Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Misskilningur

"Við eigum nóg af fötum til að blanda í," sagði ég við Simma minn þegar við vorum búin að kaupa okkur múrblöndu í Múrbúðinni til þess að gera við múrskemmdir á húsinu okkar. Við vorum komin út í bíl og á leiðinni á næsta áfangastað.

Simmi leit á mig með furðulegan svip á andlitinu og tautaði:"Fötum, jakkafötum, blanda hvað? Erum við að fara eitthvað?"

Hann var greinilega ekki að pæla í múrblöndu í plastfötu heldur datt honum partý í hug.


Þegar kynslóðir mætast

Ég fór óvenjusnemma á fætur í morgun. Tilefnið var að fara í höfuðborgina og leika mér við Nönnu ömmustelpu fyrir hádegi. Þegar við vorum búnar að ræða dálitla stund um baby born þá setti sú stutta disk í græjuna af því hún vildi leyfa mér að heyra uppáhaldslag sitt um  þessar mundir. Áður en ég vissi sjálf af hoppaði ég um gólfið fram og til baka og notaði til þess öll gömlu eróbikksporin sem ég notaði í den þegar við Anna Lú  vorum með stelpurnar okkar í Þolló á fullu í þolfimi.

Lagið sem Nanna spilaði var einmitt í sama "bíti" og við notuðum þegar allt var komið á fullt skrið. Brennslan á fullu og allt að gerst í líkamanum. Hávaði og fjör og svitinn lak í stríðum straumi.

Þegar fortíðarþráin bráði af mér og ég komst aftur til nútíðar leit ég á ömmustelpu og bjóst við að sjá furðu- og hneykslunarsvip í andlitinu á henni. Það var öðru nær. Hún ljómaði.

"Amma, þetta eru alveg eins spor og við notum í upphitun í Kramhúsinu."

Það eru bara fimmtíu ár og fjórtán dagar á milli okkar.

 


Í sumarfríi

Ég er búin að fara í útilegu núna þrjár helgar í röð. Mér finnst eins og það sé orðin vinnan mín. Virka daga vafra ég um og reyni að finna mér almennilegt að gera svo ég drepist ekki úr samviskubiti yfir því að hafa það svona gott.  Það hefur tekist mjög vel hjá mér. Til að sefa samviskuna þá þríf ég eitt og eitt herbergi þegar ekki viðrar til útiveru.

Mér finnst nefnilega svo gott að sofa frameftir og eyða deginum í krossgátur og sudokur og vafra á netinu og liggja í leti og lesa bækur og hlusta á útvarpið og glápa á imbakassann og vera í sólbaði. Þetta hljómar ekki eins og að um innihaldsríkt líf sé að ræða en á meðan ég þríf sæmilega í kringum mig og veit að þetta ástand varir aðeins um nokkurra vikna hríð þá er ég alsæl.


Heimakynning

Það hefur áreiðanlega verið nokkuð klókur sálfræðingur sem fann upp sölumennskuna að selja konum hitt og þetta í heimahúsum. Við þetta sparast húsnæði fyrir verslunina og allt sem því fylgir að reka húsnæði, laun starfsfólks, auglýsingar, gluggaútstillingar og margt fleira. En aðalsálfræðitrikkið er að fá fólk saman og hlusta á kynningu á hinni frábæru vöru sem er verið að selja og múgæsingin byrjar.

Ég ætti til dæmis ekki fulla skápa af Tuppervare nema af því ég lét telja mér trú um það að það væri ekki hægt að búa nema eiga hitt og þetta frá Tuppervare.

Ég hefði aldrei keypt mér rauðu háhæluðu skóna úti í búð. Ég á þá af því var á heimakynningu á skóm.

Ég hefði aldrei keypt handáburð og rakspíra fyrir 7500 kr. nema af því ég var Volarekynningu.

Ég fór að pæla í þessu eftir að ég var á heimakynningu á fatnaði í gærkvöldi og fylgdist með konunum máta fötin.  Konurnar hrósuðu hver annarri fyrir það hve flottar þær væru, hvað þær sýndust grennri og hvað þetta klæddi þær vel.  Þannig að þær verða allar að svakalegum sölumönnum án þess að gera sér grein fyrir því. Sölumönnum sem fatafyrirtækið borgar ekki fyrir.

Klók sölumennska.


Kvenréttindadagurinn

Ég skil ekki alveg hugmyndina með bleika litinn en ef það hjálpar í jafnréttisbaráttunni þá var ég með bleikt naglalakk í dag, líka á tánöglunum. 

Ég veit í þessum orðum er hljómur af  beisku vonleysi.  Síðan ég man eftir mér hefur kvennabarátta staðið yfir og ég tekið þátt í henni en svo ótrúlega lítið áunnist. Mér finnst það eiginlega kaldhæðni þegar konum er óskað til hamingju með að hafa fengið kosningarétt á þessum degi árið 1915.  Hvernig mátti það vera að konur máttu ekki kjósa? Það virðist bara enn þann dag í dag svífa yfir vötnunum hugsun fyrri alda. Því miður.

Ég veit að ég verð að segja áfram stelpur, ég veit að það má ekki láta deigan síga.


Í útilegu

Þegar ég eignaðist Sólbrekku, í  hitteðfyrra, bjó töffaratáningurinn hjá okkur og neyddist til þess að fara með okkur í ferðalög. Ekki skilur maður óharðnaðan ungling eftir einan heima. Honum fannst þetta útileguvesen algjör hryllingur. Nema það hafi verið dvölin með ömmu og afa í 24 tíma á sólarhring sem gerði útslagið. Hann hneykslaðist ofan í rassgat fyrir það hvernig við höguðum öllu til í útilegunum og ferðalögunum.

"Þið reynið að gera allt eins og það er heima, með klósett og sjónvarp og allt, af hverju eruð þið ekki bara heima?" spurði hann.

Já, það er nú það, af hverju er að verið að þeytast með Sólbrekku hingað og þangað um helgar og reyna að hafa allt eins og heima. Eitthvað er heillandi við að ferðast, skoða landið, sofa úti og ekki hvað síst að hitta fólk þegar komið er á tjaldsvæði.

Um liðna helgi dvöldum við á tjaldsvæði í Hraunborgum í Grímsnesi. Þar hópaðist saman stór hópur úr Þolló, alveg óvart. Fólk sem þekkist en hittist ekki að öllu jöfnu dags daglega. Það er bara gaman að eiga samskipti við kunningja sína þar sem allir koma saman með sama tilgang í huga. Að njóta þess að vera úti og slaka á í guðs grænni náttúrunni.

Töffaratáningurinn kom í heimsókn með foreldrum sínum og sér núna ferðalögin með ömmu og afa fyrir tveimur árum í rómantísku ljósi. Þau voru hjá okkur seinni nóttina og það fer ótrúlega vel um alla í Sólbrekku.


Gullsól

Kvöldsólin breytti 

ormétnum runnunum í garðinum mínum

í gulltré

í hrifningu minni gleymdi ég

að nota Sony myndavélina mína

en heilinn í mér tók mynd

framkallaði hana

og hengdi upp á bak við augun í mér

en þar sér hana enginn nema ég sjálf


Bragð er að þá barnið finnur

NKSíminn hringir.

Amma: Halló!

Nanna: Amma, hvað viltu fá í afmælisgjöf?

Amma: Elskan mín, ég á svo mikið dót að ég þarf enga afmælisgjöf. (Ég vissi um leið að þetta svar var ekki það sem sjö ára vill heyra),

Nanna: Já, en amma, hvað langar þig helst í?

Amma: Ég er orðin svo gömul að ég vil ekki afmælispakka.                                                               (Ég vissi líka að þetta var ekki nógu gott svar).

Nanna: Amma, viltu ekki einu sinni rauðvín?


Að eldast

Og svo þegar ég vaknaði í morgun, eldspræk og hress var ég orðin ári eldri. Þau hlassast á mann árin hvert af öðru, hraðar og hraðar og maður fær ekki rönd við reist. Það er bara að taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti, og þakka fyrir þokkalega heilsu. Svona er maður nú orðin gamall.

Í dag

Í dag setti ég niður sumarblóm.

Í dag var bletturinn sleginn.

Í dag bauð ég fólki í mat á morgun.

Í dag fengum við í skólanum frábæran fyrirlestur um sjálfsmynd, sjálfstraust og samskipti á vinnustað.

Í dag gaf guðsonur minn mér humar.

Í dag kom sumarið.

Í dag eignaðist ég nýja skó.

Í dag gerðum við Sólbrekku klára í ferðalög.

Í dag grillaði ég bestu hamborgara forever.

Í dag gerði ég margt annað skemmtilegt.

Það er bara gaman að vera til.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband