Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007
6.6.2007 | 00:01
Við skólaslit
Hvað maður getur verið stoltur af nemendum sínum.
Hvað maður getur fundið fyrir hjartahólfinu sem hver og einn hefur eignað sér.
Hvað krakkarnir geta verið flottir og fínir.
Hvað maður getur þurft að strjúka tár af hvarmi svo enginn sjái.
Hvað mann langar að segja margt en þegir af því tilfinningakökkurinn í hálsinum er svo stór.
Hvað ég óska þessum elskum öllum velfarnaðar í lífinu.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.6.2007 | 14:12
Sjómannadagurinn
Ég var stolt af Simma mínum í morgun þar sem hann var ræðumaðurinn í sjómannadagsmessunni í Þorlákskirkju. Hann hefur stundum gantast með það að það hlyti að vera fínt að vera prestur alla vega langaði hann að geta predikað. Séra Baldri hefur kannski borist þetta til eyrna einhvern tímann því hann hringdi í Simma og sagði honum að vera ræðumaður, hann bað hann ekki. Simma fannst þetta auðvitað heiður og sagði já. Ræðan varð til á Mallorka. Þar voru skráðir nokkrir punktar á blað en aðallega talaði hann blaðlaust. Þemað hjá honum var sjómennska og hans minningar um sjóróðra og það að alast upp með þorpi frá fyrstu tíð en Þorlákshöfn og Simmi minn eru jafngömul.
Að messu lokinni báru, tengdapabbi, Kalli Karls og Pétur Frikk, gamlir aflakóngar báðir tveir, út úr kirkjunni blómsveig og lögðu að minnismerki um drukknaða.
Það er alltaf gott að koma í Þorlákskirkju. Kirkjan er björt og falleg. og sér út á haf úr gluggum hennar sunnan megin. Eins og svo oft áður tók sólin að skína á meðan á messunni stóð.
Simmi endaði ræðuna sína á ljóði eftir Kristján frá Djúpalæk.
Þorlákshöfn
Þig hyllum við Þorlákur helgi
þótt högum og tækni sé breytt
þíns nafns hefur verstöð hér notið
þá náð hefur guð henni veitt.
Þú himneski faðir og herra
við heitum uns líf okkar þverr
að reynast þess verndara verðir
sem var okkur settur af þér.
Við búum við brimgnúnar strendur
vor björg er í hafdjúpið sótt
um heiðríka hásumardaga
og heldimma skammdegisnótt.
Við heitum á heilagan Þorlák
í hamingju þrautum og sorg
á aldanna rústum og reynslu
skal reist okkar framtíðarborg.
Ó, verndaðu veiðistöð þína
og vak yfir sjómannsins hag
og leið þú hann heilan af hafi
til hafnar með feng sinn hvern dag.
Vinir og fjölskylda | Breytt 21.6.2007 kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.6.2007 | 21:27
Á sólarströnd
Það voru ekki ýkja flókin markmiðin sem við, Simmi minn, settum okkur þegar við ákváðum að eyða einni viku á Mallorka. Markmiðin voru að sleikja sólina, liggja á ströndinni, sulla í sjónum, borða góðan mat og drekka góð vín. Við náðum þessu með léttum leik.
Það hefur aldrei hvarflað að mér að fara í letilíf til útlanda á skólatíma. Ætli ég hafi ekki haldið að skólinn gæti ekki gengið án mín. En nú venti ég mínu kvæði í kross, fann út þennan möguleika að komast í burtu einmitt þessa viku og lét slag standa. Þegar maður hefur verið svona lengi í þessum bransa, eins og ég, þá breytist hugsunin aðeins. Mér fannst að það hlyti að vera í lagi einu sinni á 36 ára ferli að fara í eina viku í burtu. Það getur aftur verið verra fyrir börnin að fara í frí á þessum tíma. Þau missa meira en kennarinn. Ég var alveg hissa hvað ég sá mörg börn á ferð með foreldrum sínum. Ein mamman sagði við mig að prófin hefðu verið búin og þá fannst henni í lagi að fara með börnin í frí en þá eru einmitt vordagarnir eftir sem margir foreldrar kalla leik- og föndurdaga. Þeir gera sér ekki grein fyrir allri vinnunni sem kennararnir eru búnir að leggja á sig við að undirbúa "öðruvísi" daga með börnunum sem eru ekki hvað síst mikilvægir í uppeldinu.
Við komum heim eins og brenndir snúðar og vel afslöppuð. Ég gæti alveg hugsað mér að lengja sumarið svona á hverju ári, helst í báða enda.