26.3.2008 | 18:12
Páskafrí hvað?
Ég hélt að ég hefði undið ofan af einhverri gamalli þreytu í páskafríinu. Ég veit ekki alveg hvað ég meina með þessu því ég ætlaði alls ekki að nenna á lappir í morgun; það hefði bara verið næs að fá eins og einn frídag enn og ekki nóg með það heldur kom ég dauðþreytt heim úr vinnunni í dag. Það er svo oft erfitt að byrja aftur að vinna eftir frí. Ég skil betur núna hann Simma minn þegar hann talar um erfiðan vinnutíma hjá sér. Vika í vinnunni og vika heima. Hann hlýtur að finna þessa þreytu þá alltaf á hálfsmánaðarfresti sem ég fann fyrir í dag.
Kallanginn minn.
25.3.2008 | 13:38
Endurnærð eftir páskfrí
Ég var svo heppinn að frívikan hans Simma míns var akkúrat í páskafríinu mínu. Við náðum að bralla ýmislegt þessa dásamlegu frídaga.
Eins og að hvílast og vinda ofan af sér. Sem þýðir að ég hlakka til að fara í vinnuna á morgun.
Við fengum gesti í mat og þáðum matar- og kaffiboð. Við fórum á listsýningu í Þorlákshöfn, fyrirlestur um Hallgerði langbrók í Njálusetrinu á Hvolsvelli, út að borða í Rauðahúsinu og á Svarta sauðnum. Bílarnir voru þvegnir og bónaðir. Ég las líka einhver ósköp, prjónaði pínulitið, réð nokkrar krossgátur, fór í göngutúra, sletti í form svo eitthvað sé nefnt.
Skattaskýrsluna gerði í morgun. Það var fljótgert.
Indælt páskfrí.
21.3.2008 | 21:28
Listakonan Zordis
Ég hef lengi dáðst að listavekum Þórdísar á netinu.
Hef velt því fyrir mér að biðja hana um að senda mér eitt til Íslands en ekki látið verða af þvi.
Svo fékk ég boðskort. Hún var mætt á Klakann með listaverkin sín og var með sýningu í Þorlákshöfn í dag. Ég fór spennt til þess að berja verkin berum augum. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Þórdís er náttúrutalent. Hún málar yndislegar myndir á þakplötuskífur. Og þarna var hún, rauðvínskonan mín. Nú prýðir hún stofuvegginn minn.
Rauðvínskonan.
Hvað er skemmtilegra en þegar gamlir nemendur koma, sjá og sigra.
2.3.2008 | 12:46
Hippatímabilið
Ég las með áfergju greinina í Mogganum í morgun um 68-kynslóðina eða hippatímabilið. Ég setti sjálfa mig í spor viðmælenda og tók að svara spurningunum eins og ég hefði svarað ef ég hefði verið beðin um það.
1. Varst þú hippi kringum árið 1968? Ég hef aldrei litið á sjálfa mig sem hippa en ég klæddist hippalegum fötum og tónlistin á þessum tíma átti hug minn allan. Bítlarnir höfðu mikil áhrif á mig og eins aðrir sem sungu um frelsi, frið og ást. Ég fíla enn í botn lagið sem Scott Mc Kenzie söng um blómabörnin í San Fransisco. En ég fór ekki í mótmælagöngur eða var með uppþot af neinu tagi. Það var ekki fyrr en 1975 sem kvennafrídagurinn var og þá var ég auðvitað með.
2. Hvað varst þú að gera árið 1968 og hvað er þér minnisstæðast frá því ári? Ég var 18 ára og var komin í Kennaraskólann, vann í fiski um sumarið og einnig á leikskóla. Ég var að undirbúa mig fyrir lífsstarfið og farin að kíkja alvarlega á strákana. Fann minn þarna um vorið. En sumarið áður var ég tvo mánuði í London, sumarið sem Bítlarnir sungu All you need is love. Ég man að kennslukonan mín skrifaði textann á töfluna og hneykslaðist á hversu lítilfenglegur hann væri. All yoou need is love, love is all you need. Mér finnst textinn frábær og fannst það strax en það var ekki að marka kennslukonuna, hún var í krimplíndragt. Bítlarnir gáfu líka út þetta sumar St. Peppers plötuna og keypti ég hana á sjálfu Carnaby srtreet.
3.Hvað hreif þig mest við hugsjónir hippanna? Friðarboðskapurinn og frelsið.
4. Hver var helsta fyrirmynd þín árið 1968. Af hverju?Í sambandi við tísku var að Twiggy. Klippingin hennar og augnfarðinn var geggjað. Ég reyndi eins og gat að vera eins og hún. Náði samt aldrei vextinum. Mary Quant var aðalfatahönnuðrinn. Stuttu pilsin slógu í gegn. Það fólust viss mótmæli í að ganga í þeim. Þau stríddu gegn viðteknum reglum. Maður byrjaði að bretta upp á strenginn í mittinu en þegar það voru komnir tveir eða þrír hringir í mittið var farið að klippa neðan af pilsunum. Tónlistin var mjög stór þáttur í lífinu. Bítlarnir trónuðu í mínum huga á toppnum þó svo að ég væri í raun alæta á tónlist.
5. Hvað er það hippalegasta sem þú hefur gert fyrr og síðar?Ég reyndi einu sinni að breyta heimilinu mínu í kommúnu þannig að hver átti að sjá um sig eða allir um alla. Ég var að mótmæla húsmóðurhlutverkinu. Ég gafst upp eftir rúma viku, því þá var ekki einn diskur hreinn á heimilinu, engin flík hrein og allt á kafi í ryki og drullu. Ég reyndi líka eitt sinn að henda brjóstahaldaranum en þegar mér var sagt að konur sem gætu haldið blýanti undir brjóstinu mættu ekki vera brjósthaldaralausar vissi ég að sá draumur væri úti því ég gat auðveldlega haldið heilli tylft af blýöntum þarna
6. Hvernig sást þú í stórum dráttum fyrir þér árið 1968 að líf þitt myndi þróast til dagsins í dag og þú yrðir staddir í tilverunni árið 2008? Ég hef aldrei getað séð langt fram í tímann. Ég held samt að við Simmi minn höfum ætlað okkur, á unglinsárunum, að hafa það gott og vera búin að koma okkur vel fyrir um fimmtugt. Þessir draumur tengdist peningum að einhverju leyti. Nú höfum við það gott þó að peningar komi ekki við sögu. Ég er nær hippahugsjóninni núna en ég hef líklega ætlað mér.
7. Hvaða lífsmottó vildir þú helst geta haft í hávegum? Ég er búin að læra það að njóta lífsins NÚNA. Ég vildi að ég gæti kennt ungu fólki það að njóta augnabliksins. Lífið er núna.
8. Hver er arfleifð hippanna eða 68-kynslóðarinnar? Hipparnir skildu eftir sig hugsjónina um betri heim. Þó að efnishyggjan sé efst á baugi þessa stundina þá lifir viðhorf þeirra.
9. Hvað lifir enn af 68-hugsjóninni og lífstílnum hjá sjálfum þér? Tónlistin lifir enn og það að vera góður við náungann.
Krakkarnir mínir voru eitt sinn að spjalla við mig um þetta tímabil og ég var dálítið hissa á hve mikið þeir vissu um hvað var að gerast á þessum tíma og að þeir gerðu sér betur grein fyrir ýmsu en ég. Munurinn er sá að krakkarnir voru búnir að lesa um hippana og hugsjónir þeirra, vafalaust eitthvað sem sagnfræðingar hafa skrifað. En þegar maður er sjálfur á staðnum skilur maður ekki alveg allt. Það er ekki fyrr en tíminn hefur liðið og söguskýringin kemur sem hlutir skýrast fyrir manni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.3.2008 | 17:32
Góður granni
Þegar ég var í makindum að drekka morgunkaffið mitt í morgun og að lesa blöðin, mokaði nágranni minn allar innkeyrslur í botnlanganum mínum með traktorsgröfu. Ég hafði ekki miklar áhyggjur af snjónum í innkeyrslunni af því að bíllinn minn ræður alveg við það að keyra yfir skaflana. En það ber vott um myndarskap að moka snjó af stéttum og í innkeyrslum þannig að ég er hæstánægð með að eiga svona góðan granna. Það lítur betur út hjá mér núna.
