Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
28.10.2007 | 22:33
Styttingur
Það var spurt hvað styttingur væri í spurningaþættinum Útsvari á föstudaginn. Ekki fékkst svar við þeirri spurningu.
Í minni familíu hefur orðið styttingur verið notað um ost eins lengi og við Simmi minn höfum búið saman. Það var einhvern tímann í tilhugalífinu sem ég komst að því að ostur hefði þetta nafn. Simmi minn hafði lært þetta á sjónum. Hann byrjaði afar ungur til sjós og þurfti marga eldraunina að há áður en hann náði því að teljast fullorðinn. Bara þessi nafngift á matartegundinni ostur hafði mikil áhrif á hann.
Hann Simmi minn borðar ekki ost og fyrstu hélt ég að það væri liður í matvendninni að hann borðaði ekki ost en hann var með afbrigðum matvandur þegar ég kynntist honum.
Einn daginn, á fyrstu hjúskaparárunum, spurði ég hann af hverju í ósköpunum hann borðaði ekki ost og þá kom skýringin: Þegar maður borðar ost þá styttist á manni tillinn.
Ég hef sýnt þessari kenningu mikla tillitssemi alla tíð síðan og aldrei reynt að koma ofan í hann osti.
Það var svo með breyttri matarmenningu sem hann fór að borða smávegis af osti en það var þegar það fattaðist að það mátti bræða þessa frábæru matartegund. Þannig að hann borðar ost með pitsum og heitum réttum bökuðum í ofni.
En þrátt fyrir það hef ég ekki tekið eftir neinni breytingu á þessum ofur viðkvæma líkamshluta.
Vinir og fjölskylda | Breytt 29.10.2007 kl. 01:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.10.2007 | 12:08
Hjartasjúklingur
Í dag hefst nýr kafli í lífi mínu. Hér eftir er ég hjartasjúklingur.
Í sneiðmyndatökunni sem ég fór í um daginn, kom í ljós að ég er með byrjun á þrengingum í kransæðum og vegna þess að kólesterólið er allt of hátt hjá mér þarf ég að taka inn kólesteróllækkandi lyf og þegar maður hefur einu sinni byrjað á því er ekki aftur snúið.
Ég er hjartasjúklingur. Það er einkennilegt að segja þetta en ég mátti alveg búast við þessu þar sem krænsæðasjúkdómur liggur í ættinni. Ég var bara heppin að fara svona fljótt í að láta skoða mig. Enda var ekki eftir neinu að bíða þar sem mamma greindist 53 ára með þennan sjúkdóm. Ég er orðin aðeins eldri.
Ég segi að í dag hefjist nýr kafli í lífi mínu vegna þess að í morgun tók ég inn lyfin í fyrsta skipti. Það er líka eina breytingin sem ég ætla að hafa. Ég held áfram í því lífsmynstri sem ég er í.
Það er bara þetta með pillurnar. Dálítið pirrandi af því ég er ekki pillukerling. En það verður bara að bíta það súra enni.... eins og kerlingin sagði.
14.10.2007 | 20:05
Sunnudagssímtölin
Eiginmaðurinn, staddur úti á Sundahöfn: "Hvað segirðu ástin mín?"Hvað ertu að bauka? Ertu komin á fætur?"
Ég svaraði öllum þessum spurningum samviskusamlega. Ég sagði auðvitað allt fínt. Mér finnst nefnilega voða gott að væflast um á morgunsloppnum eins lengi og þorandi er á sunnudögum. Alveg þangað til klukkan er orðin það margt að einhver gæti farið að kíkja við. Ég var bara að fá mér morgunkaffið, sem er öðruvísi á sunnudögum en morgunmaturinn virka daga, Ég var líka á kafi í sunnudagskrossgátunni, sem stóð í mér til að byrja með eins og alltaf. Ég get aldrei klárað hana alveg, vantar alltaf eitt til þrjú orð.
Sonurinn, staddur heima hjá sér á Vesturgötunni: "Sæl, hvað segirðu? Er pabbi heima eða í vinnunni? Hvað er í kvöldmatinn?
"Pabbi er í vinnunni og ég er ekki búin að taka neitt úr fryst en ég geri það bara snöggvast og elda eitthvað þó ég sé ekki eins flínk og pabbi......
"Nei, nei, það yrði bara tvíverknaður."
"Ha?" "Tvíverknaður?"
"Já, ég yrði að endurtaka allt seinna með pabba fyrst hann er ekki heima!"
Dóttirin, stödd heima hjá sér í Wales: "Hæ, ég hringdi bara til að kvarta. Lúkas vill bara leika í bílaleik og ég nenni ekki að leika við hann í dag og mig vantar þig í nágrennið til að senda hann til og......"
Já, ég er ákaflega mikilvæg manneskja og gegni stóru hlutverki í lífi margra!
9.10.2007 | 23:28
Þannig er nú það
Ég er ekki týnd og tröllum gefin. Ég er ekki uppnumin, glötuð eða horfin. Ég er hér. Ég fer í vinnuna á hverjum degi og dunda mér við hitt og þetta skemmtilegt eins og að lesa, prjóna, fara í leikfimi og á kóræfingar. Ég reyni líka að sýna vinum og fjölskyldu ræktarsemi.
Ég er bara í óútskýranlegri bloggfýlu og þarf að taka sjálfa mig í gegn og finna út úr hlutunum.