Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
22.9.2008 | 17:02
Persónulegt met í sundi
Ég byrjaði í reglulegri líkamsrækt um leið og skólinn byrjaði. Það er ekki amaleg aðstaðan við nýju sundlaugina okkar enda er ég mætt á húninn fyrir klukkan sjö á morgnana í þeirri von að starfsmaðurinn þann morguninn sjái aumur á okkur frekjuhundunum og hleypi okkur inn örlítið fyrr. Það gerist oft. Það munar ótrúlega miklu um fimm mínútur þegar maður þarf að vera mættur í vinnu klukkan átta, uppstrílaður og fínn með þurrt hár.
Í gömlu lauginni synti ég 5-7oo metra á hverjum morgni en núna syndi ég meira en það. Ég veit ekki af hverju. Ég syndi a.m.k. 800 metra og setti persónulegt met í síðust viku þegar ég synti heilan kílómetra og ekki bara einu sinni heldur tvisvar í sömu vikunni. Ég er svakalega montin af sjálfri mér.
Í morgun fór ég bara 800 metra, hafði ekki tíma í meira.
Það er rosalega gott að vera búin að hreyfa sig áður en vinnudagurinn hefst. Ekki nenni ég því seinnipartinn.
17.9.2008 | 18:07
Aldrei aftur í megrun
Ég tók ákvörðun fyrir nokkrum dögum. Ákvörðunin fellst í því að ég er hætt í megrun. Ég er hætt í þessu bulli. Ég er búin að vera meira og minna í megrun síðan ég var 17 ára. Sumarið 1967 var ég í London í skóla og kom heim bústnari en ég fór út og einmitt þá um haustið heyrði ég fyrst talað um megrunarkúr. Ég skellti mér í hann og þar með byrjaði ballið. Ég hef prófað alla kúra sem ég hef heyrt um nema hvítvínskúrinn. Skrítið. Ég ætla samt að sleppa honum. Enginn kúr virkar á mig. Ég missi nokkur kíló þegar ég fer í kúr og bæti þeim síðan á mig þegar ég gefst upp og nokkrum kílóum að auki. Ég hef þannig safnað á mig 15 kílóum síðan ég var ung kona. Kannski hefði ég engu bætt á mig ef ég hefði aldrei farið í megrunarkúr.
Nú er ég hætt öllu bulli. Hætt að telja kalóríur, hætt að vera í aðhaldi, hætt að vera í fráhaldi, hætt að passa mig, hætt að vigta matinn ofan í mig, hætt að pæla í fituinnihaldi, hætt að pæla í sykurinnihaldi, hætt að pæla í transfitusýrum, kolvetnum, próteinum, og hvað þetta nú allt heitir.
Ég ætla að borða það sem mér dettur í hug, hvenær sem mér dettur í hug að borða og það besta af öllu, ég ætla að borða hvað sem er án samviskubits.
Án samviskubits.
Ég hef alltaf fengið samviskubit þegar ég hef "svindlað."
Og auðvitað hef ég oft "svindlað." Annars væri ég tággrönn.
Ég er hætt þessu bulli, ætla að borða það sem mig langar til og ef ég stækka þá ætla ég bara að kaupa mér stærri föt.
Ég nenni þessu bulli ekki lengur.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.9.2008 | 21:51
Síðbúin útilega
Ég veit vel að enginn er verri þó hann vökni en samt er það þægileg tilhugsun að geta flúið rigninguna ef maður vill. Þetta gerðum við Simmi minn nú um helgina. Við vissum að það spáði rigningu og leiðindum á Suðurlandi svo við tengdum Sólbrekku aftan í Lindu Black á föstudag, eftir vinnu og brunuðum alla leið í höfuðstað Norðurlands. Þar tók á móti okkur 18 stiga hiti og logn. Við reistum Sólbrekku á einu af uppáhaldstjaldstæðum mínum þ.e. við Þórunnarstræti á Akureyri og áttum náðuga helgi þar með góðum vinum. Þeim fer óðum fækkandi sem fara um landið með útilegugræjur í eftirdragi en þó eru nokkrir enn á ferð.
Við spókuðum okkur auðvitað í miðbænum, fórum út að borða, sóttum tónleika, kíktum í búðir, fórum á pöbbarölt, grilluðum á tjaldsvæðinu, hittum gamla kunningja, sváfum vel, gengum mikið, horfðum á andanefjur leika sér á pollinum, sóttum messu í Akureyrakirkju svo fátt eitt sé nefnt af því sem við afrekuðum um helgina. Prógrammið var svo stíft að við fundum ekki tíma til að banka upp á hjá vinum sem búa þarna. Það er nú eins og það er.
Það er frábært að geta keyrt í fimm klukkutíma og skipt um veðurlag og hitastig ef maður endilega vill.
1.9.2008 | 22:06
95 ára reglan
Einhvern tímann fannst mér það í óravíddarfjarlægð að ég kæmist á hina svokölluðu 95 ára reglu. Það væri nú bara fyrir gamla fólkið að hugsa um en ekki unglömb eins og mig.
En tíminn líður.
Og það hratt.
Ég komst á þessa reglu í dag.
Lífaldur + starfsaldur = 95 ár
58 ár + 37 ár = 95 ár
Mér skilst á reglum lífeyrissjóðsins míns að ég græði smávegis á þessu. Ef ég skil rétt þá þarf ég ekki lengur að borga iðgjöld í lífeyrissjóðinn.
Hlakka til að sjá það í framkvæmd.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.8.2008 | 19:40
Höfuðdagurinn
Höfuðdagurinn
ákváðum að eigast
forever
það gengur enn
settum upp hringa
það var þannig þá
trúlofunarhringa
það var fyrir 38 árum síðan
höfuðdagurinn
góður dagur
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.8.2008 | 22:36
Silfurstrákar og gullforseti
Ég held að forseti vor hafi fengið nokkur prik hjá mér í kvöld eftir að hafa verið í viðtali í Kastljósinu. Hann gat kastað formlegheitunum og verið maður, venjulegur maður. Mig vantaði svoleiðis forseta. Núna má hann, mín vegna, eiga heima á Bessaastöðum eins lengi og hann vill.
Það var gaman að vera Íslendingur í dag.
Gaman að fylgjast með móttöku silfurstrákanna okkar.
Kökkur í hálsi og tár á hvarmi.
24.8.2008 | 21:43
Menning og silfur
Við, Simmi minn, tókum þátt í menningarnótt eins og við höfum gert undanfarin ár með vinum okkar. Það var allt tilbúið, búið að krossa við ákveðna átburði sem okkur fannst vert að sjá og njóta. En einhvern veginn æxlaðist nú allt þannig að við sáum ekkert af því sem við ætluðum að sjá og gerðum eitthvað allt annað.
Skemmtum okkur samt konunglega.
Vöknuðum svo auðvitað snemma og horfðum á frábæru silfurstrákana okkar spila handbolta í Peking.
Er rétt búin að kyngja kekkinum og strjúka tárin í burtu.
21.8.2008 | 16:27
Lítil þjónustulund
Það er dálítið flókið mál að fá afrit af prófgögnum hjá Nemendaskrá Háskóla Íslands. Ég skil ósköp vel að ég þurfi að sýna umboð frá eiganda prófskírteinisins til þess að fá það afhent. Allt í lagi með það. Og ég skil að það tekur sólarhring að fá gögnin þýdd á ensku. En af því ég bý úti á landi hélt ég í einfeldni minni að það væri hægt að senda umbeðin gögn beint heim til dótlu minnar, því það er hún sem málið snýst um, án þess að ég væri milligöngumaður. Það var dálítið vesen af því þetta kostar 300 krónur en ég ætlaði að leysa þann vanda.
Þá kom babb í bátinn.
Þegar ég var búin að lesa upp kennitöluna og segja nafnið á dótlu og ætlaði að fara að þylja upp heimilisfangið þá stoppaði konan mig af með þvílíkri fyrirlitningu í röddinni að mér varð ekki um sel.
"Ég fer ekki að skrifa niður heimilisfang."
Það er eins gott að ég bý ekki á Þórshöfn heldur í Þorlákshöfn því ég verð að fara í höfuðborgina á morgun og sækja plaggið með tölvupóst í farteskinu frá dótlu um að ég megi fá prófgögnin hennar.
Það hefði líklega vafist fyrir konugreyinu að meðtaka heitið á bænum hennar dótlu minnar en hann heitir Rhosllanercrugogg.
Eins gott að hún stoppaði mig af.
17.8.2008 | 23:33
Er sumarleyfinu lokið?
Þó svo að ég hafi mætt til vinnu eftir sumarfrí á föstudaginn var, var ég enn í sumarleyfisfíling um helgina. Við bjuggum í Sólbrekku á framandi grundu, í sól og blíðu. Skoðuðum sveit sem við höfum alltaf brunað um á þjóðvegi númer eitt og aldrei staldrað við til að skoða. Nú bættum við um betur og jukum við í safni okkar þá vegarslóða og spotta sem við höfðum aldrei farið um áður.
Nú er alvaran alveg að fara að taka við. Á betra máli: Nú tekur alvaran við.
Sumarleyfinu er lokið.
Allir komnir heim til sín og komnir í startholurnar fyrir haustið.
Ég byrja að synda í fyrramálið.
7.8.2008 | 16:23
Íslenskir víkingar
"Can I go all by myself?" spurði Lúkas Þorlákur með undrun í stóru augunum sínum þegar honum var sagt að hann mætti fara til Jónasar. Við vorum búin að komast að því að hann rataði þangað heim en Jónas býr í ca. 150 m fjarlægð. Nanna elti hann til að vera viss um að piltur færi í rétt hús sem hann og auðvitað gerði.
Nú er eins gott að pabbi hans frétti þetta ekki því Svava Rán heldur að krakkinn yrði tekinn af henni og Dave myndi skilja við hana.
Lúkas fær ekki að vera einn í bakgarðinum heima hjá sér hvað þá að fara á milli húsa einn.
Enda ölum við upp sjálfstæða víkinga.