Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Skattur fyrir nef

Þegar Ríkisútvarpið verður orðið að OHF mun ég greiða 14.580 krónur á ári í nefskatt til útvarpsins og gamli minn mun líka greiða 14.580 krónur . Þó að við höfum verið gift í 35 ár og eigum orðið ansi margt sameiginlegt, þá höfum við enn tvö nef.  En ef við, gamli minn, hefðum fæðst með silfurskeið í munninum eða spilað öðruvðisi úr því sem við höfum aflað okkur hingað til yrði litið á okkur sem neflaust fólk og þyrftum við ekki að greiða krónu fyrir það að hlusta á útvarpið.

Er furða að maður sé fúll?

Kellogsið kláraðist í morgun og það verður ekki keyptur nýr pakki.


Mun matarverð lækka?

Mér fannst það góð tíðindi þegar ég heyrði að virðisaukaskattur af matvöru myndi lækka 1. mars næstkomandi. Þetta var ákveðið í kjölfar mikillar umræðu um hátt matvöruverð á Íslandi. Umræðan hafði áhrif sem er mjög gott mál. Við, Íslendingar, látum allt of oft valta yfir okkur. Við tuðum heima við eldhúsborð ef á okkur finnst hallað en látum ekki til skarar skríða eins og fólk gerir oft í öðrum löndum

Nú virðist sem heildsalar og kaupmenn ætli að hirða aurinn af okkur sem gæti safnast í budduna okkar ef matarverð lækkaði. Þeir eru farnir að hækka vöruverð hjá sér þó þeir hafi haldlítil rök  fyrir því.

Nú er tækifærið okkar til þess að gera eitthvað meira en að tuða heima. Við gætum t.d. látið það eiga sig að kaupa þær vörur sem kaupmenn hafa nú þegar hækkað.

Gerum eitthvað í málinu, því þetta er algjörlega óþolandi.


Inn fjörð og út fjörð

Fyrir rúmum 10 árum fluttum við, gamli minn, á bláókunnugan stað í bláókunnugum landsfjórungi og fórum að reka gistiheimili. Við skiptum á sléttu á húsinu okkar og 130 ára gömlu húsi við fallegan fjörð fyrir austan. Vinur okkar einn sagði fyrir austan hníf og gaffal.

Ég hef aldrei verið hrifin af gömlum húsum nema úr fjarlægð. Þoli illa rifur og skúmaskot sem safna ryki og alls ekki utanáliggjandi rafmagnssnúrur. Þetta gamla hús var einmitt þannig. Spor löngu genginna manna voru alls staðar í húsinu. Þröskuldar báru þess merki að margir hefðu gengið um þá og meira að segja voru göt eftir mýs milli stafs og hurðar, svona eins og kindargötur myndast í móa.

Gamli minn segir að ég hafi gengið hokin fyrsta mánuðinn og ekki snert á neinu. Ég gætti þess að vera í miðjunni svo að ég kæmi ekki við neitt. Ég held að hann ýki aðeins. En ég vissi ekki hvernig ætti að reka gistiheimili og ekki hann heldur.

Fyrsta daginn okkar þarna ákvað gamli minn að taka til og henda rusli. Þá var enn sá siður viðhafður að fara með sorp í brennsluofn út með firði. Í einni ferðinni hringdi hann í mig og sagðist vera að deyja, hann væri allavega að líða út af og væri mjög skrýtinn. Ég hljóp út í bensínstöðina við hliðina og bað um að einhver keyrði mig að brennsluofninum því maðurinn minn væri þar í vandræðum. Ég gat ekki hugsað skýrt en gleymi aldrei þegar góðhjartaði maðurinn, sem vann á bensínstöðinni, sagði þegar við vorum að keyra út fjörðinn: "Það er ekki alltaf svona mikil þoka hérna." Ég hafði ekkert tekið eftir því hvort það væri þoka eða ekki. Annaðhvort var maðurinn að róa mig eða hann vildi leiðrétta misskilninginn með Austfjarðaþokuna.

Maðurinn hjálpaði mér að koma gamla mínum heim og þá tók við nýtt streitukast. Læknar höfðu byrjað í verkfalli þá um morguninn. Okkur var ráðlagt að tala við ákveðna mannesku á staðnum sem kom í sjúkravitun. Hún reyndist vera ljósmóðir að mennt en sjúkdómsgreindi hinn dauðvona mann hárrétt. Streita sem orsakaði aukin hjartslátt og hún sagði honum að taka þetta sem viðvörun og fara vel með sig.

Svo fórum við að reka gistiheimili.


Prinsinn af Wales

Lúkas ÞorlákurLúkas Þorlákur er ekki par hrifinn af íslenskri tungu. Hann reynir að leiðrétta mömmu sína og bendir henni á hvernig á að tala rétt.

Mammy, it´s yes, not já.

Hann skilur íslenskuna alveg og er svo snjall að hann veit hvenær það er honum í hag að nota hana.

Um daginn var til á heimilinu kex sem heitir upp á engilsaxnesku Pinguin. Það hlýtur að vera mjög gott kex því Lúkas vildi fá það í morgunmat. Mamma hans benti honum á að kex væri ekki morgunmatur, hann ætti að borða eitthvað hollara en það.

Mammy, please give me mörgæs, sagði piltur þá og fékk auðvitað kex í morgunmat.

 


Bíddu þangað til ég bíð þér næst...

Vetur 2007 009Hann móðgaðist svo

þegar  ég bauð honum ekki inn

að hann settist á grein

og leit ekki við kræsingunum

sem ég bauð upp á

úti í snjónum


Sunnudagsmorgun

Við, ömmustelpa, vorum í slökunargírnum í morgun. Sváfum eins og klessur til klukkan hálf tíu. Þá var afi farinn út á sjó. Það stóð til að leggja netin í dag. Það hefur ekki gefið á sjó í nokkra daga.

Ömmustelpa notar tækifærið og horfir á barnaefni í sjónvarpinu þar sem hún býr á sjónvarpslausu heimili. Það þykja örugglega tíðindi í dag. En svona er það nú samt. Kennari nokkur sagði við Doktorinn (eða við bekkinn hans) þegar hann var í menntaskóla  að sjónvarpið sygi sálina úr fólki. Það er kannski ekki eingöngu vegna þessara ummmæla sem ekki er sjónvarp á heimilinu en það er áreiðanlega ein af ástæðunum.

Ég veit það bara að ég er oft eins og sálarlaus þegar ég hef hangið ótæplega yfir sjónvarpinu. 


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband