5.9.2007 | 21:37
Seinni koma í Hjartavernd
Ég bæði hlakkaði til og kveið fyrir að fara í seinni heimsóknina í Hjartavernd. Ég hakkaði til að þeim kafla í lífi mínu lyki, þar sem ég hefði einhverjar áhyggjur af hjartanu mínu og kveið fyrir að fá fréttir af því að ég þyrfti að hafa áhyggjur áfram af þessum sama líkamshluta.
Ég hitti á svona líka þægilegan lækni. Hann vildi miklu frekar tala um sameiningu sveitarfélaga og skólamál heldur en hjartað í mér. Hann hafði áhyggjur af börnunum sínum sem þurfa núna að glíma við það að vera í íslenskum skóla og taka þátt í því að vera í blönduðum bekkjum. Þau höfðu verið í skóla í Bandaríkjunum þar sem fyrirkomulagið var með öðrum hætti.
Eftir að hafa rætt við þennan nýja lækni minn um þessi mál öll, fundum við út að við áttum það sameiginlegt að finnast Iowa city kósy borg og þangað langaði okkur bæði að koma aftur á lífsleiðinni. Hann var þar við nám um leið og Kalli minn og þekkjast þeir nokkuð. Ég segi það enn og aftur: Hann er lítill og skondinn þessi heimur.
Lækninum leist ekki betur en svo á ástandið á mér að hann ætlar að senda mig í sneiðmyndatöku til að fá úr því skorið hversu mikið kólesteról hefur safnast inn á kransæðarnar.
Nú er ég komin á einn af þessum frægu biðlistum í heilbrigðiskerfinu og þarf að bíða í nokkrar vikur að mér skilst.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.