Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Hafnarsandur og brúðkaupsafmæli

ViðÞegar maður hefur verið giftur sama kallinum í 35 ár og átt hann fjórum árum betur, er tilefni til að fagna. Eða svo finnst mér.

Við höfum lítið breyst (eða þannig) en umhverfið sem við hrærumst í dags daglega hefur tekið stakkaskiptum. Ef þessi mynd hefði verið tekin á brúðkaupsdaginn hefði bakgrunnurinn verið kolsvartur (en ekki frakkarnir okkar). Svartur sandur. Nú er Hafnarsandurinn uppgróinn og hvern hefði órað fyrir því fyrir nokkrum áratugum.

Á þessum árum okkar höfum við vaxið og dafnað eins og gróðurinn á sandinum og vonandi orðið betri manneskjur eins og sandurinn hefur orðið blíðari að búa við.

Já, við ætlum að fagna þessum tímamótum í lífi okkar og halda hátíð.


Kólesteról

kolhjartanslyst"Þú  hefur greinilega verið að borða feita síðubita alla ævi," sagði læknirinn minn við mig þegar ég hringdi í hann til þess að fá niðurstöður úr blóðprufu sem ég fór í á dögunum. Mér brá nú heldur við þessa staðhæfingu því hún þýddi að blóðprufan hafi sýnt allt annað en ég var að vona. En læknirinn minn er húmoristi þannig að fór ekki alveg á taugum.

Ég dreif mig, sem sagt, um daginn í kólesterólmælingu. Ég ætlaði að vera búin að því fyrir löngu en framtakssemin er ekki alltaf hundrað prósent hjá mér. Það er vegna ættarsögu minnar sem ég ætlaði að vera búin að þessu. Mamma greindist með kransæðasjúkdóm 55 ára gömull og þurfti þá að fara í hjartaaðgerð.

Blóðprufan sýndi að kólesterólið mitt er 8. "Það er alltof hátt," sagði læknirinn "þú verður að taka mataræðið í gegn."  Þar sem ég hef verið að pæla í mataræði síðan ég var 17 ára og er alltaf að taka það í gegn fannst mér þetta bara skondið. Ég er fyrir löngu búin að taka af mér ýmislegt eins og sósur og kex og kökur, majones, egg og rækjur. Það hef ég gert af því ég veit að þetta er kólesterólaukandi . En hef samt á hátíðis- og tyllidögum sett þetta ofan í mig og kannski eru þeir dagar of margir í mínu lífi. Ég veit ekki. Eina dýrafitan sem ég veit að ég borða of mikið af er sú fita sem ég fæ úr osti. Ég borða mikið af feitum osti því magur ostur er eins og skósólar. Nú fer feitur ostur af matseðlinum líka og léttmjólk breytist í undanrennu.

Við morgunsundið bætist hálftíma ganga á hverjum degi og svo er að bíða í nokkrar vikur og fara aftur í mælingu og vona það besta.


Skólaferð í Skagafjörð

Til allrar guðslukku eru börnin í 10. bekk svo vel af guði gerð og vel uppalin að ég komst vel frá skólaferðalaginu þrátt fyrir að hafa lagt af stað algjörlega raddlaus. Ég veit ekki hvað kom fyrir mig á sunnudaginn nema hvað ég vaknaði raddlaus og með óstöðvandi þurran hósta. 

Á þriggja daga ferð með mínum elskulegu nemendum hefur mér ekkert batnað. Ég hef hvíslað í eyra þess sem ég þarf að tala við, en eins og ég segi, krakkarnir eru svo frábærir að ég hef aldrei þurft að beita röddinni nokkurn skapaðan hlut.

Ég var líka með frábært fólk með mér sem tók að sér að tala fyrir mig ef á þurfti. Aðstoðarskólastjórann, Jón,  og foreldrana Ingibjörgu og Pálmar sem einnig var bílstjóri krökkunum að kostnaðarlausu.

Það var farið í Skagafjörðinn og dundað við flúðasiglingar, hestamennsku og klettasig. Það var farið í sund og höfuðstaður Norðurlands heimsóttur. Nokkrir kíktu við í Glaumbæ en enginn lét neina sjoppu fram hjá sér fara. Hlustað var á tónlist, spilað á gítar og sungið, sparkað í bolta, dulítið dansað og mikið spjallað, jafnvel langt fram eftir nóttu. Allir kátir og allir góðir.

Ég er enn algjörlega raddlaus.


Í eina sæng

xD     Það skyldi  xsþó aldrei fara svo að við stjórnvölinn setjist samskonar stjórn og hefur verið á mínu heimili sl. 35 ár. Sjálfsstæðiskall og jafnaðarmannakelling.

Þetta hefur gengið alveg þokkalega hjá okkur. Við höfum ekki alltaf verið sammála en alltaf getað komið okkur saman um hlutina fyrir rest, annars hefði þetta ekki gengið. Stundum málamiðlun en stundum orrahríð.

En oftast skemmtilegt verkefni að glíma við.


Eurovision og karlmenn

evrovisionHvað er þetta með karlmenn og evróvisíon? Þeir standa allir svo gleiðir. Alveg sama hvort þeir eru að spila, syngja eða dansa. Þeir standa gleiðir. Mjög gleiðir. Af hverju??

Nei, ég bara spyr.


Krossgátufólk

 krossgátaÉg fór til Reykjavíkur í kvöld og skellti mér á bar. Ekki til þess að drekka bjór heldur til þess að ráða krossgátur. Já, það er farið að gera það á börum. Milli 30 og 40 manns var þarna mætt til þess að taka þátt í krossgátukeppni.  Ég er ekki sú eina sem get varla beðið eftir sunnudagsmogganum með sunnudagskrossgátunni, það er fullt af öðru jafn skrýtnu fólki.

Hópurinn sem ég var í vann ekki keppnina en við stóðum okkur samt vel.

Ég leit yfir hópinn til þess að finna út hvers konar fólk þetta væri, sem mætti á bar til þess að ráða krossgátur en ég fann ekki neitt sameiginlegt nema hvað allir voru mjög gáfulegir.

Ég vona að ég hafi ekki stungið mjög í stúf.


Alvarlegt minnisleysi

Ég  varð mjög pirruð út í sjálfa mig, þegar ég hafði sníkt mér far yfir fjallið til Reykjavíkur, til þess að sækja vinnubílinn hans Simma míns og uppgötvaði það þegar ég stóð á Vesturgötunni, þar sem bíllinn var, að ég hafði gleymt bíllyklunum heima.

Ég varð mjög pirruð út í sjálfa mig þegar ég ætlaði að snara mér í kápuna mína á leið minni til Reykjavíkur, daginn eftir, með elsta barnabarnið í fótboltakeppni þegar ég uppgötvaði að kápunni hafði ég gleymt heima hjá honum daginn áður.

Ég varð mjög pirruð út í sjálfa mig þegar ég var á leiðinni til Reykjavíkur með fötin sem elsta barnabarnið hafði gleymt hjá mér, daginn þar á eftir,  þegar ég í hugsunarleysi sveigði aðeins af leið og var allt i einu á leið til Hveragerðis í stað þess að fara undir brúna við mislægu gatnamótin við Þrengslaveg og Suðurlandsveg.

Ég var orðin hálf gáttuð á sjálfri mér þegar ég ætlaði að taka kápuna með mér inn þegar ég kom heim úr þeirri Reykjavíkurferðinni og uppgötvaði að ég hafði aldrei farið með kápu með mér. Hún hékk í forstofunni heima hjá mér.

Ég held að það sé eitthvað alvarlegt að ske í heilabúinu á mér.


Enn af feitu fólki

Pistill Gísla Kristjánssonar frá Osló í dag var vatn á mína myllu. Hann ræddi um þá minnihlutahópa sem enn "má" hæðast að og grínast með. Hann talaði fyrst um reykingafólk. Það má hvergi reykja nema heima hjá sér en reykingafólk býr við þá staðreynd að fasteignasalar vilja ekki selja húsin þeirra ef reykingalykt finnst í þeim.

Hinn minnihlutahópurinn er feitt fólk. Gísli talar um síðasta minnihlutahópinn. Það er enn hæðst að því og það látið skammast sín fyrir útlitið. Feitt fólk hefur þann stimpil á sér að geta ekki stjórnað sér. Það borðar of mikið og hreyfir sig of lítið. Feitt fólk er heimskara en grannt. Feitt fólk á erfitt með að fá vinnu því granna fólkið gengur fyrir. Feitt fólk getur skaðað ímynd fyrirtækja.

Hommar og lesbíur hafa gengið fram fyrir skjöldu og sagt:" Svona erum við og við höfum ekkert að fela." Feitir eiga eftir að kasta víðu felufötunum og segja slíkt hið sama.

Ég hlustaði á pistilinn í bílnum á leið minni heim úr höfuðborginni þar sem annað erindi mitt þangað var að kaupa mér bikini sem ég og gerði.  

Nú er spurningin hvort ég þori að ganga fram fyrir skjöldu og spranga um í bikini með kellingabumbuna framan á mér og fellingar hér og þar eða hvort bikinið fer bara inn í skáp.

 


Megi feitir fá að vera feitir í friði

Ég hef ekki heyrt um megrunarlausa daginn fyrr en ég las um hann í aukablaði sem fylgir Fréttablaðinu í dag. Hann ku hafa verið stofnaður 6. maí 1992 af konu nokkurri sem heitir Mary Evans Young. Það hefur verið fyrir þann tíma sem hún dótla mín ákvað að berjast fyrir tilverurétti feitra manna og kvenna. Ég held að henni hafi ekki orðið mikið ágengt en hefur núna loksins fengið skoðanasystkini.

Loksins er talað um að fólk geti verið mismunadi í vextinum. Allir viðurkenna mismunandi hæð á fólki en allir eiga að vera grannir. Útlitsdýrkunin hefur náð svo mikilli rótfestu að lítil börn eru farin að pæla í fitu og megrun. Allir eiga að  vera steyptir í sama mótið hvernig svo sem þeir eru gerðir. En það er nú samt svo að grannt fólk er líka óánægt með sitt útlit. Það er alltaf hægt að finna eitthvað sem betur mætti fara.

Okkur er sagt á hverjum degi hvernig við eigum að líta út og hvernig við eigum að fara að því að líta sem best út. Það er nóg að fletta dagblöðum, þá blasir ímyndin við. Og ef við kaupum ekki ákveðin krem sem hæfa húð okkar, verðum gömul og hrukkótt langt fyrir aldur fram.

Ég ákvað eftir lestur aukablaðsins, sem heitir Líkamsvirðing, að hætta við öll áform um að reyna að grenna mig í svörtu uppáhaldssparibuxurnar mínar og flottu gallabuxurnar enda veit ég af fyrri reynslu að ég get það ekki. Ég ætla að henda þeim og kaupa mér nýjar, stærri og þægilegri.

Ég las líka með áfergju grein  í Mogganum, um rokksveitina The Gossip en hún hefur á að skipa íturvaxinni  söngkonu, Beth Ditto að nafni, sem er alveg sama þó hún sé feit og með fellingar.

Megi allir dagar vera megrunarlausir dagar.


Það er bara einn flokkur á Íslandi...

 samfylkingin

... sem kann að tala af skynsemi um mál.

Þetta hljómar enn í haussnum á mér eftir konukvöld Samfylkingarinnar sem ég var á á Selfossi. Þeir félagar Gummi Steingríms og Róbert Marshall voru gestir á konukvöldinu, einu karlarnir fyrir utan nokkra þjóna, og sungu Samfylkingarlagið fyrir okkur. Lagið er hið fræga Mrs. Robinson en textinn er pólitískur hvatningartexti í létttum dúr.

Inghóll var þétt setin konum af Suðurlandi og stemningin frábær. Magga Frímans var kynnir og komu þarna fram alls konar konur.  Konur í framboði, fyrverandi bæjarstjóri og núverandi bæjarstjóri, Edda Björgvins og Ingibjörg Sólrún.

Edda fór á kostum sem uppistandari og á ég von á því að fá harðsperrur í andlitsvöðvana eftir allan hláturinn.

Ingibjörg Sólrun var líka skemmtileg á sínum pólitísku nótum.

Rosalega verður gaman á Íslandi þegar hún verður orðin forsætisráðherra.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband