Útilega, ættarmót og nýtt vegabréf

Við erum búin að búa fimm síðastliðna sólarhringa í Sólbrekku. Sólbrekka er hið dægilegasta húsnæði að búa í, alla vega síðan við stækkuðum við okkur. Fermetrunum fjölgaði frá nokkrum í allnokkra við stækkunina.  Fyrstu þrjá sólarhringana vorum við á frábærum stað á Laugarvatni.  Á litlu en rosalega kósí svæði sem Vélstjórafélagið á. Þar höfum við sér sundlaug og  tvo heita potta. Veðrið spillti heldur ekki fyrir. Við fengum Nönnu ömmustelpu senda í pósti til okkar og undi hún hag sínum vel í góða veðrinu og við spil og leik, spjall og göngutúra með  ömmu og afa.

Fórum á föstudeginum yfir í Árnes en þar var ættarmót ættingja Simma míns. Þar hittist fólk sem þekkist mjög vel og fólk sem þekktist nánast ekki neitt Eftir helgina þekktust allir mjög vel og ætla að halda áfram að hittast  því það er svo mikilvægt að eiga góða fjölskyldu og eiga góða að.

Við drifum okkur heim í gær því mig vantar nýtt vegabréf. Það gamla sem ég fékk á Eskifirði um árið er útrunnið. Þó svo að það sé útgefið að maður geti ferðast innan ákveðinna landa án vegabréfs þori ég ekki að fara til Vestmannaeyja án þess.

Þegar ég mætti galvösk á Sýsluskrifstofuna á Selfossi í dag til að fá nýtt vegabréf var mér tjáð að vegabréfakerfið lægi niðri í dag. "Þú verður bara að gera þér ferð aftur á morgun," sagði konan í afgreiðslunni, en hún veit hver ég er og veit að ég kom alla leið úr Þolló í þessum erindagjörðum.

Ekki tjáir að deila við neinn á Sýsluskrifstofunni svo ég verð að fresta því að leggja aftur af stað á Fagri-Blakki með Sólbrekku í eftirdragi og mæta á morgun í "taka tvö" í að fá nýtt vegabréf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

Ég fékk nýtt vegabréf um daginn. Ég fór á fimmtudagseftirmiðdegi, pantaði og borgaði. Og passinn kom í pósti á mánudegi. Mig rak nú bara í rogastans!

Sigþrúður Harðardóttir, 30.6.2008 kl. 23:09

2 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

Takk annars fyrir síðast og mikið var nýja Sólbrekka flott!

Sigþrúður Harðardóttir, 30.6.2008 kl. 23:10

3 Smámynd: Guðrún S Sigurðardóttir

Takk sömuleiðis. Þetta var voða skemmtileg helgi! Sólbrekka rokkar!

Guðrún S Sigurðardóttir, 2.7.2008 kl. 20:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband