Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Fjallaferð

Fjallajeppinn, sem ég hef átt í tvö ár, er mestmegnis ekinn á þjóðvegi númer 1. Hann fer alla vega sjaldan af malbikinu. Stundum er ég spurð að því af hverju ég eigi svona bíl og ég svara því oftast til að ég sé að fara í fjallaferð. Eða öllu heldur að mig langi í fjallaferð. Kirkjubæjarklaustur 2007 006

Loksins varð af því um helgina. Við reistum Sólbrekku á Kirkjubæjarklaustri og fórum svo í fjallaferð á laugardag með nesti í farteskinu. Við keyrðum alla leið að Laka. Það var ágætis vegur þangað, þannig séð, en fólksbílar hefðu ekki keyrt yfir árnar sem þurfti að fara yfir. Ég var alveg hissa hve mikil umferð var þarna. Við hittum þjóðgarðsvörð við Laka og hann benti okkur á að keyra aðra leið til baka. Sú leið var merkt á korti sem slóði en reyndist eiginlega betri en hin og ekki síður falleg. Þrátt fyrir mikla umferð þá kemst maður ekki hjá að "heyra" þögnina sem ríkir þarna í óbyggðum. Kirkjubæjarklaustur 2007 007

Ferðin tók fjóra og hálfan klukkutíma. Mér fannst þessum tíma vel varið og vona að þetta sé bara byrjunin á að skoða óbyggðir Íslands.


Elsta barnabarnið

Í dag eru 14 ár síðan ég varð amma. Karl Kolbeinn á afmæli í dag. Töffarinn sá. 1.apríl 2007 064

Hann hefur verið kallaður ýmsum nöfnum gegnum tíðina. Afi hans kallar hann ýmist höfðingja, jaxl eða kappa. Ég notaði Kobbalingur hér áður fyrr og ömmuljós.

Einhverju sinni, þegar hann var lítill, líklega fjögurra ára,  og ég var að tala um að hann væri ljósið hennar ömmu spurði hann hvort hann væri þá augasteinninn hans afa. Enginn vissi hvar hann hafði lært þetta orð.

Þegar Nanna fæddist var hann sjö ára. Þá vildi hann afsala sér ömmuljósartitlinum og sagði að nú væri Nanna ömmuljósið. Ég hélt að ég gæti alveg átt tvö ömmuljós en eitthvað fannst honum það ekki nógu gott. "Hvað viltu þá vera," spurði ég.

Hann var fljótur að svara: "Harðfiskurinn þinn."

Hann hefur verið spenntur fyrir því að bera hæð sína saman við afa og eru þeir alltaf öðru hverju mældir með því að setja stóra bók á kollana á þeim. Á sunnudaginn hallaði bókin ekki í fyrsta skipti.


Í sumarleyfi

Maðurinn, sem ég sef hjá, hefur ekki mikið leikið sér við mig þó hann sé kominn í sumarfrí. Hann var með mér um helgina í útilegu Kiwanisklúbbsins Ölvers. Það var jafn gaman og endranær. Grín, glens og gaman alla helgina.  Á laugardeginum er vani að fara í skoðunarferð og að þessu sinni var farið í Heklusafnið á Leirubakka. Við, Simmi minn og Alda og Valdi, gerðum gott betur . Við fórum líka á Njálusetrið á Hvolsvelli og hlustuðum á Guðna Ágústsson tala um Flosa Þórðarson í Njálssögu. Það gerði Guðni með þvílíkri prýði að nú erum við gamla settið að lesa Njálu. Guðni kveikti neista sem logar enn.

Árni Johnsen kom um kvöldið og sá um brekkusöng eins og ævinlega.Útilegur 034  Það er ómissandi að syngja með Árna þessa helgi. Hvort sem hann kann mörg grip eða ekki, það bíttar engu. Og hann tók færeyska lagið fyrir mig eins og venjulega.

Simmi minn,  var líka með mér á mánudaginn og lékum við okkur í sólbaði allan daginn. Fórum í sund í Hveragerði, bara til þess að athuga hvernig væri að synda í svona langri laug. Við fundum út úr því að við erum ekki í nógu góðu formi. Hver ferð yfir laugina virtist óendanlega löng. Við höfðum það samt af að synda 500 metra.

Í gær vildi, Simmi minn, miklu heldur leika sér við pabba minn heldur en mig. Þeir voru í allan gær í pípulagningarkallaleik úti í skúr. Gerðu þar við ónýta ventla og skiptu um lek rör. Í dag lék hann sér líka við pabba. í dag voru þeir smiðir og fóru að smíða stokka yfir ber rör sem eru hér með fram mörgum veggjum.

Meðan leikurinn þeirra skilar svona góðum árangri ætla ég ekki að kvarta.


Í morgunsárið

"Mikið ertu falleg ástin mín,"  var hvíslað í eyrað á mér, snemma í morgun, um leið og heitar og sterkar hendur tóku utan um mig, nartað nautnalega í eyrnasnepilinn og leitandi vörum strokið eftir andlitinu á mér.

Mér hvellbrá. Ég hef átt svefnherbergið á þessum tíma dagsins fyrir mig eina síðan ég komst í sumarfrí og átti ekki von á þessu. Rétt áður en ég brjálaðist úr skelfingu varð mér ljóst að þarna var kominn maðurinn sem ég skúra hjá. Kominn heim og kominn í sumarfrí.

Framundan eru sæludagar.


Ekkert sólbað

Ég var harðákveðin í því þegar ég fór að sofa í gærkvöldi að ég skyldi ekki eyða minni tíma í dag í sólbað en í gær. Var búin að  ákveða hvaða bók ég tæki með mér í sólbaðið og búin að finna til krossgátur, sudokur og blýanta. Teppið og púðinn bíða úti á grasi frá því í gær. Þess vegna varð ég fyrir gífurlegum vonbrigðum þegar ég hafði sprottið eins og stálfjöður upp úr bólinu og varð litið út um gluggann áður en ég klæddist ósæmilega bikinu mínu. 

Það er ekkert að marka veðurspár.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband