Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
31.10.2008 | 19:33
Núllum okkur
Bó leggur það til að við núllum okkur núna.
Minn maður hefur alltaf kunnað að orða hlutina.
Núllum okkur.
Mér líst vel á það.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.10.2008 | 16:51
Forsetinn má
Ég gekk fram hjá stórum, svörtum jeppa við Ráðhúsið, þegar ég fór í bókasafnið í fyrradag. Jeppinn var með allt öðruvísi númeraplötu en venjulegir bílar og þegar ég gekk fram fyrir bílinn sá ég íslenska fánann blakta á örðu frambrettinu. Ég spurði bókasafnskonuna hvort hún vissi hver væri á þessum bíl og hún vissi allt um það. Það var sjálfur forsetinn. Hann hafði komið við hjá henni og spjallað þar við krakka sem voru þar staddir. Ég missti af honum. Hann hefur verið einhvers staðar annars staðar í húsinu á meðan ég valdi mér nýja bók að lesa.
Það var fyrst þegar ég kom heim sem ég fattaði hvað það var sem fór í pirrurnar á mér við þennan bíl. Hann var á akbrautinni en ekki á bílastæðinu og hann var í gangi á meðan forsetinn staldraði við.
Við hin drepum alltaf á bílunum okkar þegar við erum ekki að aka þeim.
Ætli forsetinn hafi ekki heyrt talað um mengun?
26.10.2008 | 22:04
Sunnudagsleti
Sunnudagsleti
Fer á fætur þegar mér hentar
fæ mér morgunmat þegar mér hentar
fer í göngutúr þegar mér hentar
borða hádegismat þegar mér hentar
fer í sunnudagskaffi til mömmu og pabba þegar mér hentar
borða kvöldmat ef ég nenni
horfi á sjónvarpið eða les góða bók
spjalla við Simma minn
dreypi á rauðvíni
fer í rúmið þegar mér hentar
sunnudagsleti
sunnudagsleti þegar mér hentar
22.10.2008 | 18:05
Öll á sama báti
"Nú erum við öll á sama báti. Við þurfum bara að sigla í gegnum boðaföllin saman og komast á lygnan sjó."
Þetta er viðkvæðið þessa dagana. Ég er bara alls ekki á sama máli. Ég er hreint ekkert ánægð með það að vera á þessum báti. Ég bað aldrei um pláss. Ég var "sjanghæjuð" einn daginn og vaknaði um borð með fólki að drepast úr þynnku. Mér var ekki boðið til veislu með þessu fólki. Enda er ég ekki með þynnku og neita því að hjálpa partíljónunum að sigla bátnum. Þeir veisluglöðu skulu bara ná landi sjálfir.
Helvítis beinin kunna ekki að sigla og láta mig um það.
Aumingjarnir áttu að fara í skóla og læra eitthvað.
19.10.2008 | 18:22
Yfir fjallið í leikhúsið
Nú stundar maður menningarlífið af krafti.
Í gærkvöldi fór ég með leikhúsvinum mínum að sjá Fólkið í blokkinni. Alveg hreint ágætissýning og ágætisskemmtun.
Ég held að ég muni ekki ganga á milli fólks og segja: "Þú mátt ekki missa af þessari sýningu."
Þetta er ekki neitt tímamótaverk, held ég. Eða hvað veit ég um það, ég hef ekki hundsvit á leiklist þannig lagað séð.
Ég skemmti mér samt vel.
Þarna voru sett á svið brot úr lífi fólks sem býr í sömu blokk. Vandamálin eru margvísleg og allir eiga einhvers konar vanda við að stríða. Þarna var alkóhólistinn og meðvirka eiginkonan. 16 ára dóttir þeirra að finna sjálfa sig. Þroskaheftur bróðir hennar. Strákur skotinn í henni en réð ekki alveg við sjálfan sig og tilfinningarnar. Útigangskona, geðillur húsvörður, eiginmaður sem konan var farinn frá, pólsk nuddkona og fleiri litríkar persónur.
Geirfuglarnir sáu um spileríið og þeir stóðu sig náttúrlega vel eins og allir sem komu þarna fram. Ef ég ætti að nefna einhvern leikara sem stóð upp úr held ég að ég verði að nefna þann sem lék Óla, þann þroskahefta. Hann var magnaður.
Skemmtilegt kvöld.
18.10.2008 | 18:37
Skemmtilegar minningar
Á minningarhátið um Gunnar Markússon, fyrrum skólastjóra í Þorlákshöfn, vegna 90 ára ártíðar hans voru fluttar skemmtilegar ræður og ýmislegt rifjað upp frá tíð hans. Ég dáist að minni þessara kappa sem þarna töluðu. Mér finnst ég ekkert muna sem vert væri að segja frá.
Ég mundi samt allt í einu eftir því að einu sinni firrtist ég við Gunnar, nokkur augnablik. Það var á meðan ég var enn í Kennó. Ég átti að velja mér skóla vegna viku æfingakennslu. Ég vildi helst fara í Grunnskólann í Þorlákshöfn en það var aðallega vegna þess að þá gæti ég hitt kærastann minn á hverju kvöldi þegar hann kæmi í land.
Æfingakennarinn minn talaði við Gunnar til að fá pláss fyrir mig en Gunnar vildi mig ekki. Ég varð hundfúl en þegar kennarinn minn útskýrði afstöðu Gunnars gat ég ekki annað en verið ánægð. Hann ætlaði nefnilega að krækja í mig sem kennara um leið og ég útskrifaðist og vildi auka víðsýni mína með því að ég tæki æfingakennsluna annars staðar. Bekkjarsystir mín fór til Þorlákshafnar en ég á Selfoss.
Þetta þakkaði ég Gunnari seinna.
16.10.2008 | 18:25
Ristill
"Ertu ekki með verki með þessu?" spurði læknirinn minn mig í morgun, þegar hann hafði greint mig með ristil.
"Ha, verki?" hváði ég alveg bit. "Eru þetta verkir vegna ristilsins sem hafa hrjáð mig undanfarna daga?"
"Það fylgja þessu oft verkir og geta varið löngu eftir að ristillinn hverfur," tjáði læknirinn mér.
Ég fór inn á doktor.is, um leið og ég gat og las allt um ristil og hann hafði rétt fyrir sér samkvæmt upplýsingum þar.
Ég skyldi ekkert í því í gær hvernig mér leið. Ég reyndi að skilgreina verkina sem ég hafði í baki og hálsi og var komin á þá skoðun að nú hefðu vöðvabólgan, vefjagigtin og harðsperrur, vegna nýrrar hreyfingar, blandast saman í einn hrærigraut, bætt 50% við og sest að í líkama mínum.
Nú veit ég betur.
Ég er með ristil.
15.10.2008 | 20:59
Mótórbáturinn Ísland
Þegar ég var lítil stelpa vildi ég binda spotta í Ísland og henda hinum endanum í skip sem dragi okkur svo eitthvert suður á bóginn, þar sem er venjulega hlýrra en hér. Ég sá þetta sem raunhæfan möguleika. Landið er hvergi fast við annað land og nóg pláss í sjónum í kring til þess að færa okkur til.
Dótla mín sá þetta líka fyrir sér í morgun þegar hún náði alls engu símasambandi við Ísland. Henni datt fyrst í hug að búið væri að skera á sæstrenginn sem tengir okkur við útlönd en síðar sá hún okkur öll fyrir sér á hraðri siglingu til hlýrri stranda að flýja undan vondu mönnunum. Það besta finnst mér að hún sá okkur öll hlæjandi.
Það er einmitt það sem við eigum að gera núna. Hlæja og slaka á.
Hláturinn lengir lífið og slær á áhyggjur af kreppu.
14.10.2008 | 20:36
Krepputal
Hann, Simmi minn, hefur alveg verið að drepa mig síðustu daga með rausi og fjasi um efnahagsástandið í landinu. Hann hefur sterkar skoðanir á öllu og heldur að hann viti hverju er um að kenna og hvernig eigi að leysa hnútinn.
Sem betur fer sofnar hann stundum yfir sjónvarpinu á kvöldin og þá læðist ég sko um til þess að vekja hann ekki. Þetta eru mínar næst bestu stundir.
Þær bestu eru þegar ég get tælt hann til fylgilags við mig því hann talar ekkert um krepppuna á meðan á ástarleiknum stendur.
Ég er farin að hnippa í hann miklu oftar en ég gerði.
Þökk sé kreppunni.
12.10.2008 | 16:43
Björg í bú
Ég hef ekki tekið slátur síðan 1995. Hann Simmi minn stakk upp á því núna að taka slátur. Ég lét þetta eftir honum með því forholli að hann hjálpaði til.
Það gekk eftir. Honum tókst ótrúlega vel upp með saumaskapinn og ýmislegt fleira. Ég tók að mér verkstjórn. Hann sagðist vera starfsmaður í þjálfun.
Núna eigum við lifrarpylsu og blóðmör í frysti. Búin að sjóða svið, sem við höfum ekki gert síðan 1995. Við höfðum aldrei svið á matseðlinum á veitingahúsunum sem hann Simmi minn var að reka og svo höfum við bara einhvern veginn gleymt þessum frábæra þjóðlega mat eftir að hann hætti veitingahúsabullinu.
Og svo eigum við hjörtu og nýru.
Búsældarleg í meira lagi.
Ef ég skil hann Simma minn rétt er þetta bara byrjunin á því að draga björg í bú.