18.6.2008 | 19:52
Skemmtilegar tilviljanir
Ég hef ótrúlega gaman af hvers konar tilviljunum. Tilviljunum eins og þegar við Simmi minn hittum Hollendinga í lyftu í útlöndum sem fögnuðu okkur eins og gömlum vinum. Við höfðum verið með þeim á sama tíma á sama hóteli á sólarströnd árið áður.
Mér datt þetta í hug þegar ég las í morgun um komu hvítabjarnarins til Íslands. Hann kom að öllum líkindum frá Grænlandi og kom í land á Íslandi rétt hjá bæ þar sem grænlenskur vinnumaður var. Sá hafði reyndar aldrei séð hvítabjörn en það er nú önnur saga.
Til landsins var fenginn danskur sérfræðingur til þess að freista þess að svæfa bjössa og koma honum aftur heim til sín. Sá danski fann enga barnapíu í veldi Dana fyrir 10 ára gamlan son sinn svo hann varð að taka hann með sér til Íslands. Sumum þótti þetta ansi skrýtið en mér fannst þetta skemmtileg tilviljun. Húsfreyjan á bænum, þar sem hvítabjörninn hélt sig við, er dönsk og fannst henni ekkert tiltökumál að gæta danska drengsins á meðan pabbi hans sinnti sínum störfum.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.