Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Í sumarfríi

Ég er búin að fara í útilegu núna þrjár helgar í röð. Mér finnst eins og það sé orðin vinnan mín. Virka daga vafra ég um og reyni að finna mér almennilegt að gera svo ég drepist ekki úr samviskubiti yfir því að hafa það svona gott.  Það hefur tekist mjög vel hjá mér. Til að sefa samviskuna þá þríf ég eitt og eitt herbergi þegar ekki viðrar til útiveru.

Mér finnst nefnilega svo gott að sofa frameftir og eyða deginum í krossgátur og sudokur og vafra á netinu og liggja í leti og lesa bækur og hlusta á útvarpið og glápa á imbakassann og vera í sólbaði. Þetta hljómar ekki eins og að um innihaldsríkt líf sé að ræða en á meðan ég þríf sæmilega í kringum mig og veit að þetta ástand varir aðeins um nokkurra vikna hríð þá er ég alsæl.


Heimakynning

Það hefur áreiðanlega verið nokkuð klókur sálfræðingur sem fann upp sölumennskuna að selja konum hitt og þetta í heimahúsum. Við þetta sparast húsnæði fyrir verslunina og allt sem því fylgir að reka húsnæði, laun starfsfólks, auglýsingar, gluggaútstillingar og margt fleira. En aðalsálfræðitrikkið er að fá fólk saman og hlusta á kynningu á hinni frábæru vöru sem er verið að selja og múgæsingin byrjar.

Ég ætti til dæmis ekki fulla skápa af Tuppervare nema af því ég lét telja mér trú um það að það væri ekki hægt að búa nema eiga hitt og þetta frá Tuppervare.

Ég hefði aldrei keypt mér rauðu háhæluðu skóna úti í búð. Ég á þá af því var á heimakynningu á skóm.

Ég hefði aldrei keypt handáburð og rakspíra fyrir 7500 kr. nema af því ég var Volarekynningu.

Ég fór að pæla í þessu eftir að ég var á heimakynningu á fatnaði í gærkvöldi og fylgdist með konunum máta fötin.  Konurnar hrósuðu hver annarri fyrir það hve flottar þær væru, hvað þær sýndust grennri og hvað þetta klæddi þær vel.  Þannig að þær verða allar að svakalegum sölumönnum án þess að gera sér grein fyrir því. Sölumönnum sem fatafyrirtækið borgar ekki fyrir.

Klók sölumennska.


Kvenréttindadagurinn

Ég skil ekki alveg hugmyndina með bleika litinn en ef það hjálpar í jafnréttisbaráttunni þá var ég með bleikt naglalakk í dag, líka á tánöglunum. 

Ég veit í þessum orðum er hljómur af  beisku vonleysi.  Síðan ég man eftir mér hefur kvennabarátta staðið yfir og ég tekið þátt í henni en svo ótrúlega lítið áunnist. Mér finnst það eiginlega kaldhæðni þegar konum er óskað til hamingju með að hafa fengið kosningarétt á þessum degi árið 1915.  Hvernig mátti það vera að konur máttu ekki kjósa? Það virðist bara enn þann dag í dag svífa yfir vötnunum hugsun fyrri alda. Því miður.

Ég veit að ég verð að segja áfram stelpur, ég veit að það má ekki láta deigan síga.


Í útilegu

Þegar ég eignaðist Sólbrekku, í  hitteðfyrra, bjó töffaratáningurinn hjá okkur og neyddist til þess að fara með okkur í ferðalög. Ekki skilur maður óharðnaðan ungling eftir einan heima. Honum fannst þetta útileguvesen algjör hryllingur. Nema það hafi verið dvölin með ömmu og afa í 24 tíma á sólarhring sem gerði útslagið. Hann hneykslaðist ofan í rassgat fyrir það hvernig við höguðum öllu til í útilegunum og ferðalögunum.

"Þið reynið að gera allt eins og það er heima, með klósett og sjónvarp og allt, af hverju eruð þið ekki bara heima?" spurði hann.

Já, það er nú það, af hverju er að verið að þeytast með Sólbrekku hingað og þangað um helgar og reyna að hafa allt eins og heima. Eitthvað er heillandi við að ferðast, skoða landið, sofa úti og ekki hvað síst að hitta fólk þegar komið er á tjaldsvæði.

Um liðna helgi dvöldum við á tjaldsvæði í Hraunborgum í Grímsnesi. Þar hópaðist saman stór hópur úr Þolló, alveg óvart. Fólk sem þekkist en hittist ekki að öllu jöfnu dags daglega. Það er bara gaman að eiga samskipti við kunningja sína þar sem allir koma saman með sama tilgang í huga. Að njóta þess að vera úti og slaka á í guðs grænni náttúrunni.

Töffaratáningurinn kom í heimsókn með foreldrum sínum og sér núna ferðalögin með ömmu og afa fyrir tveimur árum í rómantísku ljósi. Þau voru hjá okkur seinni nóttina og það fer ótrúlega vel um alla í Sólbrekku.


