Tapað og fundið

Ég týndi úrinu mínu mánudaginn 9. febrúar. Stundum set ég svona óþarfa á minnið eins og þessa dagsetningu.

Ég uppgötvaði að úrið var týnt þegar ég ætlaði að taka það upp úr kápuvasanum áður en ég snaraði mér í kennslustund en þar geymi ég úrið yfirleitt á meðan ég syndi morgunsundið mitt. Úrið var, þennan morgunn, ekki í vasanum svo ég þurfti að spóla til baka í huganum og finna út hvar ég hefði sett úrið. Ég gat ekki rifjað neitt upp svo öruggt væri þannig að það var bara tilfinning að ég hefði tapað úrinu þarna um morguninn einhvers staðar við sundlaugina. Fannst einhvern veginn að ég gæti hafa misst það við bíllinn á bílastæðinu. Ég veit varla af hverju ég hafði þessa tilfinningu.

Ég leitaði alls staðar og spurðist fyrir hér og þar og leitaði meira. Í bílnum, heima, í Íþróttamiðstöðinni, á bílastæðinu við Íþróttamiðstöðina og í skólanum. Ég gat ekki hætt að leita. Þetta er nú samt ekkert Rolex, heldur bara úrið mitt.

„Hvað viltu borga fyrir úrið þitt?“ spurði Simmi minn í dag þegar við vorum að leggja af stað í Bónus og vorum að koma okkur fyrir í bílnum.

Það hafði dottið ofan í hliðarvasann á bílhurðinni.

Ég veit núna hvað tímanum líður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband