7.2.2008 | 18:23
Ljóðaslamm
Ég varð ein eyru í gær þegar Hugleikur fór að "slamma" hjá Agli í Kiljunni í gærkvöldi. Ég hafði aldrei heyrt þetta orð áður en er búin að heyra það tvisvar í dag í útvarpinu. Að slamma og ljóðaslamm. Ég er örugglega að einhverju leyti langt á eftir en ég hélt að ég ein ætti þetta stílbragð , sem ég kalla reyndar leirburð, þannig að einhverju leyti er ég á undan minni samtíð. Ég hef samið svona bálka fyrir vini mína sem eiga stórafmæli eða þegar ég hef þurft að koma fram einhvers staðar og tala. Ef ég man rétt eru svona 25 ár síðan ég byrjaði á þessu. Ég get ekki gefið nein dæmi hér því að þetta er þannig vaxið að enginn getur farið með bálkinn minn nema ég ein. Það verða að vera áherslur á hárréttum stöðum og alls ekki sama hvernig þetta er flutt. Ég held að ég hafi aðeins einu sinni látið svona leirburð af hendi og sé pínulítið eftir því.
Ég ætti kannski að hætta að kalla þetta leirburð og kalla þetta héðan í frá ljóðaslamm.
Vinir og fjölskylda | Breytt 8.2.2008 kl. 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2008 | 17:35
Þorrablótið
Þorrablótið var frábært í alla staði. Fólk var dálítið kvíðandi yfir því þetta árið af því nú var það haldið í Versölum en ekki í Íþróttamiðstöðinni eins og undanfarin átta ár. Auðvitað var stemmingin ekki alveg sú sama en frábært blót samt. Veislustjórinn, Freyr Eyjólfsson, fór á kostum eins og hans var von og vísa. Hann söng og sprellaði út í eitt. Ég er búin að þekkja kauða síðan hann var menntaskólastrákur og vissi að hann gerði þetta vel.
En við eigum svo mikið af frambærilegu og frábæru listafólki í okkar litla samfélagi að mikill sómi er að. Það var aðal ástæðan fyrir því að ég fór á blótið í ár. Það var að sjá og heyra í mínu fólki eða eiginlega krökkunum hennar Grétu systur. 75% þeirra voru að skemmta og tengdadóttirin einnig og átti hún beinagrindina í annálnum. Hulda og Kolbrún eru fæddar leikkonur og svo sungu þær líka, ég vissi ekki að þær gerðu það svona opinberlega. En ég vissi að Magnþóra gæti sungið og vissi líka að hún er ljóðskáld og leikritaskáld og ég vissi líka að hún gæti leikið og ég vissi líka að hún er kvikmyndagerðarmaður. Enda var ekki hægt að vera heima og missa af þessu. Rúsínan í pylsuendanaum var svo hann Rúnar minn. Hann er í hljómsveit og syngur rosalega vel og semur líka lög og texta. Lagið hans Dettum í það var flutt þarna. Ég var búin að heyra það áður í tölvunni. Þrælgott lag hjá pilti.
Ég ætlaði sem sagt bara að borða þorramat og horfa á skemmtiatriðin og fara svo heim. Það fór nú ekki alveg þannig. Hann Simmi minn hringdi klukkan hálf átta frá Ólafsvík og sagðist vera að leggja af stað heim og hvort ég gæti reddað honum miða á blótið. Hann fékk nokkurra klukkustunda frí í vinnunni til að kíkja á þorrablótið.
Fyrir klíkuskap fékk ég miða handa honum og var þess vegna að skemmta mér fram eftir nóttu.
31.1.2008 | 18:23
Sjálfsblekking
Vá, hvað er gaman að fá símhringingu þegar sá sem hringir er að tilkynna að maður hafi unnið í happdrættinu.
Þó að það sé bara sjöþúsund kall.
Rétt áður en ég fékk símhringinguna var ég að renna yfir sparikjólarekkann í skápnum og fann þar kjól sem ég var búin að steingleyma að ég ætti, sem þýðir að ég þarf ekki að splæsa í nýjan kjól fyrir þorrablótið.
Ég græddi sem sagt miklu meira en sjöþúsund.
Meðan ég er í þessari sæluvímu hvíslar skynsemispúkinn á öxlinni á mér að ég sé búin að eyða miklu meira en sjöþúsund í þennan happdrættismiða og að það sé ekki nauðsynlegt að kaupa nýjan kjól fyrir hvert einasta þorrablót.
Jæja þá.
26.1.2008 | 23:34
Í blíðu og stríðu á bóndadaginn
"Við verðum að splæsa í brennivínspela úr þessu," sagði Simmi minn þegar við vorum búin að velja sitt lítið af hverju af þorramat úr kjötborðinu í Nóatúni á Selfossi í gær.
Á sjálfan bóndadaginn.
"Af hverju?"
"Nú, með hákarlinum."
"En þú borðar ekki hákarl."
"Nei, ég veit það en þú gerir það."
"Já, en ég drekk ekki brennivín."
"Já, en skilurðu þetta ekki manneskja, hákarl og brennivín eiga að vera saman og nú eigum við hákarl og ekkert brennivín. Það gengur ekki."
Ég skildi þetta svo sem alveg. Ég gúffa í mig hákarlinn og henn drekkur brennivínið.
Samhent hjón.
Það er þannig sem þetta virkar.
Í blíðu og stríðu.
Hákarl og brennivín.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.1.2008 | 23:33
Rugludallur
"Ég skil ekkert í því hvar gemsinn minn er, ég var með hann í höndunum rétt áðan," sagði Simmi minn við mig í símann þegar hann var að týgja sig af stað í vinnuna eftir kvöldmat í gær. Ég sá hann fyrir mér stinga lyklum í vasann, fara í skóna og leita svo að gemsanum.
Hann var bara með hann á eyranu að tala við mig.
Það eru fleiri ruglaðir en ég.
19.1.2008 | 11:11
A eða B inflúensa?
"Ertu með A eða B?" spurði pabbi mig, kankvís á svipinn, þegar hann og mamma komu í sjúkravitjun til mín í gær.
Ég var einmitt búin að velta þessu fyrir mér eftir að ég las allt um inflúensu á vefnum inflúensa.is. Þar er ekki gefin nein mismunandi skýring á tilfellum A og B. En samkvæmt lýsingunni á einkennum ínflúensunnar fer ég ekki í neinar grafgötur um það hvað hefur hrjáð mig síðan á mánudagskvöld.
Ég er aftur á móti með samviskubit yfir því að hafa ekki tilkynnt þessi veikindi mín til landlæknisembættisins því að á vefnum stendur eftirfarandi:
Inflúensan er skráningarskyldur sjúkdómur á Íslandi og ber læknum og rannsóknarstofum að tilkynna um heildarfjölda inflúensutilfella til sóttvarnalæknis samkvæmt nánari ákvörðun hans.
Ég verð ekki með í tölunni hjá sóttvarnalækni því ég fer ekki að druslast til læknis með háan hita til að láta telja mig.
Í morgun vaknaði ég enn með hita og hausverk en leið samt miklu skár en þegar verst lét. Beinverkir í rénum, hóstinn enn til staðar en nefrennsli minnkað til muna.
10.1.2008 | 18:56
Nýliðin áramót
Ég strengi þess heit að fara í megrun, lifa heilbrigðu líferni og kaupa mér hús, stóð á miðanum sem ég dró úr hattinum á gamlárskvöld. Stórfjölskyldan var samankomin heima hjá mér og við brugðum okkur í smá leik á milli þess sem horft var á heimatilbúna fjölskylduskaupið hennar Magnþóru og hins opinbera. Allir urðu að skrifa áramótaheit á blað og setja í hattinn. Ég gæti alveg hafa skrifað það sem ég dró nema þetta með húsið. Ég er að hugsa um að svíkja það heit. Mér líður vel í húsinu sem ég á núna og hef ekki hugsað mér að gera neina breytingu þar á. Það hefði auðvitað veri betra að eiga stærra hús um áramótin þegar 24 af 33 afkomendum mömmu og pabba komu saman til þess að fagna áramótum en þröngt mega sáttir sitja og þar við situr.
Svava Rán og fjölskylda varð líka að láta sig hafa lítið og þröngt herbergi þessa daga sem hún var hjá okkur en hún kvartaði ekki og ég held að henni hafa þótt alveg frábært að koma heim í 10 daga þrátt fyrir þrengsli. Okkur Simma fannst líka frábært að hafa velsku fjölskylduna hjá okkur þessa daga. Núna skiljum við Lúkas miklu betur, vitum hverju hann hefur gaman að og hann þekkir okkur betur.
Við, mæðgur, stóðum okkur bara vel þegar árið fjaraði út á skjánum. Við sluppum við tár þetta árið en reyndum að syngja Nú árið er liðið með sjónvarpinu. Ég mundi textann ekki nógu vel og fannst þess vegna skondið að sjá sjálfa mig á skjánum syngja þetta lag alveg hástöfum. Mér fannst gaman að því að þeir hjá sjónvarpinu skyldu nota þessa tveggja ára upptöku á Nú árið er liðið ekki síst vegna þess að ég gat montað mig við hinn útlenska tengdason minn og bent honum á sjálfa mig á skjánum. Hann hefur ekki verið á Íslandi áður um áramót og fannst mikið til flugeldanna koma og þess hvernig við skemmtum okkur á gamlárskvöld. Hann var vanur (áður en Lúkas fæddist) að fara á pöbbinn og eini munurinn frá öðrum pöbbakvöldum er sá að pöbbinn er opinn aðeins lengur á gamlárskvöld.Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2007 | 16:12
Hátíðleg jól
Helgi jólanna færist yfir.
Ég var að tala við dótlu mína, rétt gat sagt bless án þess að grenja en eitt saknaðartár féll ofan í jólagrautinn en það hlýtur að gera hann betri. Hún hefur skapað sína jólasiði og hefur þá mest megnis íslenska. Hún segist ná íslenskum hátíðaleika þrátt fyrir að vera á erlendri grundu. Hún spilar af diski jólamessu, tekna í Hallgrímskirkju fyrir nokkrum árum, til að ná hátíðleikanum.
Sonurinn ætlar að halda eigin jól með sinni fjölskyldu í fyrsta skipti og hlakkar til.
Við verðum tvo í tangó og höfum verið það áður en ekki í nokkur ár. Við hlökkum líka til.
Nú erum við Simmi minn að bíða eftir að Gestur Einar spili Ó helga nótt með Jussa Björling og um leið óskum við öllum vinum, nær og fjær, gleðilegra jóla.
22.12.2007 | 16:05
Gömul börn
Í dag eru 36 ár síðan ég varð móðir. Litli strákurinn minn er orðin svona gamall. Ég held bara að hann sé alveg að ná mér. Mér finnst hann vera litli strákurinn minn þó hann hafi einhverja fína titla eins og lektor í heilbrigðisverkfræði eða vísindamaður eða eitthvað svoleiðis. Hann væri líka alveg til í það stundum að hnýta naflastrenginn aftur en ég er orðin eins og grimm læða við kettlinga sína þegar henni finnst tími til kominn að kettlingarnir sjái um sig sjálfir.
Þegar Kalli litli var alveg að verða þriggja ára kom systir hans í heiminn. Ég á tvo jólabörn. Við Kalli þurftum að vera á fæðingarheimilinu yfir jólin, því í þá daga var konum ekki hleypt heim fyrr en eftir viku sængurlegu. Við Svava Rán sluppum heim á Þorláksmessu og gátum haldið heilög jól með körlunum okkar.
Já, börnin mín eru bæði komin á fertugsaldur.
Þetta er furðulegasta setning sem ég hef skrifað á æfi minni. Ég trúi ekki að þetta standi þarna en samt, svona er lífið.
16.12.2007 | 19:35
Jólatónleikar
Við, Simmi minn, ákváðum í gær að gera hlé á undirbúningi jólanna hér heima og undarbúa sálartetrin aðeins fyrir komandi hátíð. Við fórum á jólatónleika í Skálholti, þar sem lögðu saman krafta sína Kammerkór Suðurlands og Kammerkór Biskupstungna ásamt hljómsveit Gunnars Þórðarsonar. Einsöngvararnir sem komu fram voru ekki af verri endanum en þar trónir á toppnum Raggi Bjarna. Heila gallerínu stjórnaði svo stórsnillingurinn hann Hilmar Örn.
Ég fékk um mig léttan sæluhroll nokkrum sinnum vegna fagurs flutnings og tár komu í augun og kökkur fyllti hálsinn. Ég bara ræð ekki við þessar tilfinningar, þær ráða yfir mér. Mér fannst þess vegna ágætt þegar Simmi minn hallaði sér að mér, þegar Ó helga nótt var flutt, og sagði :
"Ég fæ bara gæsahúð!"