Gullsól

Kvöldsólin breytti 

ormétnum runnunum í garðinum mínum

í gulltré

í hrifningu minni gleymdi ég

að nota Sony myndavélina mína

en heilinn í mér tók mynd

framkallaði hana

og hengdi upp á bak við augun í mér

en þar sér hana enginn nema ég sjálf


Bragð er að þá barnið finnur

NKSíminn hringir.

Amma: Halló!

Nanna: Amma, hvað viltu fá í afmælisgjöf?

Amma: Elskan mín, ég á svo mikið dót að ég þarf enga afmælisgjöf. (Ég vissi um leið að þetta svar var ekki það sem sjö ára vill heyra),

Nanna: Já, en amma, hvað langar þig helst í?

Amma: Ég er orðin svo gömul að ég vil ekki afmælispakka.                                                               (Ég vissi líka að þetta var ekki nógu gott svar).

Nanna: Amma, viltu ekki einu sinni rauðvín?


Að eldast

Og svo þegar ég vaknaði í morgun, eldspræk og hress var ég orðin ári eldri. Þau hlassast á mann árin hvert af öðru, hraðar og hraðar og maður fær ekki rönd við reist. Það er bara að taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti, og þakka fyrir þokkalega heilsu. Svona er maður nú orðin gamall.

Í dag

Í dag setti ég niður sumarblóm.

Í dag var bletturinn sleginn.

Í dag bauð ég fólki í mat á morgun.

Í dag fengum við í skólanum frábæran fyrirlestur um sjálfsmynd, sjálfstraust og samskipti á vinnustað.

Í dag gaf guðsonur minn mér humar.

Í dag kom sumarið.

Í dag eignaðist ég nýja skó.

Í dag gerðum við Sólbrekku klára í ferðalög.

Í dag grillaði ég bestu hamborgara forever.

Í dag gerði ég margt annað skemmtilegt.

Það er bara gaman að vera til.


Við skólaslit

sklogo1Hvað maður getur verið stoltur af nemendum sínum.

Hvað maður getur fundið fyrir hjartahólfinu sem hver og einn hefur eignað sér.

Hvað krakkarnir geta verið flottir og fínir.

Hvað maður getur þurft að strjúka tár af hvarmi svo enginn sjái.

Hvað mann langar að segja margt en þegir af því tilfinningakökkurinn í hálsinum er svo stór.

Hvað ég óska þessum elskum öllum velfarnaðar í lífinu.


Sjómannadagurinn

Sjómmannadagurinn 2007 Ég var stolt af Simma mínum í morgun þar sem hann var ræðumaðurinn í sjómannadagsmessunni í Þorlákskirkju. Hann hefur stundum gantast með það að það hlyti að vera fínt að vera prestur alla vega langaði hann að geta predikað. Séra Baldri hefur kannski borist þetta til eyrna einhvern tímann því hann hringdi í Simma og sagði honum að vera ræðumaður, hann bað hann ekki. Simma fannst þetta auðvitað heiður og sagði já. Ræðan varð til á Mallorka. Þar voru skráðir nokkrir punktar á blað en aðallega talaði hann blaðlaust. Þemað hjá honum var sjómennska og hans minningar um sjóróðra og það að alast upp með þorpi frá fyrstu tíð en Þorlákshöfn og Simmi minn eru jafngömul.

Sjómmannadagurinn 2007 006Að messu lokinni báru, tengdapabbi, KalliSjómmannadagurinn 2007 006 Karls og Pétur Frikk, gamlir aflakóngar báðir tveir, út úr kirkjunni blómsveig  og lögðu að minnismerki um drukknaða.

Það er alltaf gott að koma í Þorlákskirkju. Kirkjan er björt og  falleg. og sér út á haf úr gluggum hennar sunnan megin. Eins og svo oft áður tók sólin að skína á meðan á messunni stóð.

Simmi endaði ræðuna sína á ljóði eftir Kristján frá Djúpalæk.

 

Þorlákshöfn

Þig hyllum við Þorlákur helgi

þótt högum og tækni sé breytt 

þíns nafns hefur verstöð hér notið

þá náð hefur guð henni veitt.

 

Þú himneski faðir og herra

við heitum uns líf okkar þverr

að reynast þess verndara verðir

sem var okkur settur af þér.

 

Við búum við brimgnúnar strendur

vor björg er í hafdjúpið sótt

um heiðríka hásumardaga

og heldimma skammdegisnótt.

 

Við heitum á heilagan Þorlák

í hamingju þrautum og sorg

á aldanna rústum og reynslu

skal reist okkar framtíðarborg.

 

Ó, verndaðu veiðistöð þína

og vak yfir sjómannsins hag

og leið þú hann heilan af hafi

til hafnar með feng sinn hvern dag.

 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband