Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
18.10.2008 | 18:37
Skemmtilegar minningar
Á minningarhátið um Gunnar Markússon, fyrrum skólastjóra í Þorlákshöfn, vegna 90 ára ártíðar hans voru fluttar skemmtilegar ræður og ýmislegt rifjað upp frá tíð hans. Ég dáist að minni þessara kappa sem þarna töluðu. Mér finnst ég ekkert muna sem vert væri að segja frá.
Ég mundi samt allt í einu eftir því að einu sinni firrtist ég við Gunnar, nokkur augnablik. Það var á meðan ég var enn í Kennó. Ég átti að velja mér skóla vegna viku æfingakennslu. Ég vildi helst fara í Grunnskólann í Þorlákshöfn en það var aðallega vegna þess að þá gæti ég hitt kærastann minn á hverju kvöldi þegar hann kæmi í land.
Æfingakennarinn minn talaði við Gunnar til að fá pláss fyrir mig en Gunnar vildi mig ekki. Ég varð hundfúl en þegar kennarinn minn útskýrði afstöðu Gunnars gat ég ekki annað en verið ánægð. Hann ætlaði nefnilega að krækja í mig sem kennara um leið og ég útskrifaðist og vildi auka víðsýni mína með því að ég tæki æfingakennsluna annars staðar. Bekkjarsystir mín fór til Þorlákshafnar en ég á Selfoss.
Þetta þakkaði ég Gunnari seinna.
16.10.2008 | 18:25
Ristill
"Ertu ekki með verki með þessu?" spurði læknirinn minn mig í morgun, þegar hann hafði greint mig með ristil.
"Ha, verki?" hváði ég alveg bit. "Eru þetta verkir vegna ristilsins sem hafa hrjáð mig undanfarna daga?"
"Það fylgja þessu oft verkir og geta varið löngu eftir að ristillinn hverfur," tjáði læknirinn mér.
Ég fór inn á doktor.is, um leið og ég gat og las allt um ristil og hann hafði rétt fyrir sér samkvæmt upplýsingum þar.
Ég skyldi ekkert í því í gær hvernig mér leið. Ég reyndi að skilgreina verkina sem ég hafði í baki og hálsi og var komin á þá skoðun að nú hefðu vöðvabólgan, vefjagigtin og harðsperrur, vegna nýrrar hreyfingar, blandast saman í einn hrærigraut, bætt 50% við og sest að í líkama mínum.
Nú veit ég betur.
Ég er með ristil.
15.10.2008 | 20:59
Mótórbáturinn Ísland
Þegar ég var lítil stelpa vildi ég binda spotta í Ísland og henda hinum endanum í skip sem dragi okkur svo eitthvert suður á bóginn, þar sem er venjulega hlýrra en hér. Ég sá þetta sem raunhæfan möguleika. Landið er hvergi fast við annað land og nóg pláss í sjónum í kring til þess að færa okkur til.
Dótla mín sá þetta líka fyrir sér í morgun þegar hún náði alls engu símasambandi við Ísland. Henni datt fyrst í hug að búið væri að skera á sæstrenginn sem tengir okkur við útlönd en síðar sá hún okkur öll fyrir sér á hraðri siglingu til hlýrri stranda að flýja undan vondu mönnunum. Það besta finnst mér að hún sá okkur öll hlæjandi.
Það er einmitt það sem við eigum að gera núna. Hlæja og slaka á.
Hláturinn lengir lífið og slær á áhyggjur af kreppu.
14.10.2008 | 20:36
Krepputal
Hann, Simmi minn, hefur alveg verið að drepa mig síðustu daga með rausi og fjasi um efnahagsástandið í landinu. Hann hefur sterkar skoðanir á öllu og heldur að hann viti hverju er um að kenna og hvernig eigi að leysa hnútinn.
Sem betur fer sofnar hann stundum yfir sjónvarpinu á kvöldin og þá læðist ég sko um til þess að vekja hann ekki. Þetta eru mínar næst bestu stundir.
Þær bestu eru þegar ég get tælt hann til fylgilags við mig því hann talar ekkert um krepppuna á meðan á ástarleiknum stendur.
Ég er farin að hnippa í hann miklu oftar en ég gerði.
Þökk sé kreppunni.
12.10.2008 | 16:43
Björg í bú
Ég hef ekki tekið slátur síðan 1995. Hann Simmi minn stakk upp á því núna að taka slátur. Ég lét þetta eftir honum með því forholli að hann hjálpaði til.
Það gekk eftir. Honum tókst ótrúlega vel upp með saumaskapinn og ýmislegt fleira. Ég tók að mér verkstjórn. Hann sagðist vera starfsmaður í þjálfun.
Núna eigum við lifrarpylsu og blóðmör í frysti. Búin að sjóða svið, sem við höfum ekki gert síðan 1995. Við höfðum aldrei svið á matseðlinum á veitingahúsunum sem hann Simmi minn var að reka og svo höfum við bara einhvern veginn gleymt þessum frábæra þjóðlega mat eftir að hann hætti veitingahúsabullinu.
Og svo eigum við hjörtu og nýru.
Búsældarleg í meira lagi.
Ef ég skil hann Simma minn rétt er þetta bara byrjunin á því að draga björg í bú.
12.10.2008 | 00:50
Minningartónleikar
Þeir voru alveg frábærir minningatónleikarnir um Vilhjálm Vilhjálmsson. Ég var í upphafi með svona tilfinningageðshræringarhroll en ég náði mér upp úr því. Hver listamaðurinn á fætur öðrum sté á svið og söng lögin sem Villi gerði vinsæl fyrir meira en 30 árum. Það er ekki hægt að nefna neinn einn söngvara sérstaklega þeir voru allir frábærir, hver á sinn hátt.
Yfir salnum sveif líka "stöndum saman andi" verum vinir og pössum hvert annað.
Blásum á kreppuna og hlúum að menningunni okkar og því sem við stöndum fyrir.
Frábært kvöld.
Frábært frí frá vangaveltum um framtíðina.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2008 | 23:16
Happatalan átta
Rauðvínsklúbburinn Dreitill hefur starfað í nokkur ár. Ég stofnaði hann með nokkrum æsingi og látum hér um árið þegar ég varð þess áskynja að rauðvínsklúbbur hafði verið stofnaður á mínum vinnustað án minnar vitundar.
Ég stofnaði þess vegna minn eigin klúbb. Í fyrsta drætti kom upp talan átta, sem var auðvitað talan mín þannig að ég fékk allan pottinn, tíu rauðvínsflöskur. Mér fannst það reyndar dálítið vont af því ég hafði átt hugmyndina að stofnun klúbbsins en ég gat auðvitað ekkert gert að því hvað tala kom upp.
Ég hef fyrir löngu afsalað mér formannsréttindum og látið völdin í klúbbnum í hendur mér yngri mönnum eins og eðlilegt er. Reglurnar í klúbbnum eru þannig að tíu manneskjur, þ.e. klúbbmeðlimir, leggja til eina rauðvínsflösku á mánuði og sá sem á öftustu tölu í happdrætti Háskólans í hverjum drætti hreppir allar flöskurnar.
Einhverjum klúbbmeðlimi þótti þetta ekki nógu lýðræðislegt svo reglunum var breytt þannig að þrjár öftustu tölur í hverjum drætti HHÍ hafa verið notaðar þannig að sá sem á öftustu töluna fær fimm flöskur sá sem á næst öftustu töluna fær þrjár flöskur og sá sem þriðju öftustu fær tvær.
Ég fékk pottinn oft á meðan ein tala gilti. Talan átta er auðvitað happatala. Félagar mínir í klúbbnum hafa oft brosað út í annað þegar ég hef nefnt það að það sé samt möguleiki á 10 flöskum þrátt fyrir breytingarnar. Ég hef haldið því á lofti að sama talan geti komið upp sem þrjár öftustu tölurnar.
Já, já Gunna mín, láttu þig dreyma.
Hvað gerðist í kvöld?
Það fór enginn banki á hausinn.
Ég fékk bara rauðvínspottinn allan. Hjá HHÍ kom upp talan 39888.
Eru ekki örugglega þrjár áttur þarna aftast?
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.9.2008 | 23:15
Góð gjöf
Hann Simmi minn færði mér óvænta gjöf í dag þegar hann kom heim úr vinnunni. Hann kom með svaka fína útivistarúlpu handa mér. Mig vantar eiginlega ekkert svoleiðis úlpu en gjöf er gjöf og mér fannst hann bara sætur að færa mér þetta. Það er reyndar búið að sauma út nafn fyrirtækisins sem hann vinnur hjá á aðra ermina þannig að mér finnst úlpan ekki eins fín fyrir vikið en gjöf er gjöf.
Það besta við úlpuna er að hún er svona tveimur númerum of lítil á mig.
Ég veit núna hvaða augum hann Simmi minn lítur á mig.
Hann hefur greinilega ekkert tekið eftir þessum 15 kílóum sem ég hef bætt á mig gegnum tíðina.
27.9.2008 | 21:02
Frænkupartí
Við erum, hvorki meira né minna, en 33 frænkur í annarri kynslóð frá ömmu og afa á Velli. Við vitum allar hver af annarri en hittumst ekki oft. Einhver fékk þessa frábæru hugmynd að hafa frænkupartí og fyrsta partíið var fyrir ári síðan og annað partíið í dag. 23 frænkur af 33 komu saman til að eiga góðan dag og það var svo sannarlega raunin. Við spjölluðum og hlógum, sögðum frá högum okkar og afkomenda og borðuðum allan góða matinn sem safnaðist á borðið.
Það var ákveðið að halda áfram að hittast og vildu frænkurnar endilega koma í Höfnina að ári og ég var kosin í nefnd til að sjá um að það yrði að raunveruleika. Af því að engin nefnd er bara ein manneskja kaus ég systur mínar með mér. Við byrjuðum strax að skipuleggja á leiðinni heim og erum alveg tilbúnar með þetta.
Nema hvað það verður ekki bara frænkupartí að ári heldur fá frændurnir einnig að vera með. Þegar það fréttist að þeir væru súrir út í okkur að fá ekki að vera með ákváðum við að auðvitað yrðu þeir með næst. Frændurnir eru 23 þannig að partíið gæti orðið 56 manna partí.
Frænku-og frændapartí.
Systkinabörnin frá Syðra-Velli í Flóa.
23.9.2008 | 17:32
Nemi í myndlist
Ég er búin að ganga með það í maganum síðan í vor að ég yrði að læra að mála. Ég vaknaði svona einn morguninn. Til þess að prófa hvort ég gæti málað keypti ég ýmiss konar málaradót og kennslubækur. Ég fann líka margt á netinu sem gaman var að skoða. En eftir því sem ég las meira og prófaði að meira að mála vissi ég hvað ég kynni lítið og yrði að fá kennslu.
Ég byrjaði í gærkvöldi á námskeiði hjá Sjöfn Har.
Ég er byrjuð í 1. bekk í myndlist.
Það var æðislega gaman.