23.4.2007 | 17:03
Nemendatónleikar og leikhús
Elsta barnabarnið mitt bauð mér á nemendatónleika í gær. Hann hefur verið að læra á rafmagnsgítar í vetur og mér fannst ekki leiðinlegt að piltur skyldi spila Paint it black, gamla Rolling Stones lagið. Hann ætlaði ekki að taka þátt í þessu en lét til leiðast eftir fortölur og stóð sig auðvitað rosalega vel.
Þegar pabbi hans vildi allt í einu fara að læra á gítar á menntaskólaárunum hringdi ég í alla tónlistarskóla í Reykjavík til að finna einhvern sem kenndi á rafmagnsgítar en það var hvergi hægt að fá kennslu á svoleiðis apparat. Hann varð bara að læra af vinum sínum.
Sem betur fer er öldin önnur núna og þessi tónlistarskóli, sem unglingurinn minn lærir við, Tónheimar fer óhefðbundnar leiðir í tónlistarkennslu. Eins og einn kennarinn sagði í gær þá kemur fólk á marga ólíka vegu að hljóðfærunum sínum og hann vill koma til móts við það. Hann vill að fólk fái að spila uppáhaldstónlistina sína strax en ekki neyða fólk til þess að spila klassík í þrjú ár áður en það fær að reyna sig við það sem það langar að spila.
Ég hef ekkert vit á því hvað er best að gera í þessum bransa en mér finnst gott að það skuli vera til val.
Í gærkvöldi brá ég mér í leikhús hér í bæ að sjá Einn koss enn og ég segi ekki orð við Jónatan sem Leikfélag Ölfuss sýnir. Þetta er bráðskemmtilegur farsi sem engum ætti að leiðast á. Leikararnir og þeir sem komu að sýningunni eiga hrós skilið fyrir frammistöðuna.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:12 | Facebook
Athugasemdir
Ég ætla að skella mér í leikhús á morgun. Farsar eru að vísu sú tegund leiklistar sem mér finnst síst (ég er sennilega húmorslaus!). En þegar leikfélagið í bænum manns setur upp leikrit þá fer maður að sjá það. Ég er alin upp við það...
Sigþrúður Harðardóttir, 23.4.2007 kl. 22:06
Eins og talað út úr mínu....
Guðrún S Sigurðardóttir, 23.4.2007 kl. 22:37
Bara svo þið vitið það. Það er að verða uppselt á sýninguna annað kvöld.
Magnþóra (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 23:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.