Minningarbrot

Við eigum enn heima á Selfossi. Ég er líklega  tólf ára.

Mamma var að vinna í sláturhúsinu í Höfn. Hún gerði það stundum á meðan á sláturtíðinni stóð. Jón, frændi, á Velli var hjá okkur í hádegismat. Hann var líka að vinna í sláturhúsinu þetta haust. Þetta var uppgripsvinna fyrir fólk. 

Einn morguninn bað mamma mig um að sjá um hádegismatinn. Það var í fyrsta skipti sem mér var trúað fyrir þessu mikilvæga húsmóðurhlutverki. Venjulega skellti mamma einhverju á borð þegar hún kom heim úr vinnunni en nú átti ég að sjóða ýsu og kartöflur. Ég vandaði mig mjög við þetta og vissi alveg hvaða pott átti að nota undir fiskinn og hvaða pottur var kartöflupotturinn. En þar sem ég er að stússa þarna í eldhúsinu og velta eldamennskunni fyrir mér, finnst mér alveg óþarfi að nota tvo potta. Það átti bara að sjóða hvort tveggja, fiskinn og kartöflurnar. Ég setti kartöflurnar og þverskorna ýsubitana í sama pottinn og var heldur hróðug með þessa frábæru uppgötvun mína. Síðan bræddi ég flot. Það var gert þannig að tólgin var sett í óbrjótandi mjólkurglas og glasið síðan ofan í pottinn hjá fiskinum. Það var mikilvægt að passa sig á að brenna sig ekki þegar glasið var tekið upp úr.

Þegar allir komu heim í hádegismatinn, þennan haustdag, var ég með húsmóðurbros á andlitnu og búin að leggja á borð.

Hugmyndin mín þótti ekki mjög sniðug. Ég hafði ekki þvegið kartöflurnar nógu vel, þannig að fiskurinn var allur í sandi og þótti ekki lystugur.

Ég hef ekki reynt þessa aðferð síðan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Prófaðu aftur - þvoðu krtöflurnar bara betur - eða notaðu suðupoka.

;-)

IÞÞ

Ingibjörg Þ. Þorleifsdóttir (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 17:41

2 identicon

Kartöflurnar - átti ég við - jarðeplin - eða bara eplin eins og þeir segja í Færeyjum.

Súrepli eru svo epli upp á íslensku.

IÞÞ

ingibjörg Þ. Þorleifsdóttir (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 17:43

3 identicon

Það var margt brallað í Smáratúni 3 og í minningunni var alltaf þverskorin ýsa í matinn, alla veganna á efri hæðinni !! Í minningunni var maður líka oft látin kveikja undir pottunum ( annan með kartöflum og hinn með fiskinum ) og eins og það hljómar skringilega í dag,  þá var hvort tveggja soðið í a.m.k. hálftíma ! Maturinn átti að vera tilbúinn kl. 12.00 þegar að verkstæðisflautan fór að baula til merkis um að það væri kominn matartími. Þá flýttu allir sér heim. Ekki man ég eftir mömmu í sláturhúsinu, en í timbrið fór hún oft, bæði hjá Höfn og Kuffulaginu. Þá komu heilu skipsfarmarnir af ósorteruðu timbri, sem var flutt á Selfoss og því sturtað á plönin hjá KÁ og Höfn og svo flaug fiskisagan um bæinn að það væri komið timbur, og allar kerlingar sem vettlingi gátu valdið, skelltu sér í "timbur". Vinnan fólst í að flokka borðin eftir lengd og stærð. Þetta voru uppgrip kvenna sem ekki bjuggu við sjávarsíðuna.  Það var nú þá  

Eygló og Viðar (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 14:26

4 identicon

Eg er loksins buinn ad finna ysu til sølu her i Noregi.

Her vill folk thorsk og ufsa(graann og ljotann)

Svo her er ysa i mat bara allan timan mar.

Bardur Einarsson (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 15:34

5 Smámynd: Guðrún S Sigurðardóttir

Ég var búin að gleyma þessu með flautuna á verkstæðinu. Sú minning segir manni hvað margt hefur breyst. Þetta hefur verið dásemdarlíf. Öll fjölskyldan hittist við matarborðið mörgum sinnum á dag. Allir gátu fylgst með öllum í familíunni. Það segir sig sjálft að þá hlaðst síður upp vandamál. Það er hægt að leysa úr öllum málum strax. Það þarf ekki að bíða eftir að mamma eða pabbi komi heim um kvöldið. 

Ég man eftir að hafa hjálpað mömmu í timburvinnu.

Já, já, það voru ég og þú

í Smáratúni þrjú!

Guðrún S Sigurðardóttir, 19.3.2009 kl. 15:58

6 Smámynd: Guðrún S Sigurðardóttir

Bárður, manst þú eftir kaupfélagsflautunni?

Guðrún S Sigurðardóttir, 19.3.2009 kl. 16:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband