Í útilegu

Þegar ég eignaðist Sólbrekku, í  hitteðfyrra, bjó töffaratáningurinn hjá okkur og neyddist til þess að fara með okkur í ferðalög. Ekki skilur maður óharðnaðan ungling eftir einan heima. Honum fannst þetta útileguvesen algjör hryllingur. Nema það hafi verið dvölin með ömmu og afa í 24 tíma á sólarhring sem gerði útslagið. Hann hneykslaðist ofan í rassgat fyrir það hvernig við höguðum öllu til í útilegunum og ferðalögunum.

"Þið reynið að gera allt eins og það er heima, með klósett og sjónvarp og allt, af hverju eruð þið ekki bara heima?" spurði hann.

Já, það er nú það, af hverju er að verið að þeytast með Sólbrekku hingað og þangað um helgar og reyna að hafa allt eins og heima. Eitthvað er heillandi við að ferðast, skoða landið, sofa úti og ekki hvað síst að hitta fólk þegar komið er á tjaldsvæði.

Um liðna helgi dvöldum við á tjaldsvæði í Hraunborgum í Grímsnesi. Þar hópaðist saman stór hópur úr Þolló, alveg óvart. Fólk sem þekkist en hittist ekki að öllu jöfnu dags daglega. Það er bara gaman að eiga samskipti við kunningja sína þar sem allir koma saman með sama tilgang í huga. Að njóta þess að vera úti og slaka á í guðs grænni náttúrunni.

Töffaratáningurinn kom í heimsókn með foreldrum sínum og sér núna ferðalögin með ömmu og afa fyrir tveimur árum í rómantísku ljósi. Þau voru hjá okkur seinni nóttina og það fer ótrúlega vel um alla í Sólbrekku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

Mér þótti mjög gaman að sjá þessa Þorlákshafnarbúa alla þarna saman komna. Þetta er líka virkilega skemmtilegt tjaldstæði.

Nú ætlum við að skella okkur eitthvað út í sumarið á Lyngási um næstu helgi...ef vel viðrar...

Sigþrúður Harðardóttir, 19.6.2007 kl. 15:55

2 Smámynd: Guðrún S Sigurðardóttir

Góða ferð á Lyngási. Við hittumst kannski einhvers staðar. Samkvæmt veðurspá verður best að vera í uppsveitum Árnessýslu, sýnist mér. Annars hef ég aldrei skilið veðurspár, það verður yfirleitt öðruvísi veður en ég býst við.

Guðrún S Sigurðardóttir, 19.6.2007 kl. 19:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband