þannig að tjáskiptin eru ekkert vandamál. Þau tala reyndar amerísku en Lúkas bresku eða öllu heldur ensku eins og Walesbúar í Norður-Wales tala hana. En það kom ekki að mikilli sök.

Þegar Lúkas var á Íslandi í október héldum við upp á þriggja ára afmælið hans þó það væri ekki fyrr en 6. nóvember. Það var gert til þess að hann hitti alla ættingjana og til þess að ættingjarnir sæju hann. Núna misskildi sá stutti eitthvað því hann var alveg viss uma að fermingarveisla Kolbeins væri afmælisveislan hans. Hann marg endurtók að það væri afmælið hans í dag og hann fengi gjafir.

"I love parties. I love presents. I love train presents," sagði hann við mömmu sína þegar hún sagði honum að hann færi í veislu á Íslandi.

Nú er mest hættan á því að hann haldi að hann eigi alltaf afmæli á Íslandi þegar stórfjölskyldan kemur saman. Hann mun koma næst til Íslands um næstu áramót og þá mun stórfjölskyldan einimitt hittast til að að fagna nýju ári.


Ferming

Ferming Kolbeins 051Það gerist ekki oft að við Simmi minn höfum öll barnabörnin okkar í einu en þannig stund áttum við í dag.

Elsta barnabarnið okkar var fermt í dag. Löggilti unglingurinn var tekinn í kristinna manna tölu. Um þá athöfn sá séra Örn Bárður í Neskirkju. Athöfnin var falleg og á léttu nótunum. Karl Kolbeinn tók þá ákvörðun sjálfur að vilja fermast. Hann hafði verið færður til skírnar á sínum tíma og vildi nú staðfesta það fyrir guði.

Eftir athöfnina var haldinn veisla í Kiwanishúsinu í Þorlákshöfn.  Þar mættu 80-90 ættingjar og vinir til þess að fagna með pilti. Hann var rosalega ánægður með veisluna sjálfur. Hann var með áhyggjur af því að fólk gæti ekki talað saman í svona veislu af því það þekkti ekki hvert annað en annað kom á daginn. Þó að þröngt væri á þingi leið gestum vel og enginn var þvingaður eins og Kolbeinn var hræddur um. Ömmusystir hans úr móðurættinni spilaði á harmónikku og sýndar voru í sjónvarpi myndir úr ævi Kolbeins frá fæðingu til fermingar.

Ekki spillti fyrir gleði Kolbeins með daginn þegar hann tók upp fermingargjafirnar en þær voru margar og góðar.


Brúðkaupsafmæli

Það var ekki í tísku að gifta sig á hippaárunum. Það þótti frekar hallærislegt. En ég var svo gamaldags að ég vildi gifta mig og það í kirkju. Þegar doktorinn var fæddur ræddi ekki um annað en að vera búin að staðfesta ráð sitt áður en hann yrði færður til skírnar. Ef það yrði gert slyppi barnið við að vera lausaleikskrói. Það gat ég ekki hugsað mér.

Á þessum degi fyrir 35 árum, sem bar upp á skírdag,  dró ég hann Simma minn út í Selvog og lét hann giftast mér í Strandakirkju. Ég var í kjól sem ég hafði saumað mér árið áður og hann í jakka og buxum úr Karnabæ. Foreldrar okkar komu með til að vera vottar. Það var engin tónlist og ekkert vesen. Séra Tómas Guðmundsson sá um að gefa okkur saman og það hefur tekist svona vel hjá honum að við erum enn í þessu hjónabandi. Við sváfum brúðkaupsnóttina á Hótel Sögu en drifum okkur svo heim fljótlega daginn eftir til þess að færa drenginn okkar til skírnar. Hann var skírður í messu sem var haldin í skólanum, því engin kirkja var þá Þorlákshöfn.

Skipsfélögum Simma míns fannst þetta ekki ná nokkurri átt að vera að taka sér frídag á sjónum svona á hávertíðinni og það til að gifta sig.

Ég réði í þá daga.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband