16.4.2007 | 16:49
Jafnaðarmannahjartað
Fyrir mig, sem hef aldrei áður farið á landsfund hjá stjórnmálaflokki, var landsfundur Samfylkingarinnar mikil upplifun. Ég var komin í Egilshöll um tvöleytið á föstudag og var fram á kvöld og mætt klukkan níu morguninn eftir og sat allan daginn. Ég var alveg heilluð af baráttuandanum sem þarna ríkti og magnað að finna samstöðuna á svona fjölmennum fundi.
Ég var með öll skilningarvit galopin allan tímann til þess að missa ekki af neinu og til þess að læra og skilja hvernig þetta fer nú allt saman fram.
Ég sleppti ekki einu sinni kokkteilboðinu hjá Róbert Marshall eða lokahófinu sem var á Grand hótel. Þar hló ég meira en ég hef gert í langan tíma. Þar fóru allir á kostum sem komu fram.
Veislustjórinn Karl Matthíasson virðist ekki geta opnað munninn án þess að vera fyndinn. Hallgrímur Helgason, sem flutti hátíðarræðuna, skaut pólitískum grínskotum í allar áttir, Hannes og Smári gáfu góð meinfyndin ráð. Þeir eru dags daglega Ólafía Hrönn og Halldóra Geirharðsdóttir. Guðmundur Steingríms og Róbert Marshall stigu á stokk með Samfylkingarlagið sem við sungum með um leið og við náðum textanum.
Nú er bara að spýta í lófana og sannfæra þessa óákveðnu um hvað þeir eigi að kjósa. Ég er byrjuð.
Já, jafnaðarmannahjartað mitt slær ört þessa dagana.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.