13.12.2007 | 21:20
Nýr veitingastaður
Labbaði út í kvöld með elskuna mína mér við hlið, settumst inn á mjög svo huggulegum stað, pöntuðum okkur pizzu og rauðvín og höfðum það huggulegt í kertaljósi og rólegheitum.
Málið er að við vorum bara samt í Þolló.
Megi Svarti sauðurinn dafna vel, fitna og festast í sessi.
10.12.2007 | 15:52
Gott er að eiga góða að
Þegar Nanna litla ömmustelpa frétti það á laugardaginn að ég ætlaði að fara að baka smákökur gat hún ekki hugsað sér að ég væri alein í því stússinu svo hún bauð fram aðstoð sína. Auðvitað þáði ég hjálpina og var henni skutlað til mín yfir fjallið. Hún saxaði súkkulaði og horfði svo aðallega á og fylgdist með.
Það sem hún beið spennt eftir var að fá að skreyta piparkökurnar. Þegar þær höfðu loks bakast var hún orðin svo þreytt að hún steinsofnaði eftir að hafa málað á 4 eða 5 kökur.
Næst mun ég byrja á piparkökunum.
7.12.2007 | 15:04
Gleymska
Það er ekki einleikið hvað ég er orðin gleymin. Ég veit ekki alveg hvort á að flokka þetta undir elliglöp eða eitthvað þaðan af alvarlegra. Svefndoktorinn segir að minnistap geti orðið vegna svefnleysis. Ég hef alltaf vitað að langvarandi svefnleysi sé ekki nógu gott en ég var að vona að ég slyppi með eitthvað alvarlegt. Ég hef sofið alveg ágætlega að undanförnu en í den las ég heilu bækurnar á nóttinni eða horfði jafnvel á bíómynd. Kannski að minnistapið í dag sé afleiðing gamalla vökunótta.
Ég átti að mæta í upphitun klukkan 20:00 í gærkvöldi því jólatónleikarnir byrjuðu klukkan 20:30. Ég var með allt klárt, sem ég átti að sjá um, þ.e. barmskrautið í söngfélagana og gjafirnar sem leigutenórarnir fengu og beið eftir að klukkan yrði rúmlega átta. Þegar ég mætti upp í Ráðhús fannst mér skrýtið að enginn væri kominn á undan mér en ég kom mér fyrir með kassann með skrautinu tilbúin að næla í félaga mína þegar þeir mættu á svæðið. Allt í einu standa þeir allir fyrir aftan mig. Mér dauðbrá og spurði hvaðan í ósköpunum þeir hefðu komið.
Við vorum að koma af upphitunaræfingu innan úr sal, svöruðu félagar mínir.
Ég hafði gleymt mér.
Ég gleymdi að fara í klippingu um daginn.
Ég gleymdi að ég er í jólakúlunefndinni og spurði hina í nefndinni ekki einu sinni hvernig hefði gengið að skreyta jólatréð fyrir Litlu jólin.
Ég gleymdi í gær að hringja fyrir Svövu Rán á Sýsluskrifstofuna en ég gerði það áðan.
Ég gleymi nestinu mínu oft heima.
Ef ég fer út úr húsi með eitthvað annað meðferðis en veskið mitt þá gleymi ég veskinu og verð að snúa við.
Ég verð víst að lifa við þá staðreynd að ég er gleymin.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.11.2007 | 18:38
Í heimsókn í Wales
Það var komin tími til að hitta yngsta barnabarnið svo við Simmi minn brugðum okkur til Wales um helgina. Sem betur fer flýgur Icelandair til Manchester en þaðan er tiltölulega stutt til Rosllanercrugog.
Lúkas Þorlákur kom hlaupandi í fangið á okkur á flugvellinum og mundi greinilega eftir okkur. Við höfðum ekki séð hann síðan í apríl. Honum fannst ekkert leiðinlegt að hafa okkur yfir helgina og pældi mikið í flugferðum á milli landa. Hann veit að hann á að fara í flugvél bráðum en the Jones´s ætla að vera hjá okkur yfir áramótin.
Samskipti okkar eru þannig að við tölum íslensku við hann og hann talar ensku við okkur. Hann skilur íslenskuna alveg þó hann noti ekki nema eitt og eitt orð, eins og tölva, kaupa og kúka. Hann hljóðgreinir íslenskuna ekki alveg rétt því ef hann er látinn segja eitthvað á íslensku verður það oftast með enskum hreim. Hann á meira að segja erfitt með að bera seinna nafnið sitt rétt fram. Það er gaman að fylgjast með máltökunni hjá honum og velta fyrir sér hvernig þetta gerist allt saman. Lúkas er svo sannarlega tvítyngdur. Nú þyrfti ég bara að fá að hafa hann hjá mér í nokkrar vikur og sjá hvað gerðist með máltökuna þá.
Lúkas fór með okkur, ömmu og afa, í labbitúr um Wrexham á meðan mamma hans var í vinnunni. Hann fór með okkur á veitingahús og var auðvitað stilltur og prúður og borðaði eina matinn sem honum finnst boðlegur, bresk pylsa. Þegar hann hafði "had enough" lék hann sér að gasblöðrunni sem afi hafði keypt handa honum. Við létum sem við sæjum ekki að hann var stundum fyrir þjónunum því það var svo gaman að horfa á hann hoppa upp eftir blöðrunni þegar hún sveif til lofts. Við vorum ákveðin í því að þykjast ekki skilja ensku ef einhver segði eitthvað.
Lúkas sýndi okkur minnismerki um kolanámumenn á rölti okkar um hinn mjög svo skemmtilega miðbæ í Wrexham.
Á vegi okkar urðu leiktæki sem Lúkas vildi auðvitað prófa og hvað gera ekki amma og afi fyrir litla strákinn sinn. Hann skemmti sér konunglega við að keyra brunaliðsbíl.
Hann ratar í "the red toyshop" og þangað var ferðinni heitið. Hann vissi að hann mátti velja sér dót og valdi hann sér tvo litla bíla, örugglaga það ódýrasta í búðinni en þessi litli ungi maður veit alveg hvað vill.
Hann svaf í "millinu" hjá okkur þessar þrjár nætur sem við vorum hjá the Jones´s. Það er nú ekki leiðinlegt að heyra í myrkrinu allt í einu upp úr þurru, þegar litli maðurinn á að vera sofnaður:"Amma, I love you."
12.11.2007 | 22:09
Ilman, lykt og fýla
Ég þegi alltaf og passa mig á því að segja ekki orð þegar samferðafólk mitt, hér í þessu plássi, talar um fýluna sem hér hangir yfir okkur öðru hverju. Fýlu sem kemur frá vissum fyrirtækjum. Ýldufýlu. Ég þegi vegna þess að fýlan eða lyktin hefur aldrei farið í taugarnar á mér. Ég virðist ekki finna þessa ógeðslegu fýlu sem hinir finna. Hún ku vera svo megn að fólk og jafnvel fyrirtæki hafa hætt við að setjast hér að vegna hennar. Ég kannast við að hafa fundið vonda lykt en það er ekkert sem ég get ekki búið við. Fólk talar um að það geti ekki opnað glugga í vissri átt og ekki hengt þvottinn sinn út á snúru svo megn sé þessi viðbjóður. Ég var um tíma að reyna að vera á móti fólki sem talaði um fýluna en ég reyni það ekki lengur.
Ég hef nefnilega persónulega svipað vandamál við að etja. Það tengist lykt en ekki fýlu heldur ilman.
Ég held að ég hafi ofnæmi fyrir ilmvatni og rakspíra. Ég hef ekki farið í ofnæmispróf eða rætt þetta við lækni. Ég bara finn þetta á mér. Það er þannig að ef ég anda að mér lykt frá ilmvatni eða rakspíra þá gerist eitthvað í hálsinum á mér þannig að ég missi röddina og finnst erfitt að anda. Ég reyni að koma mér afsíðis þegar þetta kemur fyrir en það er ekki alltaf hægt.
Ég bað söngfélaga mína í kórnum að taka þetta til greina á æfingum og hætta að "spreyja" sig fyrir æfingar (ég veit að ég er leiðinleg). Annaðhvort hefur einhver ekki tekið tillit til þessarar sérvisku í mér á síðustu æfingu eða það er eitthvað annað að hrjá mig. Ég fékk stíflu í hálsinn og þá er ekki gott að syngja.
Ég hélt í dag að ég yrði að hlaupa út úr leikfimistíma. Ég lét það bara ekki eftir mér því ég vildi ekki vekja eftirtekt. En ég átti mjög bágt með að anda því einhver kom með ilmvatnsský með sér í tíma.
Sem sagt ef ég persónulega mætti velja, þá veldi ég ýldyfýluna því hún fer ekki í hálsinn á mér.
10.11.2007 | 10:33
Kjörþyngd
Í nokkur ár hef ég barist í því að komast niður í kjörþyngd án árangurs. Það eru þessi aukakíló sem þvælast fyrir og vilja alls ekki yfirgefa skrokkinn á mér hvað sem hugurinn segir. Það hefur verið tekið til á matardisknum, hamast í sölum líkamsræktar, synt og gengið, skokkað og hjólað.
Hver fann upp þessa kjörþyngd sem maður trúir að maður verði að vera í?
Fréttir dagsins eru að þetta sé bara plat. Lífslíkur þeirra sem eru 5-10 kílóum yfir kjörþyngd séu meiri en þeirra sem eru í kjörþyngd. Alla vega eru þeir í minni hættu hvað hjartasjúkdóma varðar og krabbamein.
Þarf þá ekki að breyta kjörþyngdinni?
Er ég kannski bara 5 kílóum of þung en ekki 15?
9.11.2007 | 21:21
Hvað börnin aðhafast
Ég passaði barnabörnin mín í nokkra daga um daginn svo vísindamaðurinn gæti farið á svefnráðstefnu í Ameríku og tekið konuna með og gert skemmtiferð úr vinnuferðinni í leiðinni. http://www.skarisig.blogspot.com/
En að hann færi að láta sér vaxa svartar krullur í ferðinni og að hún nýtti tímann í naglaásetningu kom mér ekki til hugar.
En svona er maður nú plataður upp úr skónum sínkt og heilagt.
28.10.2007 | 22:33
Styttingur
Það var spurt hvað styttingur væri í spurningaþættinum Útsvari á föstudaginn. Ekki fékkst svar við þeirri spurningu.
Í minni familíu hefur orðið styttingur verið notað um ost eins lengi og við Simmi minn höfum búið saman. Það var einhvern tímann í tilhugalífinu sem ég komst að því að ostur hefði þetta nafn. Simmi minn hafði lært þetta á sjónum. Hann byrjaði afar ungur til sjós og þurfti marga eldraunina að há áður en hann náði því að teljast fullorðinn. Bara þessi nafngift á matartegundinni ostur hafði mikil áhrif á hann.
Hann Simmi minn borðar ekki ost og fyrstu hélt ég að það væri liður í matvendninni að hann borðaði ekki ost en hann var með afbrigðum matvandur þegar ég kynntist honum.
Einn daginn, á fyrstu hjúskaparárunum, spurði ég hann af hverju í ósköpunum hann borðaði ekki ost og þá kom skýringin: Þegar maður borðar ost þá styttist á manni tillinn.
Ég hef sýnt þessari kenningu mikla tillitssemi alla tíð síðan og aldrei reynt að koma ofan í hann osti.
Það var svo með breyttri matarmenningu sem hann fór að borða smávegis af osti en það var þegar það fattaðist að það mátti bræða þessa frábæru matartegund. Þannig að hann borðar ost með pitsum og heitum réttum bökuðum í ofni.
En þrátt fyrir það hef ég ekki tekið eftir neinni breytingu á þessum ofur viðkvæma líkamshluta.
Vinir og fjölskylda | Breytt 29.10.2007 kl. 01:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.10.2007 | 12:08
Hjartasjúklingur
Í dag hefst nýr kafli í lífi mínu. Hér eftir er ég hjartasjúklingur.
Í sneiðmyndatökunni sem ég fór í um daginn, kom í ljós að ég er með byrjun á þrengingum í kransæðum og vegna þess að kólesterólið er allt of hátt hjá mér þarf ég að taka inn kólesteróllækkandi lyf og þegar maður hefur einu sinni byrjað á því er ekki aftur snúið.
Ég er hjartasjúklingur. Það er einkennilegt að segja þetta en ég mátti alveg búast við þessu þar sem krænsæðasjúkdómur liggur í ættinni. Ég var bara heppin að fara svona fljótt í að láta skoða mig. Enda var ekki eftir neinu að bíða þar sem mamma greindist 53 ára með þennan sjúkdóm. Ég er orðin aðeins eldri.
Ég segi að í dag hefjist nýr kafli í lífi mínu vegna þess að í morgun tók ég inn lyfin í fyrsta skipti. Það er líka eina breytingin sem ég ætla að hafa. Ég held áfram í því lífsmynstri sem ég er í.
Það er bara þetta með pillurnar. Dálítið pirrandi af því ég er ekki pillukerling. En það verður bara að bíta það súra enni.... eins og kerlingin sagði.
14.10.2007 | 20:05
Sunnudagssímtölin
Eiginmaðurinn, staddur úti á Sundahöfn: "Hvað segirðu ástin mín?"Hvað ertu að bauka? Ertu komin á fætur?"
Ég svaraði öllum þessum spurningum samviskusamlega. Ég sagði auðvitað allt fínt. Mér finnst nefnilega voða gott að væflast um á morgunsloppnum eins lengi og þorandi er á sunnudögum. Alveg þangað til klukkan er orðin það margt að einhver gæti farið að kíkja við. Ég var bara að fá mér morgunkaffið, sem er öðruvísi á sunnudögum en morgunmaturinn virka daga, Ég var líka á kafi í sunnudagskrossgátunni, sem stóð í mér til að byrja með eins og alltaf. Ég get aldrei klárað hana alveg, vantar alltaf eitt til þrjú orð.
Sonurinn, staddur heima hjá sér á Vesturgötunni: "Sæl, hvað segirðu? Er pabbi heima eða í vinnunni? Hvað er í kvöldmatinn?
"Pabbi er í vinnunni og ég er ekki búin að taka neitt úr fryst en ég geri það bara snöggvast og elda eitthvað þó ég sé ekki eins flínk og pabbi......
"Nei, nei, það yrði bara tvíverknaður."
"Ha?" "Tvíverknaður?"
"Já, ég yrði að endurtaka allt seinna með pabba fyrst hann er ekki heima!"
Dóttirin, stödd heima hjá sér í Wales: "Hæ, ég hringdi bara til að kvarta. Lúkas vill bara leika í bílaleik og ég nenni ekki að leika við hann í dag og mig vantar þig í nágrennið til að senda hann til og......"
Já, ég er ákaflega mikilvæg manneskja og gegni stóru hlutverki í lífi margra!