Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær

Ég er farin að halda að við ætlum ekki að láta valta yfir okkur lengur. Í fréttum í dag var sagt frá tveimur mótmælum á Íslandi. Annars vegar var hópur fólks í Mosó að mótmæla lagningu vegar í Álafosskvosinni og hins vegar voru Vestmannaeyingar að mótmæla hækkun á fargjöldum með Herjólfi. Fólk lætur greinilega  tuðið heima við eldhúsborð ekki nægja lengur heldur fer og gerir eitthvað í málunum.

Ég tek ofan fyrir fólki sem lætur í sér heyra ef því er misboðið.


Frændur vorir

Ég mætti klukkutíma of seint á kóræfingu í kvöld.  Ég fann að ég átti frekar erfitt með að syngja.  Ég var eitthvað svo aum í hálsinum.  Það var því miður ekki vegna þess að ég hafði fagnað of mikið, heldur vegna þess að ég hafði of oft þurft að segja: ah,  æ,  óh,  andskotinn,  strákar ekki klúðra þessu og eitthvað í þeim dúr með neikvæðum, vonbrigðartón í röddinni. Já, við töpuðum. Danir lágu ekki í því.

Kórinn minn var að æfa danskt lag með dönskum texta í kvöld en það er allt önnur ella.


Þankar fyrir þorrablót

Spurningin er

hvort rakinn  í fataskápnum

eða vitlaust mataræði

hafi gert það að verkun

að æðislegi flotti gellukjóllinn

passar ekki lengur.


Ísfólkið á sólarströnd

Það var skemmtilegur þáttur um Margit Sandemo í sjónvarpinu í kvöld. Hún er ótrúlega afkastamikill rithöfundur. Ég man ekki eftir að hafa lesið neitt eftir hana nema Ísfólkið. Eftir að ég keypti fyrstu bókina á sínum tíma var ekki aftur snúið. Ísfólkið heillaði svo sannarlega. Það var erfitt að bíða eftir næstu bók svo heltekin var ég af sögunni.

Ég athugaði fyrir nokkrum árum hvenær bækurnar fóru að koma út á íslensku og ef ég man rétt var það 1982. Þá var Svava Rán 8 ára gömull og drakk sögurnar í sig. Las hverja bók mörgum sinnum. Á þeim tíma sá ég ekkert athugvert við það að krakkinn læsi bækurnar en ég skildi ekki síðar hvernig mér datt í hug að leyfa henni að lesa þetta svona ungri.  Ég man samt að ég var viss um að við lestur bókanna lærði hún heilmikið í sögu. Það kom reyndar á daginn þegar hún fór að kenna í grunnskóla. Þá hjálpaði henni að hafa lesið Ísfólkið.

1987 fórum við gamli minn í þriggja vikna sólarlandaferð. Þá hafði ég tekið mér pásu í lestri Ísfólksins. Ég varð eitthvað leið á yfirskilvitlegum atburðum og fannst komið nóg. Ég keypti samt alltaf bækurnar því Svava Rán varð að fá Ísfólksskammtinn sinn. Það fór því svo að á þessa sólarströnd var í farteski okkar gamla nokkrar uppsafnaðar ólesnar bækur.

Einn daginn kom fararstjórinn í  heimsókn til okkar. Við vorum langt frá hinum Íslendingunum og vildi Þórunn fararstjóri athuga hvernig við hefðum það. Með henni var eignmaður hennar, Stefán þáverandi Þjóðleikhússtjóri. Við vorum að koma af ströndinni með nokkrar Ísfólksbækur í gegnsærri strandtösku úr plasti. Þegar hjónun nálguðust okkur tók ég eftir að gamli minn fer að toga handklæði til og frá í töskunni svo lítið bar á og draga það yfir bækurnar.

Hann skammaðist sín svo fyrir lesefnið sem við vorum með að hann ætlaði að fela það fyrir sjálfum Þjóðleikhússtjóra.

Ég held að í dag skammist sín enginn fyrir að viðurkenna það að hafa gaman af sögunni um Ísfólkið.


Amma á Velli

Í Dagskránni ,sem kom út á fimmtudaginn, var lítil grein um systkinin frá Syðra Velli í Flóa. Þar kemur fram að um áramótin hafi þau sameiginlega náð því að vera 1080 ára gömul og fimm mánuðum betur. Blaðamaðurinn vill gjarnan fá að vita af því ef nokkur veit af eldri systkinahópi.

Ég hef alltaf verið stolt af því hvað pabbi minn kemur úr stórum systkinahópi og segi frá hvenær sem ég get að amma mín hafi eignast 16 börn á tuttugu árum. Aðeins einn drengur dó í barnæsku. Öll hin komust til fullorðins ára.  Tveir bræður eru látnir, þeir Gísli og Ólafur. Ég hef alltaf gaman að því að heyra sögur frá Velli, frá þeim tíma er flest börnin voru heima. Einhvern tíma heyrði ég að gestkomandi maður hafi fundist það eftirtektarvert hversu mörg börn voru á bænum en enginn hávaði og læti þrátt fyrir að þau voru að leika sér í kringum fullorðna fólkið. Þau skutust til og frá án nokkurs hávaða. Þannig eru þau enn, það er ekki hávaði í kringum hann pabba minn eða systkini hans. Ég held að það sé hægt að lýsa systkinunum sameiginlega þannig að þau eru afskaplega vel gerð, dagsfarsprúð, hæglát og hógvær, alvarleg en mjög stutt í skemmtilega kímni. Flest ef ekki öll gædd listrænum hæfileikum.

Frægt er innan fjölskyldunnar þegar amma ætlaði að biðja Soffíu um eitthvert viðvik en hitti ekki á Sofffíunafnið fyrr en í þriðju tilaun. Hún kallað:" Óla, Finna, Fía." Það er enn grínast með þetta, alla vega í pabba ættlegg, þegar einhver man ekki nöfn eða mismælir sig.

Það var alltaf ævintýri að fara í heimsókn til ömmu og afa á Velli. Þarna var svo mikið af dýrum til að skoða og amma bakaði heimsins bestu ástarpunga. Ég man samt hvað við krakkarnir vorum hræddir við álftina sem bjó um tíma hjá þeim því hún var svo grimm. Þessi álft varð fréttaefni í Mogganum þegar hún dó. Hún flaug á rafmagnsvír sem varð henni að aldurtila.

Amma sagði skemmtilega frá og ég, sem krakki,  fékk aldrei nóg af því að hlusta á hana fara með ljóðabálkinn En hvað það var skrýtið.

Amma mín, Margrét Steinsdóttir, var fædd 17. maí 1890.  Hún giftist árið 1914 honum afa sem hét Ólafur Sveinn Sveinsson. Hann var fæddur 15. janúar 1889. Amma kemur úr fimm barna systkinahópi en afi var einbirni sem var sjaldgæft á þessum tíma.  Sama ár og þau giftust fæddist Sigursteinn og síðan komu börnin hvert af öðru. Guðrún, Sveinbjörn, Ólafur, Ingvar, Gísli, Ólöf, Guðfinna, Krisján, Soffía, Margrét, Sigurður, (pabbi) Gísli, Aðalheiður, Jón og Ágúst Helgi.

Myndin sem er hér að neðan er uppáhaldsmyndin mín af ömmu. Hún hefur eignast 11 börn og eru þau öll með henni á myndinni. Hún heldur á Möggu sem fæddist 1925 og næstur í röðinni er pabbi en hann fæddist ekki fyrr en 1928. Amma fékk þarna þriggja ára barnseignarfrí sem var lengsta hléið hennar í barnseignum á tuttugu ára tímabili.235 Soffía,Guðrún,Sveinbjörn,Margrét,Margrét,Sigursteinn,Ingvar,Ólafur,Ólöf,Guðfinna,Kristján myndinnvar tekin 1925

Amma og afi eiga dágóðan hóp afkomenda. Ég hef bara ekki nýjustu tölur núna svo ég læt vera að giska á  hve hópurinn er orðinn stór.

 


Að léttast eða ekki

Þegar ég hef verið í megrun

í hálfan dag

líður mér svo rosalega vel

að ég fell

um kvöldmatarleytið


Mögnuð birta

Þegar ég vaknaði í morgun var rafmagnslaust hjá mér en þó ekki alveg. Það týrði á perunum en það var það lítil birta að ég gat t.d. ekki speglað mig. Ég sá að það var ljós í húsunum í kring og hélt þess vegna að eitthvað hræðilegt væri að í mínu húsi. Ég varð frekar smeyk og vissi ekki hvað ég ætti að gera. Það var allt of snemmt að hringja í pabba og gamli minn farinn á sjóinn. Ég reyndi samt að ná sambandi við hann en hann svaraði ekki enda hvað hefði hann svo sem gert. Ég vafraði um í þessari óhuggulegu birtu og þorði ekki að snerta neitt því ég er svo hrædd við rafmagn. Tók samt tölvuna úr sambandi en það var það eina sem ég hugsaði um að ekki mætti bila. Ég þakkaði guði fyrir að sundlaugartaskan beið tilbúin og dreif mig út í laug því að ég gat ekki klárað morgunverkin á mér heima.

Á meðan ég synti  gat ég ekki hætt að hugsa um  hvernig mannskepnan komst af fyrir tíma rafmagns.

Þetta var sem betur fer bara eitthvert ómerkilegt rafmagnsleysi í hluta bæjarins.

 


Skattur fyrir nef

Þegar Ríkisútvarpið verður orðið að OHF mun ég greiða 14.580 krónur á ári í nefskatt til útvarpsins og gamli minn mun líka greiða 14.580 krónur . Þó að við höfum verið gift í 35 ár og eigum orðið ansi margt sameiginlegt, þá höfum við enn tvö nef.  En ef við, gamli minn, hefðum fæðst með silfurskeið í munninum eða spilað öðruvðisi úr því sem við höfum aflað okkur hingað til yrði litið á okkur sem neflaust fólk og þyrftum við ekki að greiða krónu fyrir það að hlusta á útvarpið.

Er furða að maður sé fúll?

Kellogsið kláraðist í morgun og það verður ekki keyptur nýr pakki.


Mun matarverð lækka?

Mér fannst það góð tíðindi þegar ég heyrði að virðisaukaskattur af matvöru myndi lækka 1. mars næstkomandi. Þetta var ákveðið í kjölfar mikillar umræðu um hátt matvöruverð á Íslandi. Umræðan hafði áhrif sem er mjög gott mál. Við, Íslendingar, látum allt of oft valta yfir okkur. Við tuðum heima við eldhúsborð ef á okkur finnst hallað en látum ekki til skarar skríða eins og fólk gerir oft í öðrum löndum

Nú virðist sem heildsalar og kaupmenn ætli að hirða aurinn af okkur sem gæti safnast í budduna okkar ef matarverð lækkaði. Þeir eru farnir að hækka vöruverð hjá sér þó þeir hafi haldlítil rök  fyrir því.

Nú er tækifærið okkar til þess að gera eitthvað meira en að tuða heima. Við gætum t.d. látið það eiga sig að kaupa þær vörur sem kaupmenn hafa nú þegar hækkað.

Gerum eitthvað í málinu, því þetta er algjörlega óþolandi.


Inn fjörð og út fjörð

Fyrir rúmum 10 árum fluttum við, gamli minn, á bláókunnugan stað í bláókunnugum landsfjórungi og fórum að reka gistiheimili. Við skiptum á sléttu á húsinu okkar og 130 ára gömlu húsi við fallegan fjörð fyrir austan. Vinur okkar einn sagði fyrir austan hníf og gaffal.

Ég hef aldrei verið hrifin af gömlum húsum nema úr fjarlægð. Þoli illa rifur og skúmaskot sem safna ryki og alls ekki utanáliggjandi rafmagnssnúrur. Þetta gamla hús var einmitt þannig. Spor löngu genginna manna voru alls staðar í húsinu. Þröskuldar báru þess merki að margir hefðu gengið um þá og meira að segja voru göt eftir mýs milli stafs og hurðar, svona eins og kindargötur myndast í móa.

Gamli minn segir að ég hafi gengið hokin fyrsta mánuðinn og ekki snert á neinu. Ég gætti þess að vera í miðjunni svo að ég kæmi ekki við neitt. Ég held að hann ýki aðeins. En ég vissi ekki hvernig ætti að reka gistiheimili og ekki hann heldur.

Fyrsta daginn okkar þarna ákvað gamli minn að taka til og henda rusli. Þá var enn sá siður viðhafður að fara með sorp í brennsluofn út með firði. Í einni ferðinni hringdi hann í mig og sagðist vera að deyja, hann væri allavega að líða út af og væri mjög skrýtinn. Ég hljóp út í bensínstöðina við hliðina og bað um að einhver keyrði mig að brennsluofninum því maðurinn minn væri þar í vandræðum. Ég gat ekki hugsað skýrt en gleymi aldrei þegar góðhjartaði maðurinn, sem vann á bensínstöðinni, sagði þegar við vorum að keyra út fjörðinn: "Það er ekki alltaf svona mikil þoka hérna." Ég hafði ekkert tekið eftir því hvort það væri þoka eða ekki. Annaðhvort var maðurinn að róa mig eða hann vildi leiðrétta misskilninginn með Austfjarðaþokuna.

Maðurinn hjálpaði mér að koma gamla mínum heim og þá tók við nýtt streitukast. Læknar höfðu byrjað í verkfalli þá um morguninn. Okkur var ráðlagt að tala við ákveðna mannesku á staðnum sem kom í sjúkravitun. Hún reyndist vera ljósmóðir að mennt en sjúkdómsgreindi hinn dauðvona mann hárrétt. Streita sem orsakaði aukin hjartslátt og hún sagði honum að taka þetta sem viðvörun og fara vel með sig.

Svo fórum við að reka gistiheimili.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband