Brúðkaupsafmæli

Það var ekki í tísku að gifta sig á hippaárunum. Það þótti frekar hallærislegt. En ég var svo gamaldags að ég vildi gifta mig og það í kirkju. Þegar doktorinn var fæddur ræddi ekki um annað en að vera búin að staðfesta ráð sitt áður en hann yrði færður til skírnar. Ef það yrði gert slyppi barnið við að vera lausaleikskrói. Það gat ég ekki hugsað mér.

Á þessum degi fyrir 35 árum, sem bar upp á skírdag,  dró ég hann Simma minn út í Selvog og lét hann giftast mér í Strandakirkju. Ég var í kjól sem ég hafði saumað mér árið áður og hann í jakka og buxum úr Karnabæ. Foreldrar okkar komu með til að vera vottar. Það var engin tónlist og ekkert vesen. Séra Tómas Guðmundsson sá um að gefa okkur saman og það hefur tekist svona vel hjá honum að við erum enn í þessu hjónabandi. Við sváfum brúðkaupsnóttina á Hótel Sögu en drifum okkur svo heim fljótlega daginn eftir til þess að færa drenginn okkar til skírnar. Hann var skírður í messu sem var haldin í skólanum, því engin kirkja var þá Þorlákshöfn.

Skipsfélögum Simma míns fannst þetta ekki ná nokkurri átt að vera að taka sér frídag á sjónum svona á hávertíðinni og það til að gifta sig.

Ég réði í þá daga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Sæl frænka, þú segir svo vel frá þessum tímamótum ykkar á skírdag '72  (okkar voru á gamlárs '71) að mann langar að fá myndina af ykkur hérna, svo ég geti skoðað Simman í Karnabæjargallanum....

Ég get svo rétt ímyndað mér að það hafi ekki verið visælt tiltæki hjá drengnum að taka sér frí í hávertíðinni, á skírdag, og framundan stopp á föstudegi og páskadag, undrar mest að það skuli hafa gengið, en það, eins og þú raunar segir sýnir styrk þinn á svæðinu....

Til hamingju með daginn....í gær að sálfsögðu.... 

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 31.3.2007 kl. 17:40

2 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

Til hamingju með þetta líka. Ég var enn meira gamaldags en þú, kom ekki til greina að ræða barneignir fyrr en í hjónaband var komið  Fannst þetta mikið atriði þá....hef linast með árunum!

Sigþrúður Harðardóttir, 1.4.2007 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband