Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
27.4.2008 | 22:33
Hvað mannannabörn hafast að
Í bakgarðinum hjá mér í dag var hin víðfræga mæjorkasteik. Ég fattaði það þegar ég fékk skyndilega löngun, eftir hádegið, að ganga um landareignina mína og athuga hvernig trén hefðu það. Þá fann ég að sólin var heit og í skotinu, sem snýr í suðvestur, var þvílík sól og sæla. Ég settist í gamlan sólstól, sem Simmi minn, hafði borið út úr skúrnum fyrir nokkru síðan, og lét sólina hita á mér fésið. Ummm, hvað það er gott.
En af því ég hafði ákveðið að elda japanskan kjúklingarétt handa Vesturgötuliðinu gat ég ekki setið endalaust í sólbaði. Skaust þó út á milli þess sem ég ristaði möndlur, sesamfræ og núðlur. Var að vona að ég fengi smálit á andlitið. En þar sem ég hafði ákveðið að hafa nýbakað brauð með réttinum varð ég að skjótast inn og hnoða deig. Gat samt látið þá gulu skína á mig á meðan deigið hefaðist.
Sá japanski sló í gegn. Eftir matinn slúðruðum við tengdadótla á meðan töffarinn las vampírubók sem föðursystir hans á enn á æskuheimilinu, doktorinn ætlaði að taka fréttirnar en svaf líklega yfir þeim, vaknaði og hélt fyrirlestur um fiskeldi á Íslandi, ömmustelpa og Jara vinkona hennar hönnuðu jeppa úr Legokubbum.
Það er misjafnt hvað mannannabörn hafast að.
Simmi minn á Vopnafirði, á kafi í snjó, og dótla að dútla með ömmu og afa út um allar trissur í Wales í 20 stiga hita.
Lífið er dásamlegt.
19.4.2008 | 16:39
Leikhúsið
Við sinntum listagyðjunni í gær og fórum í leikhús. Við sáum söngleikinn Ást sem sýndur er í Borgarleikhúsinu. Ég hef sjaldan skemmt mér eins vel í leikhúsi. Þetta er alveg stórskemmtileg sýning og í orðsins fyllstu merkingu þá grenjaði ég úr hlátri, mörgum sinnum. Þó að sýningin sé fyndin er hún um leið um leið sorgleg þannig að það hrærði dálítið upp í tilfinningunum.
Ást er samstarfsverkefni Borgarleikhússins og Vesturports og fjallar um ástir og daglegt líf heimilismanna á elliheimili. Þar sem maður er komin á þann aldur að vera farin að velta fyrir sér elliárunum þá sá maður sjálfan sig í hlutverki þarna. Ég var þessi sem vill alls ekki búa í herbergi með ókunnugri konu og Simmi var gamli kallinn sem var alltaf að klípa hjúkkuna í rassinn og gekk með Hustler blað í vasanum.
Þarna var skemmtileg blanda af gamalreyndum leikurum, skemmtikröftum og fólki sem aldrei hefur stigið á svið áður. Í kórnum söng ein frænka Simma, hún Jóa Bald, og sagði hún okkur eftir sýninguna að þetta væri 79. sýningin og að sér þætti þetta mjög skemmtilegt og frábært að hafa fengið tækifæri til þess að vera með.
15.4.2008 | 23:41
Fyrir Langanesið
"Við munum sigla fyrir Langanesið á eftir," tjáði hann Simmi minn mér einhvern tímann í dag. "Ég hef aldrei áður siglt fyrir Langanesið, þrátt fyrir öll mín ár á sjó."
"Já, en gaman hjá þér."
"Verst að ég verð að slá tittlingnum í rekkverkið."
"Ha?"
"Maður verður að slá tittlingnum í rekkverkið þegar maður siglir í fyrsta skipti fyrir nes."
"Guð, gerðu það varlega."
"Já, já, þetta er allt í lagi, ég held að hann sé hvort sem er hættur að ná svona hátt upp."
15.4.2008 | 06:57
Breyta fötin einhverju?
Ef ég væri beðin um að koma í viðtal í Kastljósið mætti ég örugglega í svörtum fötum í þeirri von að ég sýndist grennri.
Ætli hinn meinti glæpamaður, frá Póllandi, hafi mætt í hvítum fötum til að sýnast saklausari?
Mér bara datt þetta si svona í hug.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2008 | 12:24
Suðurlandsvegi lokað
Í þriggja bíla árekstrinum á Suðurlandsvegi á fimmtudaginn var það hann Simmi minn sem var í einum af þessum bílum. Hann var á leið í höfuðborgina til þess að skipta um hljóðkút á bílnum því til stóð að hann færi í skoðun eftir hádegið. Til þess kom aldrei.
Það er í lagi með hann Simma minn. Hann er hvorki brotinn, beyglaður eða dældaður en jeppinn er þannig. Fólkið í hinum bílunum slasaðist lítillega, að því við best vitum. Lítillega í fréttum getur samt verið allmikið. Þetta hefði getað farið miklu verr ef hann Simmi væri ekki svona fljótur að hugsa. Hann var á eftir fólksbílnum sem fékk annan bíl framan á sig, sá rann til í mikilli hálku, en Simmi beygði útaf til þess að lenda ekki á bílunum. Hann sá að hann næði ekki að stoppa í tæka tíð vegna hálkunnar og gæti lent á bílunum en beygði útaf til þess að forðast það. Sjúkraflutningamaður sem kom þarna sagði við hann að það væri engin spurning um það að hann hefði bjargað mannslífum með þessu.
Þessi orð mannsins gera það að verkun að okkur er skítsama um jeppann. Það dó enginn.
Við vitum ekkert enn hvort verður gert við hann eða hvort við fáum hann bættan.
Það kemur bara í ljós.