20.8.2007 | 07:55
Skemmtileg menningarnótt
Menningarnótt byrjaði hjá okkur Simma mínum með því að horfa á Latabæjarhlaupið. Af því að ég hafði skráð sonardótturina í hlaupið fannst mér ég bera svolitla ábyrgð á þessu. Nanna stóð sig aldeilis vel, hljóp af miklum krafti alla leiðina og tók þessu af mikilli alvöru. Enda var hún að hlaupa fyrir fátæk börn í útlöndum.
Eftir hlaupið fórum við á rand. Við vorum í því að sýna okkur og sjá aðra. Alda og Valdi voru með okkur og lentum við á hinum og þessum stöðum eins og á jasstónleikum í glertjaldi, rokktónleikum í porti við Laugaveginn, hlustuðum á Stjána stuð og konu hans, drukkum bjór, hlustuðum á Þorvald Halldórsson og konu hans syngja Drottinn er minn hirðir, keyptum geit í Malaví, sáum dansflokka, misstum af vinum okkar Færeyingum, nutum veðurblíðunnar, spjölluðum við fólk, fengum okkur pizzasneið og pepsí svo fátt eitt sé nefnt.
Um kvöldmat mættum við svo á pallinn hjá Vesturgötuliðinu og tókum þar þátt í 200 manna garðveislu. Eigendur hússins voru að fagna að þeir eru næstum því búnir að taka húsið í gegn að utan. Tveggja ára vinnu að ljúka. Húsið hefur líka tekið stakkaskiptum. Þar var búið að hengja upp skrautljós, allskonar, og koma fyrir hátalarakerfi. Þar tróðu upp hljóðfæraleikarar og skemmtikraftar á öllum aldri og öllum boðið í grillaðan mat. Heill lambaskrokkur var grillaður á teini og 20-30 kíló af fiski. Gestir voru líka á öllum aldri, frá nokkurra mánaða til rúmlega áttræðs.
Við skemmtum okkur konunglega. Við erum að vonum rosalega ánægð með að skólafélagar Kalla, sem við höfðum ekki hitt áður, trúðu því ekki að við værum foreldrar hans. Héldu að við værum jafnaldrar hans. Annaðhvort erum við svona ungleg eða Kalli svona karlalegur. Ha, ha!
8.8.2007 | 11:26
Önnur fjallaferð
"Hvernig heldurðu að vegirnir þarna inn eftir séu?" spurði Simma minn Dodda Gríms þegar hann heyrði talað um að keyra í kringum Kerlingafjöll á sunnudaginn var.
"Vegirnir," sagði Doddi og hló. "Það eru engir vegir, kannski slóðar."
Ég sá að Simmi minn varð enn spenntari við þessar fréttir.
"Hvað heldurðu að þessi ferð taki langan tíma?" spurði Simmi.
"Svona þrjá til fjóra tíma, kannski fimm," svaraði Doddi. "Annars veit hann Bjössi hennar Systu allt um þetta hann hefur farið svo oft."
Við fengum að slást í för með þremur öðrum bílum sem voru að fara í fjallaferð. Jóna og Finni sátu í hjá okkur. Þau vildu ekki heldur missa af þessu ævintýri. Farið var frá Flúðum inn á Tungufellsveg og þaðan inn á Hrunamannaafrétt. Í fyrstu var um veg að ræða sem við gátum fylgst með á korti en síðan breyttist vegurinn í slóða og eftir að við fórum hjá Svínárnesi var eiginlega bara troðningur og er hann ekki merktur inn á kort. Það tók okkur um sex tíma að komast inn í Setrið, sem er skáli 4x4 klúbbsins. Þaðan var farið í Kerlingafjöll og upp á Kjalveg og eftir það var vegurinn greiður til byggða.
Ferðin tók alls tíu tíma og sé ég ekki eftir einni einustu mínútu.
Ég vildi að ég ætti orð til að lýsa fegurð landsins míns.
Ef ég reyndi yrði ég örugglega allt of væmin.
Það vantar í mig skáldið til þess að gera það vel.
Það verður að upplifa fegurðina til að skilja.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.8.2007 | 17:55
Aldrei of gamall að leika sér
Þegar ég kom heim úr 10 daga ferð um fallega landið mitt, varð ég þess áskynja að ég hafði verið klukkuð. Séra Baldur nefnir mig, ásamt nokkrum öðrum, í sambandi við þennan furðuleik á netinu. Ég hef séð þetta einhvers staðar áður og fundist eins og að þessi leikur sé búinn til handa þeim sem hafa ekkert hugmyndaflug.
En þegar presturinn minn nefnir mig til sögunnar get ég ekki sagt nei. Mér skilst að ég þurfi að nefna átta staðreyndir um sjálfa mig og helst það sem fáir eða enginn veit nú þegar. En þá kom upp vandamál. Ég er alltaf svo sjálfhverf í mínum skrifum og segi öllum allt um mig, þannig að ég á enginn leyndarmál til að upplýsa, og þó, eftir nokkrar vangaveltur fann ég þetta:
1. Ég er haldin óstjórnlegri símafælni. Mér finnst allt í lagi að svara í síma en hræðilega erfitt að hringja. Það er alveg sama í hvern. Það reynir á mig. Ég svitna í lófunum og fæ aukinn hjartslátt ef ég þarf að hringja. Ég er sérfræðingur í að humma fram af mér símtöl.
2. Ég á hallærislegasta "lagið okkar" í heimi. Það er Angelía með Dúmbó og Steina.
3. Ég hef aldrei þolað lagið House of the rising sun. Það er engin sérstök ástæða fyrir því.
4. Mér finnst hundleiðinlegt að synda þó að ég hafi synt á hverjum morgni í nokkur ár, þannig að ég er fegin innst inni að sundlauginni hefur verið lokað í eitt ár.
5. Ég hef þróað með mér ódýran smekk á rauðvínum. Einstöku sinnum kaupi ég "dýrt" rauðvín og undantekningarlaust finnst mér það verra en þessi ódýru sem ég kaupi venjulega.
6. Ég á erfitt með að rata um höfuðborgarsvæðið. Ef ég fer ein á bíl lendi ég eiginlega alltaf í smávandræðum.
7. Ég sá einu sinni svo fallegan mann á flugstöð í Lúxemborg að ef hann hefði gefið mér bendingu um að koma með sér hefði ég gleymt Simma mínum og horfið.
8. Ég féll á landsprófi 1966 en tók fjórða bekk með glans og komst í gegnum Kennaraskólann með ágætum.
Nú á ég að klukka átta menneskjur. Það er búið að klukka flesta sem ég veit að lesa mig þannig að enn lendi ég í vandræðum. En ég get nefnt dóttur mína, Hörpu litlu Guðfinns, Huldu litlu Gunn og Hrönn Guðfinns. Ég nefni Siggu Guðna líka því hún hefur ekki svarað klukki og gaman væri ef Þórdís og Birgitta segðu frá sér. Og hvar ertu Daníel Haukur?
Vinir og fjölskylda | Breytt 20.8.2007 kl. 08:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.7.2007 | 19:40
Fjallaferð
Fjallajeppinn, sem ég hef átt í tvö ár, er mestmegnis ekinn á þjóðvegi númer 1. Hann fer alla vega sjaldan af malbikinu. Stundum er ég spurð að því af hverju ég eigi svona bíl og ég svara því oftast til að ég sé að fara í fjallaferð. Eða öllu heldur að mig langi í fjallaferð.
Loksins varð af því um helgina. Við reistum Sólbrekku á Kirkjubæjarklaustri og fórum svo í fjallaferð á laugardag með nesti í farteskinu. Við keyrðum alla leið að Laka. Það var ágætis vegur þangað, þannig séð, en fólksbílar hefðu ekki keyrt yfir árnar sem þurfti að fara yfir. Ég var alveg hissa hve mikil umferð var þarna. Við hittum þjóðgarðsvörð við Laka og hann benti okkur á að keyra aðra leið til baka. Sú leið var merkt á korti sem slóði en reyndist eiginlega betri en hin og ekki síður falleg. Þrátt fyrir mikla umferð þá kemst maður ekki hjá að "heyra" þögnina sem ríkir þarna í óbyggðum.
Ferðin tók fjóra og hálfan klukkutíma. Mér fannst þessum tíma vel varið og vona að þetta sé bara byrjunin á að skoða óbyggðir Íslands.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.7.2007 | 16:35
Elsta barnabarnið
Í dag eru 14 ár síðan ég varð amma. Karl Kolbeinn á afmæli í dag. Töffarinn sá.
Hann hefur verið kallaður ýmsum nöfnum gegnum tíðina. Afi hans kallar hann ýmist höfðingja, jaxl eða kappa. Ég notaði Kobbalingur hér áður fyrr og ömmuljós.
Einhverju sinni, þegar hann var lítill, líklega fjögurra ára, og ég var að tala um að hann væri ljósið hennar ömmu spurði hann hvort hann væri þá augasteinninn hans afa. Enginn vissi hvar hann hafði lært þetta orð.
Þegar Nanna fæddist var hann sjö ára. Þá vildi hann afsala sér ömmuljósartitlinum og sagði að nú væri Nanna ömmuljósið. Ég hélt að ég gæti alveg átt tvö ömmuljós en eitthvað fannst honum það ekki nógu gott. "Hvað viltu þá vera," spurði ég.
Hann var fljótur að svara: "Harðfiskurinn þinn."
Hann hefur verið spenntur fyrir því að bera hæð sína saman við afa og eru þeir alltaf öðru hverju mældir með því að setja stóra bók á kollana á þeim. Á sunnudaginn hallaði bókin ekki í fyrsta skipti.
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.7.2007 kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.7.2007 | 20:52
Í sumarleyfi
Maðurinn, sem ég sef hjá, hefur ekki mikið leikið sér við mig þó hann sé kominn í sumarfrí. Hann var með mér um helgina í útilegu Kiwanisklúbbsins Ölvers. Það var jafn gaman og endranær. Grín, glens og gaman alla helgina. Á laugardeginum er vani að fara í skoðunarferð og að þessu sinni var farið í Heklusafnið á Leirubakka. Við, Simmi minn og Alda og Valdi, gerðum gott betur . Við fórum líka á Njálusetrið á Hvolsvelli og hlustuðum á Guðna Ágústsson tala um Flosa Þórðarson í Njálssögu. Það gerði Guðni með þvílíkri prýði að nú erum við gamla settið að lesa Njálu. Guðni kveikti neista sem logar enn.
Árni Johnsen kom um kvöldið og sá um brekkusöng eins og ævinlega. Það er ómissandi að syngja með Árna þessa helgi. Hvort sem hann kann mörg grip eða ekki, það bíttar engu. Og hann tók færeyska lagið fyrir mig eins og venjulega.
Simmi minn, var líka með mér á mánudaginn og lékum við okkur í sólbaði allan daginn. Fórum í sund í Hveragerði, bara til þess að athuga hvernig væri að synda í svona langri laug. Við fundum út úr því að við erum ekki í nógu góðu formi. Hver ferð yfir laugina virtist óendanlega löng. Við höfðum það samt af að synda 500 metra.
Í gær vildi, Simmi minn, miklu heldur leika sér við pabba minn heldur en mig. Þeir voru í allan gær í pípulagningarkallaleik úti í skúr. Gerðu þar við ónýta ventla og skiptu um lek rör. Í dag lék hann sér líka við pabba. í dag voru þeir smiðir og fóru að smíða stokka yfir ber rör sem eru hér með fram mörgum veggjum.
Meðan leikurinn þeirra skilar svona góðum árangri ætla ég ekki að kvarta.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.7.2007 | 10:33
Í morgunsárið
"Mikið ertu falleg ástin mín," var hvíslað í eyrað á mér, snemma í morgun, um leið og heitar og sterkar hendur tóku utan um mig, nartað nautnalega í eyrnasnepilinn og leitandi vörum strokið eftir andlitinu á mér.
Mér hvellbrá. Ég hef átt svefnherbergið á þessum tíma dagsins fyrir mig eina síðan ég komst í sumarfrí og átti ekki von á þessu. Rétt áður en ég brjálaðist úr skelfingu varð mér ljóst að þarna var kominn maðurinn sem ég skúra hjá. Kominn heim og kominn í sumarfrí.
Framundan eru sæludagar.
10.7.2007 | 10:15
Ekkert sólbað
Ég var harðákveðin í því þegar ég fór að sofa í gærkvöldi að ég skyldi ekki eyða minni tíma í dag í sólbað en í gær. Var búin að ákveða hvaða bók ég tæki með mér í sólbaðið og búin að finna til krossgátur, sudokur og blýanta. Teppið og púðinn bíða úti á grasi frá því í gær. Þess vegna varð ég fyrir gífurlegum vonbrigðum þegar ég hafði sprottið eins og stálfjöður upp úr bólinu og varð litið út um gluggann áður en ég klæddist ósæmilega bikinu mínu.
Það er ekkert að marka veðurspár.
Vinir og fjölskylda | Breytt 18.7.2007 kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.6.2007 | 23:42
Misskilningur
"Við eigum nóg af fötum til að blanda í," sagði ég við Simma minn þegar við vorum búin að kaupa okkur múrblöndu í Múrbúðinni til þess að gera við múrskemmdir á húsinu okkar. Við vorum komin út í bíl og á leiðinni á næsta áfangastað.
Simmi leit á mig með furðulegan svip á andlitinu og tautaði:"Fötum, jakkafötum, blanda hvað? Erum við að fara eitthvað?"
Hann var greinilega ekki að pæla í múrblöndu í plastfötu heldur datt honum partý í hug.
27.6.2007 | 20:22
Þegar kynslóðir mætast
Ég fór óvenjusnemma á fætur í morgun. Tilefnið var að fara í höfuðborgina og leika mér við Nönnu ömmustelpu fyrir hádegi. Þegar við vorum búnar að ræða dálitla stund um baby born þá setti sú stutta disk í græjuna af því hún vildi leyfa mér að heyra uppáhaldslag sitt um þessar mundir. Áður en ég vissi sjálf af hoppaði ég um gólfið fram og til baka og notaði til þess öll gömlu eróbikksporin sem ég notaði í den þegar við Anna Lú vorum með stelpurnar okkar í Þolló á fullu í þolfimi.
Lagið sem Nanna spilaði var einmitt í sama "bíti" og við notuðum þegar allt var komið á fullt skrið. Brennslan á fullu og allt að gerst í líkamanum. Hávaði og fjör og svitinn lak í stríðum straumi.
Þegar fortíðarþráin bráði af mér og ég komst aftur til nútíðar leit ég á ömmustelpu og bjóst við að sjá furðu- og hneykslunarsvip í andlitinu á henni. Það var öðru nær. Hún ljómaði.
"Amma, þetta eru alveg eins spor og við notum í upphitun í Kramhúsinu."
Það eru bara fimmtíu ár og fjórtán dagar á milli okkar.
Vinir og fjölskylda | Breytt 18.7.2007 kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)