Í dag er dagurinn sem ég tek vetrarljósin úr sambandi. Ég kveiki á þessum ljósum 1. nóvember og slekk 1. mars. Í desember heita þau jólaljós en vetrarljós hinn tímann. Ég verð alltaf dálítið döpur þegar ég slekk á ljósunum og sérstaklega núna af því það er augljóslega enn vetur. En það er bara asnalegt að vera með þau lengur.
Hinn góði nágranni minn hefur farið eftir þessari sérvisku í mér og látið sín ljós loga jafn lengi.
Það er gott að eiga góðan granna.
28.2.2008 | 23:44
Bókhald og afstemmingar
Ég veit ekki í hvers konar kasti ég var fyrir tæpu ári síðan þegar ég gekkst inn á það að taka sæti í stjórn Söngfélagsins og ekki nóg með það heldur fékk það hlutverk að vara gjaldkeri. Ég sem kann ekkert með tölur að fara.
Þetta hefur gengið ágætlega, þannig lagað, þangað til í kvöld að ég dreif í að klára að færa bókhaldið og stemma af því nú nálgast aðalfundur. Ég er mikið búin að rífa hár mitt og dæsa og svitna og kólna á víxl yfir tölum og færslum og bankayfirlitum. Það var ekki fyrr en fyrrum gjaldkeri kom í heimsókn til mín sem eitthvað fór að gerast, og viti menn, eftir þriggja klukkutíma yfirsetu passaði allt upp á krónu. En það tók langa leit. Við fundum ýmsar villur t.d einn óborgaðan reikning sem ég hafði bara sett i möppuna og haldið að ég hefði borgað. Það verður einhver glaður á morgun þegar greið þann reikning, Svo hafði ég ekki fært styrki og svoleiðis af því ég fékk ekkert blað um það nema bankayfirlit og svona smávægilegar klaufaskapur enda ér ég að læra þetta.
Hver veit nema ég skelli mér á bókhaldsnámskeið til þess að verða öruggari með þetta eða til þess að ég fái vinnu á skrifstofu í ellinni.
Mér hefur alltaf þótt gaman að vinna með tölur.
Gaman að vera svona akkúrat.
Gaman að vera rúðustrikaður.
24.2.2008 | 21:17
Smáfuglar fagrir
Í fyrravor gat ég ekki farið út á lóð, í einhvern tíma, því ég sá út um stofugluggann hjá mér að það lá dauður fugl á miðri flötinni. Ekkert í heimi er ógeðslegra en dauður fugl. Ég varð að bíða eftir að Simmi minn kæmi heim af sjónum til að fjarlægja viðbjóðinn.
Ég vil hafa fugla í vissri fjarlægð. Þeir eru flottir á flugi og fuglasöngur er fallegur. En þeir mega ekki koma nálægt mér. Ég hef einhvern tíma haldið á fugli og það var hræðilega erfitt. Að finna fyrir fjöðrunum og beinunum, halda að maður taki jafnvel það fast á þeim að fingurnir snerti innyflin er tilfinning sem ég ræð ekki við. Hrollur. Bara hrollur.
Það hefur komið fyrir, oftar en einu sinni, að fugl hefur komið inn í húsið mitt. Í eitt skiptið gerðist það á aðfangadagskvöld, rétt fyrir matinn. Fuglinn varð ær og ég brjáluð. Simmi og krakkarnir komu greyinu út. Í annað skiptið var ég ein heima og hringdi dauðskelkuð í Rut systur mína, sem kom í rólegheitum yfir til mín með skóflu, mokaði snjónum frá svalahurðinni svo ég gæti opnað hana og hleypt kvikindinu út. Mér hafði hvorki hugkvæmst að opna hurð né glugga. Ég bara gólaði.
Nú hef ég í nokkur skipti gefið fuglunum að borða af því ég held að þeir séu svo svangir. Það klingdi í eyrum manns fyrir nokkrum árum Gefið smáfuglunum og það hefur þessi áhrif á mig í dag að ég er sífellt hlaupandi út á lóð með alls konar góðgæti handa kvikindunum.
Ég held að það sé betra að gefa þeim að éta svo þeir geti hypjað sig heldur en að þeir detti niður dauðir úr hungri á lóðina mína.
Vinir og fjölskylda | Breytt 25.2.2008 kl. 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.2.2008 | 15:44
Leikhúsferð
"Ég er búin að kaupa miða í leikhúsið fyrir okkur þann 22. febrúar," sagði svilkona mín við mig um daginn.
"Frábært, "sagði ég "hvað ætlum við að sjá?"
"Ég man ekki alveg hvað leikritið heitir en ég er búin að lesa dóma um það og það lofar góðu."
Ég treysti þessari svilkonu minni fullkomlega til þess að velja leikrit fyrir okkur því hún fer miklu oftar í leikhúsið en ég. Mér finnst mjög gaman að fara í leikhús en ég hef aldrei rænu á að skipulegga leikhúsferð en það þarf auðvitað að gera það með góðum fyrirvara. Þess vegna segi ég að það sé gott að eiga góða að sem sjá um hlutina fyrir mann.
Við fórum í gærkvöldi og sáum Vígaguðinn sem sýndur er á Smíðaverkstæðinu. Þetta er alveg frábært stykki eftir Yasmina Reza sem mun vera einn af vinsælli leikritahöfundum samtímans.
Leikritið fjallar um tvenn hjón sem hittast heima hjá öðru parinu til þess að tala um atburð sem henti 11 ára gamla syni þeirra. Sonur annarra hjónanna lamdi hinn með priki og fannst mömmunni, sem á þann drenginn sem var laminn, að það þyrfti að útkljá málið. Það kemur svo í ljós að ekki er allt sem sýnist því undir fáguðu yfirborðinu leynist ýmislegt sem kemur í ljós þegar hjónin fara að tala saman.
Á köflum er leikritið bráðfyndið en fær mann líka til þess að hugsa um hve stutt er á milli siðmenntaðrar framkomu og þess að fólk sleppi sér og hleypi jafnvel villimanninum út.
Minnti mig á partýin í gamla daga.
Ég bíð núna spennt eftir að svilkona mín hringi aftur og tilkynni mér um næsta leikrit.
21.2.2008 | 23:11
Afmælisferð
Á þriðjudaginn varð pabbi minn áttræður. Áður en við, ferðafélagar hans á Tenerife, komumst á fætur þann dag var hann búinn að skokka eina ferð lengst upp í hlíð. Hann hafði líka, daginn áður, farið í tveggja og hálfstíma gönguferð með okkur "unga fólkinu."
Honum er ekki fisjað saman honum pabba.
Dagurinn var mjög skemmtilegur. Veislan tekin í þremur hollum. Það var morgunsöngur, eftir að hann kom úr fjallahlaupinu, síðdegisfjör og hátíðarkvöldverður.
Eina sem skyggði á gleðina var að Gréta systir skyldi veikjast.
Við náðum að koma eins og brenndir snúðar heim enda var sólbaðið tekið eins og fúll tæm djobb, frá 10 til 18.
Frábært vikufrí. Frí frá snjó og kulda.
Vinir og fjölskylda | Breytt 1.3.2008 kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.2.2008 | 00:12
Vetrarmyndir
Vetrarmyrkur
ég kveiki á kertum
það yljar
Vetrarþungi
ég fæ mér sérrítár
það yljar
Vetrarkuldi
ég lem mér á brjóst
það yljar
Vetrardrungi
ég spjalla við vin
það yljar
Vetrarsól
hrekur í burtu myrkur og þunga
kulda og drunga
og yljar