Litla systir

Ég var ráðin í vist þegar ég var níu ára. Það þótti mikil upphefð að vera ráðin í vist. Þá hafði maður einhverjum skyldum að gegna og fékk jafnvel laun fyrir. Mínar skyldur voru þær að passa Rut systur mína. Hún er átta árum yngri en ég, þannig að þegar hún var eins árs var ég  níu ára gömul og treyst fyrir því að keyra litlu systur mína í vagninum og gæta hennar þegar hún hafði sofið lúrinn sinn eftir hádegi.

Venjulega fór ég með hana beina leið á stóra róló. Við vorum sendar með nesti. Mjólk í tómatsósuflösku og brauð í boxi. Það var regla hjá krökkunum að klukkan hálf fjögur settust allir í grasið sem var á afgirtu svæði við hliðina á leikvellinum sjálfum og snæddu nestið sitt. Þegar rigndi var setið við bekki undir skýlinu hjá gæslukonunum.

Þarna var alltaf aragrúi krakka að leika sér og var þetta mikill ævintýraheimur. Gæslukonur voru til staðar allan daginn og var gott að vita af þeim. Þarna voru sandkassar, rólur af mörgum stærðum, vegasölt, bæði há og lág en það  sem var skemmtilegast voru kaðlarnir. Það varð að klifra upp á háa kistu, ná kaðlinum og sveifla sér yfir á kistuna hinum megin.

Við þessa iðju gat ég gleymt mér og barninu sem mér var trúað fyrir.

Einn rigningardaginn komst Rut upp úr vagninum. Hún hlýtur að hafa dottið því vagninn var nokkuð stór. Hún fannst skríðandi í polli, rennandi blaut og illa til reika.

Ég man ekki eftir því að hafa verið skömmuð. En ég man að gallinn hennar var ljósgulur.

Ég varð svo hrædd um hvað hefði getað orðið um litlu systur mína að ég gleymi þessu aldrei.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að lesa þessar minningar. Ég var sjálf á svipuðum aldri þegar ég gætti þriggja yngri systkina minna meðan mamma og pabbi unnu í búskapnum. Ég var 10-11 ára þegar ég fór að elda kvöldmatinn og ég man eftir því að það kom stundum fyrir að maður gleymdi að lækka undir kartöflunum eða bjúgunum og hrökk upp við ógeðslega lykt sem var lengi úr húsinu. Ég gleymdi mér nefnilega stundum við að lesa.

Magnþóra (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 14:45

2 identicon

Ein stutt saga úr Smáratúninu af því að þú ert nú að rifja ýmislegt upp. Við erum nefnilega svo mörg á mínum vinnustað sem ólumst upp í þeirri góðu götu um miðbik síðustu aldar. Stelpurnar "úti" á nr. 5 voru aðeins eldri en við og þessi litla saga frá Rúnu segir meira en margt annað hvað lífið var einfalt í þá daga. Hún var að vappa í kring um konurnar í timbrinu, þegar að ein kallaði í hana og sagði. Rúna mín viltu ekki fara fyrir mig í Ölfusá ( magasínið hans Dodda ) og kaupa export og einn pakka af Wings (sígarettur). Buddan er í skúffunni fyrir neðan klukkuskápinn í eldhúsinu  og þar ætti að vera nægur peningur. þú setur þetta bara svo á eldhúsborðið !! Nú eru öll hús harðlæst, allir með greiðslukort og bannað að selja börnum sígarettur. Já tímarnir hafa sannarlega breytst, og spurning hvort það sé til batnaðar! Góða helgi.

Eygló Lilja Gränz (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 16:46

3 Smámynd: Guðrún S Sigurðardóttir

Frábær saga um Rúnu. Þetta er svona perla sem má ekki týnast.

Guðrún S Sigurðardóttir, 20.3.2009 kl. 19:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband