31.7.2008 | 09:02
Styttist í heimferð
Lúkas Þorlákur Jones er orðinn mjög spenntur að fara með okkur til Íslands. Hann telur dagana og veit nákvæmlega, þegar hann vaknar á morgnana, hversu margir dagar eru eftir. Hann er búinn að ákveða að fara í útilegu og hann ætlar að hoppa á trampólíni. Þá er bara okkar að láta þetta rætast.
Nanna hefur skemmt sér konunglega hérna með okkur. Hún segist vera heppnasta stelpa í heimi. Það hefur greinilega ekki haft slæm áhrif á hana þó ég hafi drifið hana á bráðamóttökuna á spítalanum á sunnudagskvöldið. Mér leist ekkert á hóstann í henni og hvernig hún andaði. Þetta reyndist vera móðursýki í mér eða kannski ömmusýki. Barnið hafði bara nælt sér í breskt kvef sem Svava Rán segir mér að sé öðruvísi en íslenskt. Við fáum kvef í nefið en Bretar ofan í sig þ.e. í lungun. Hún er að jafna sig sem betur fer.
Við vorum orðin svo þreytt á sólinni og hitanum að við sendum hana til Íslands og fengum okkur smá rigningu í staðinn.
30.7.2008 | 10:29
Hrós dagsins
Það er alltaf jafn gaman að fá hrós. Við Simmi minn fengum bæði hrós í gær.
Við Nanna droppuðum aðeins við hjá Svövu Rán í gær, þegar við fórum tvær einar í bæinn og nýi lærlingurinn í búðinni hennar hélt að við værum systur. Ég tek þessu þannig að ég sé svona ungleg en ekki að dótla mín sé svona ellileg.
Málkunnugur nágranni Svövu Ránar, hress og skemmtilegur gæi, sá þau feðgin Svövu Rán og pabba hennar, saman að kaupa pizzur. Þessi gæi kemur stundum við í búðinni hennar bara til að spjalla. Hann kom í gær og spurði hana hver hefði verið henni með kvöldið áður. Þegar hún svaraði pabbi minn, sagði gæinn að hann væri "delicious and good enough to eat."
Það kemur kannski málinu ekkert við að maðurinn er samkynhneigður en ég ætla að minna Simma minn á þetta næst þegar hann segist vera svo "djöfulli ljótur."
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.7.2008 | 09:53
Barnapíur í útlöndum
Lúkas var sofnaður í sófanum þegar við komum á mánudagskvöld enda komið langt fram yfir hans háttatíma. Svava Rán og Dave gengu úr rúmi fyrir okkur þannig að eldsnemma næsta morgun skreið hann upp í til okkar. Okkur fannst nú ekki leiðinlegt að fá hann til okkar og honum leiddist það ekki heldur að við værum í rúminu. Hann tekur okkur opnum örmum og það er ekkert mál fyrir hann þó svo foreldrar hans fari til vinnu á morgnana og við Simmi minn sjáum um hann allan daginn. Hann tekur Nönnu líka njög vel en við buðum henni með. Við höldum að það sé auðveldara að passa tvö börn heldur en eitt. Svo talar Nanna líka ensku sem gerir þeim frændsystkinunum auveldara fyrir með samskipti.
Við gerum ýmislegt til að hafa ofan af fyrir börnunum eins og að fara í bæinn, á róló, í risa boltaland, sólbað í garðinum og í ýmsa leiki. Svo höfum við tölvur og sjónvarp.
Í dag stendur til að fara í sund.
Hitastigið hér er 23-25 stig og hann spáir enn heitara næstu daga.
10.7.2008 | 22:36
Sumarfrí
Að undanförnu hef ég ýmist búið á Selvogsbrautinni eða í Sólbrekku í uppsveitum Árnessýslu. Það er sama hvar ég hef verið, alls staðar skín sól. Ég get ekki látið hana í friði og leggst alltaf marflöt undir hana enda orðin eins brún eins og ég hefði legið á suðrænni strönd.
Það er gott að vera í sumarfríi.
Það er gott þegar Simmi minn er í sumarfríi líka.
Það er gott að gera stundum ekki neitt.
Nema að dingla sér.
2.7.2008 | 20:12
Allt hefst þetta nú
Það gekk ekki alveg þrautalaust fyrir sig að fá nýtt vegabréf. Ég fór aðra fýluferð á Selfoss í gær. Mér var sagt að vegna smá bilerís í kerfinu hefði myndast biðröð sem ég fór í. Ég var fjórða í röðinni og þegar biðröðin hafði ekki hreyfst í rúman klukkutíma gafst ég upp á biðinni. Það átti víst að vera huggun harmi gegn þegar mér var tjáð að þetta væri ekki sams konar bilun og deginum áður en það huggaði mig ekki neitt.
Ég fór þess vegna í höfuðborgina í dag, til Ríkilögreglustjórans. Þar var ekkert bilerí í gangi og kerfið var uppi þannig að ég gat pantað mér nýtt vegabréf. Ég þurfti nú samt að vera 40 mínútur í biðröð því það var svo mikið að gera. Þar var líka mjög ruglingsleg afgreiðsla. Fólk kom þarna ýmist til að fá ökuskírteini eða vegabréf. Það þarf að byrja á því að taka númeraðan miða og það er sín hvor númeraröðin fyrir hvorn hópinn. Það hefði þurft að hafa einn starfsmann í því að segja fólki hvernig þetta gengur fyrir sig því það var alls ekki augljóst um leið og maður kom inn. Af því ég beið þarna svo lengi sá ég marga ráðvillta og var farin að skipta mér af áður en ég vissi af og hjálpa til.
Það skaðaði ekkert. Ég fékk þakklæti.
30.6.2008 | 21:27
Útilega, ættarmót og nýtt vegabréf
Við erum búin að búa fimm síðastliðna sólarhringa í Sólbrekku. Sólbrekka er hið dægilegasta húsnæði að búa í, alla vega síðan við stækkuðum við okkur. Fermetrunum fjölgaði frá nokkrum í allnokkra við stækkunina. Fyrstu þrjá sólarhringana vorum við á frábærum stað á Laugarvatni. Á litlu en rosalega kósí svæði sem Vélstjórafélagið á. Þar höfum við sér sundlaug og tvo heita potta. Veðrið spillti heldur ekki fyrir. Við fengum Nönnu ömmustelpu senda í pósti til okkar og undi hún hag sínum vel í góða veðrinu og við spil og leik, spjall og göngutúra með ömmu og afa.
Fórum á föstudeginum yfir í Árnes en þar var ættarmót ættingja Simma míns. Þar hittist fólk sem þekkist mjög vel og fólk sem þekktist nánast ekki neitt Eftir helgina þekktust allir mjög vel og ætla að halda áfram að hittast því það er svo mikilvægt að eiga góða fjölskyldu og eiga góða að.
Við drifum okkur heim í gær því mig vantar nýtt vegabréf. Það gamla sem ég fékk á Eskifirði um árið er útrunnið. Þó svo að það sé útgefið að maður geti ferðast innan ákveðinna landa án vegabréfs þori ég ekki að fara til Vestmannaeyja án þess.
Þegar ég mætti galvösk á Sýsluskrifstofuna á Selfossi í dag til að fá nýtt vegabréf var mér tjáð að vegabréfakerfið lægi niðri í dag. "Þú verður bara að gera þér ferð aftur á morgun," sagði konan í afgreiðslunni, en hún veit hver ég er og veit að ég kom alla leið úr Þolló í þessum erindagjörðum.
Ekki tjáir að deila við neinn á Sýsluskrifstofunni svo ég verð að fresta því að leggja aftur af stað á Fagri-Blakki með Sólbrekku í eftirdragi og mæta á morgun í "taka tvö" í að fá nýtt vegabréf.
18.6.2008 | 19:52
Skemmtilegar tilviljanir
Ég hef ótrúlega gaman af hvers konar tilviljunum. Tilviljunum eins og þegar við Simmi minn hittum Hollendinga í lyftu í útlöndum sem fögnuðu okkur eins og gömlum vinum. Við höfðum verið með þeim á sama tíma á sama hóteli á sólarströnd árið áður.
Mér datt þetta í hug þegar ég las í morgun um komu hvítabjarnarins til Íslands. Hann kom að öllum líkindum frá Grænlandi og kom í land á Íslandi rétt hjá bæ þar sem grænlenskur vinnumaður var. Sá hafði reyndar aldrei séð hvítabjörn en það er nú önnur saga.
Til landsins var fenginn danskur sérfræðingur til þess að freista þess að svæfa bjössa og koma honum aftur heim til sín. Sá danski fann enga barnapíu í veldi Dana fyrir 10 ára gamlan son sinn svo hann varð að taka hann með sér til Íslands. Sumum þótti þetta ansi skrýtið en mér fannst þetta skemmtileg tilviljun. Húsfreyjan á bænum, þar sem hvítabjörninn hélt sig við, er dönsk og fannst henni ekkert tiltökumál að gæta danska drengsins á meðan pabbi hans sinnti sínum störfum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2008 | 20:49
Sólbað
Það er margt verra en að eyða deginum í sólbað.
Margt verra.
10.6.2008 | 21:03
Óvænt staða
Ég ætlaði alls ekki að eyða þessum degi í að fara út að ganga, passa krakka, gera skurk í garðinum mínum, fara í sólbað eða heimskækja ættingja.
Ég ætlaði að fara í ferðalag með honum Simma mínum. En ég ræð ekki alltaf för, þó svo að ég sé sögð frek og ráðrík
Simmi minn varð að vera lengur í vinnunni.
Áætlunin breyttist en ég var ekki tilbúin með plan B.
Þá er að nota þetta sem er svo oft notað: Það kemur bara í ljós hvað gerist.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2008 | 19:40
Hundblautar
Nanna, ömmustelpa, fór með mér í morgun í heilsubótargönguna. Hún á skóm með hjólum undir en ég á skóm sem ég týndi en fann sem betur fer aftur. Við fórum af stað í blíðskaparveðri. Við leiddumst alla leiðina, þannig að ég dró hana á hjólaskónum og tók skokkspor þar sem hallaði undan fæti. Mér leið hreint ekki eins og nýorðin fimmtíu og átta þær sekúndurnar. Ég vona samt að enginn hafi séð aðfarirnar. Þurfti stundum að skipta frá vinstri hönd og yfir í hægri og svo öfugt vegna gigtarverkja. Leið þær sekúndurnar eins farlama gamalmenni.
Jamm, það skiptast á skin og skúrir, í orðsins fyllstu merkingu. Við komum heim eins og hundar af sundi dregnar þrátt fyrir að hafa hlaupið inn í skóla til að skýla okkur smá stund.
En, eins og máltækið segir: Enginn er verri þó hann vökni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)