Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
30.6.2008 | 21:27
Útilega, ættarmót og nýtt vegabréf
Við erum búin að búa fimm síðastliðna sólarhringa í Sólbrekku. Sólbrekka er hið dægilegasta húsnæði að búa í, alla vega síðan við stækkuðum við okkur. Fermetrunum fjölgaði frá nokkrum í allnokkra við stækkunina. Fyrstu þrjá sólarhringana vorum við á frábærum stað á Laugarvatni. Á litlu en rosalega kósí svæði sem Vélstjórafélagið á. Þar höfum við sér sundlaug og tvo heita potta. Veðrið spillti heldur ekki fyrir. Við fengum Nönnu ömmustelpu senda í pósti til okkar og undi hún hag sínum vel í góða veðrinu og við spil og leik, spjall og göngutúra með ömmu og afa.
Fórum á föstudeginum yfir í Árnes en þar var ættarmót ættingja Simma míns. Þar hittist fólk sem þekkist mjög vel og fólk sem þekktist nánast ekki neitt Eftir helgina þekktust allir mjög vel og ætla að halda áfram að hittast því það er svo mikilvægt að eiga góða fjölskyldu og eiga góða að.
Við drifum okkur heim í gær því mig vantar nýtt vegabréf. Það gamla sem ég fékk á Eskifirði um árið er útrunnið. Þó svo að það sé útgefið að maður geti ferðast innan ákveðinna landa án vegabréfs þori ég ekki að fara til Vestmannaeyja án þess.
Þegar ég mætti galvösk á Sýsluskrifstofuna á Selfossi í dag til að fá nýtt vegabréf var mér tjáð að vegabréfakerfið lægi niðri í dag. "Þú verður bara að gera þér ferð aftur á morgun," sagði konan í afgreiðslunni, en hún veit hver ég er og veit að ég kom alla leið úr Þolló í þessum erindagjörðum.
Ekki tjáir að deila við neinn á Sýsluskrifstofunni svo ég verð að fresta því að leggja aftur af stað á Fagri-Blakki með Sólbrekku í eftirdragi og mæta á morgun í "taka tvö" í að fá nýtt vegabréf.
18.6.2008 | 19:52
Skemmtilegar tilviljanir
Ég hef ótrúlega gaman af hvers konar tilviljunum. Tilviljunum eins og þegar við Simmi minn hittum Hollendinga í lyftu í útlöndum sem fögnuðu okkur eins og gömlum vinum. Við höfðum verið með þeim á sama tíma á sama hóteli á sólarströnd árið áður.
Mér datt þetta í hug þegar ég las í morgun um komu hvítabjarnarins til Íslands. Hann kom að öllum líkindum frá Grænlandi og kom í land á Íslandi rétt hjá bæ þar sem grænlenskur vinnumaður var. Sá hafði reyndar aldrei séð hvítabjörn en það er nú önnur saga.
Til landsins var fenginn danskur sérfræðingur til þess að freista þess að svæfa bjössa og koma honum aftur heim til sín. Sá danski fann enga barnapíu í veldi Dana fyrir 10 ára gamlan son sinn svo hann varð að taka hann með sér til Íslands. Sumum þótti þetta ansi skrýtið en mér fannst þetta skemmtileg tilviljun. Húsfreyjan á bænum, þar sem hvítabjörninn hélt sig við, er dönsk og fannst henni ekkert tiltökumál að gæta danska drengsins á meðan pabbi hans sinnti sínum störfum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2008 | 20:49
Sólbað
Það er margt verra en að eyða deginum í sólbað.
Margt verra.
10.6.2008 | 21:03
Óvænt staða
Ég ætlaði alls ekki að eyða þessum degi í að fara út að ganga, passa krakka, gera skurk í garðinum mínum, fara í sólbað eða heimskækja ættingja.
Ég ætlaði að fara í ferðalag með honum Simma mínum. En ég ræð ekki alltaf för, þó svo að ég sé sögð frek og ráðrík
Simmi minn varð að vera lengur í vinnunni.
Áætlunin breyttist en ég var ekki tilbúin með plan B.
Þá er að nota þetta sem er svo oft notað: Það kemur bara í ljós hvað gerist.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2008 | 19:40
Hundblautar
Nanna, ömmustelpa, fór með mér í morgun í heilsubótargönguna. Hún á skóm með hjólum undir en ég á skóm sem ég týndi en fann sem betur fer aftur. Við fórum af stað í blíðskaparveðri. Við leiddumst alla leiðina, þannig að ég dró hana á hjólaskónum og tók skokkspor þar sem hallaði undan fæti. Mér leið hreint ekki eins og nýorðin fimmtíu og átta þær sekúndurnar. Ég vona samt að enginn hafi séð aðfarirnar. Þurfti stundum að skipta frá vinstri hönd og yfir í hægri og svo öfugt vegna gigtarverkja. Leið þær sekúndurnar eins farlama gamalmenni.
Jamm, það skiptast á skin og skúrir, í orðsins fyllstu merkingu. Við komum heim eins og hundar af sundi dregnar þrátt fyrir að hafa hlaupið inn í skóla til að skýla okkur smá stund.
En, eins og máltækið segir: Enginn er verri þó hann vökni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2008 | 19:12
Ári eldri
Og þar skall á mig eitt ár i viðbót.
Þar sem ég hafði líst því yfir fyrir nokkrum árum siðan að ég ætlaði alltaf að hafa afmælisveislu varð ég að standa við það þó svo að hann Simmi minn væri ekki heima. Ég get ekkert sett líf mitt á hóld þó að hann sé í vinnunni. Ég sletti því í form og sullaði einhverju á brauð og opnaði húsið mitt og viti menn, 34 manneskjur komu í heimsókn.
Það er gott að eiga stóra fjölskyldu.
Það er gott að eiga góða vini.