Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
31.3.2007 | 23:46
Ferming
Það gerist ekki oft að við Simmi minn höfum öll barnabörnin okkar í einu en þannig stund áttum við í dag.
Elsta barnabarnið okkar var fermt í dag. Löggilti unglingurinn var tekinn í kristinna manna tölu. Um þá athöfn sá séra Örn Bárður í Neskirkju. Athöfnin var falleg og á léttu nótunum. Karl Kolbeinn tók þá ákvörðun sjálfur að vilja fermast. Hann hafði verið færður til skírnar á sínum tíma og vildi nú staðfesta það fyrir guði.
Eftir athöfnina var haldinn veisla í Kiwanishúsinu í Þorlákshöfn. Þar mættu 80-90 ættingjar og vinir til þess að fagna með pilti. Hann var rosalega ánægður með veisluna sjálfur. Hann var með áhyggjur af því að fólk gæti ekki talað saman í svona veislu af því það þekkti ekki hvert annað en annað kom á daginn. Þó að þröngt væri á þingi leið gestum vel og enginn var þvingaður eins og Kolbeinn var hræddur um. Ömmusystir hans úr móðurættinni spilaði á harmónikku og sýndar voru í sjónvarpi myndir úr ævi Kolbeins frá fæðingu til fermingar.
Ekki spillti fyrir gleði Kolbeins með daginn þegar hann tók upp fermingargjafirnar en þær voru margar og góðar.
30.3.2007 | 20:12
Brúðkaupsafmæli
Það var ekki í tísku að gifta sig á hippaárunum. Það þótti frekar hallærislegt. En ég var svo gamaldags að ég vildi gifta mig og það í kirkju. Þegar doktorinn var fæddur ræddi ekki um annað en að vera búin að staðfesta ráð sitt áður en hann yrði færður til skírnar. Ef það yrði gert slyppi barnið við að vera lausaleikskrói. Það gat ég ekki hugsað mér.
Á þessum degi fyrir 35 árum, sem bar upp á skírdag, dró ég hann Simma minn út í Selvog og lét hann giftast mér í Strandakirkju. Ég var í kjól sem ég hafði saumað mér árið áður og hann í jakka og buxum úr Karnabæ. Foreldrar okkar komu með til að vera vottar. Það var engin tónlist og ekkert vesen. Séra Tómas Guðmundsson sá um að gefa okkur saman og það hefur tekist svona vel hjá honum að við erum enn í þessu hjónabandi. Við sváfum brúðkaupsnóttina á Hótel Sögu en drifum okkur svo heim fljótlega daginn eftir til þess að færa drenginn okkar til skírnar. Hann var skírður í messu sem var haldin í skólanum, því engin kirkja var þá Þorlákshöfn.
Skipsfélögum Simma míns fannst þetta ekki ná nokkurri átt að vera að taka sér frídag á sjónum svona á hávertíðinni og það til að gifta sig.
Ég réði í þá daga.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.3.2007 | 00:13
Sir Cliff
Ég skemmti mér konunglega á tónleikunum með Cliff. Hann er að verða 67 ára gamall en lítur út eins og táningur. Ég geri ráð fyrir að mannshöndin eigi þar inngrip en mér er alveg sama. Hann söng bæði gömul lög sem allir þekkja og önnur sem ég þekkti ekki en skemmtileg og grípandi. Hann dansaði og dillaði sér allan tímann eða í rúma tvo tíma. Geri aðrir yngri betur.
Ég var að pæla í glitrandi gallabuxunum sem hann kom í eftir hlé. Ég vil trúa því að hann noti þær eingöngu á sviði en ekki hversdags svo ég fyrirgaf honum að vera í þeim.
Það var alveg þess virði að bíða í tæpa hálfa öld eftir að sjá Cliff Richard.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.3.2007 | 17:32
Uppáhald
Cliff Richard er tíu árum eldri en ég.
Ég veit ekki hvenær ég byrjaði að hlusta á hann. Mér finnst hann alltaf hafa verið til.
Ég man þegar ég lá með eyrað við útvarpið heima í Smáratúni 3 og reyndi að heyra hvernig útlensku orðin voru í Lucky lips, mig langaði svo að kunna textann. Mér finnst það lag ekkert betra en öll hin, þetta er bara ein af bernskuminningunum.
Ég sá Summer Holliday í Selfossbíói á sínum tíma. Þá var ég að verða skvísa. Eða þannig man ég mig. Ég sá myndina svo einhvern tíma seinna og það er ekki hægt að segja að hún hafi elst vel. En mikið rosalega fannst mér hún skemmitleg í den.
Annaðhvort hélt fólk með Cliff eða Elvis Presley. Það var eiginlega ekki hægt að halda upp á þá báða. Það varð að velja. Ég var Cliff manneskja. Kannski hefur Labbi í Glóru haft áhrif á það val. Hann spilaði næstum því eingöngu Shadowslög á fyrstu árunum í hljómsveitarbransanum og Shadows voru hljómsveitin hans Cliffs. Og Labbi var auðvitað háttskrifaður hjá okkur krökkunum, hann spilaði á gítar og kom á fót hljómsveit.
Ég er búin að halda upp á Cliff í næstum því hálfa öld og ég fæ að sjá hann með berum augum í kvöld. Það finnst mér hreint ótrúlegt.
Vinir og fjölskylda | Breytt 29.3.2007 kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)