Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Grillsumarið hafið

"Ætlarðu ekki að fara að drífa þig á fætur.  Sólin er farin að skína og vindurinn er hlýr.  Við höfum verk að vinna í garðinum," sagði maðurinn sem ég sef hjá, alltof snemma í morgun að mínu áliti.

Ég var á stredderíi með stelpunum í saumó í gærkvöldi og var ekki tilbúin til þess að fara í garðvinnu fyrir hádegi. Þegar ég druslaðist á fætur og fór út í garð fann ég að vorið var komið. Maðurinn var kominn út með grillið og talaði um að kaupa eitthvað til að grilla í kvöld.

Ég náði í garðhrífu og hamaðist við að raka vetrardraslinu saman og þegar við vorum búin að losa okkur við það þá skelltum við okkur í búðina til þess að kaupa eitthvað á grillið. Þegar við komum þaðan út vissum við að við höfðum gert stórmistök. Við vorum með í poka steik á grillið og eitthvað smávegis að auki en við borguðum formúu fjár fyrir. Það hefði borgað sig að keyra í Hveragerði í Bónus til þess að versla.

En grillaða steikin var svakalega góð.


Herjólfur

herjólfurÉg styð hverjar þær hugmyndir sem Vestmanneyingar eða aðrir hafa um bættar samgöngur milli lands og Eyja eftir ferðina með Herjólfi á miðvikudag. Það var smá bræluskítur og það var ekki örgrannt við það öðrumegin að ég væri sjóveik. Ég slapp með að gubba með því að vera í láréttri stöðu alla leiðina. Það gerði það að verkum að ég var ekki til stórræðanna með að líta eftir nemendunum sem ég var í för með. Hinir sjóhraustu samferðamenn mínir sáu um þá hlið mála á meðan ég lá eins og drusla, samanhnipruð á stólum í borðsalnum.

Ég var betur búin undir heimferðina í gær. Þeir kenndu mér það Eyjamenn, sem ég hitti, að áður en maður fer í Herjólf þá tekur maður inn sjóveikispillu og pantar sér koju til að liggja í. Ég fór að þessum ráðum og komst heim heilu og höldnu.

Það hefði verið þægilegra að keyra t.d eftir jarðgöngum.


Vorfiðringur

Ég fann vorilminn

ég sá vorlitina

ég heyrði vorhljóminn

ég snart eftirvæntinguna

en þá kom páskahret.DSC01420


Fótbolti og nafnháttur

"Ferðu ekki örugglega á kóræfingu í kvöld?"

"Nei, við erum eiginlega komin í sumarfrí."

"Æ, andskotinn, ég ætlaði að horfa á leik í sjónvarpinu."

Hann, Simmi minn, virðist fá sektarkennd þegar hann horfir á fótbolta í sjónvarpinu og ég er heima Nú fæ ég sektarkennd vegna þess að hafa komið inn sektarkennd hjá honum. Þetta er nú meiri tilfinningaflækjan.

Ég komst sem sagt ekki hjá því að fylgjast með, alla vega með öðru auganu, Manchester United leika á móti AC Milan í Meistaradeild Evrópu. Þegar maður byrjar að horfa er þetta allt í lagi. Það er miklu verra að vera að gera eitthvað annað og heyra í látunum á fótboltavellinum.

Á meðan á leiknum stóð var ég pæla í ýmsu öðru en fótbolta eins og hver væri sætastur,  hver væri mesta skræfan og hvaða tyggjó Alex Ferguson notaði.

Það rifjaðist líka upp fyrir mér að það eru líklega íþróttafréttamnn eða þeir sem lýsa leikjum sem byrjuðu á því að nota nafnháttarstílinn. Tvisvar skoraði Kaka mark fyrir Milan og í bæði skiptin sagði eða öllu heldur æpti Hörður Magnússon: "Kaka er að skora mark.!" En þá var Kaka auðvitað búinn að skora.

Hinn gæinn, sem var að lýsa leiknum, hélt því líka fram að einhver leikmannanna, ég man ekki hver, væri alltaf með svo góðar staðsetningar. Það er gaman að þessu, ég brosti alla vega yfir vitleysunni.


Nemendatónleikar og leikhús

Elsta barnabarnið mitt bauð mér á nemendatónleika í gær. Hann hefur verið að læra á rafmagnsgítar í vetur og mér fannst  ekki leiðinlegt að piltur skyldi spila Paint it black, gamla Rolling Stones lagið. Hann ætlaði ekki að taka þátt í þessu en lét til leiðast eftir fortölur og stóð sig auðvitað rosalega vel.

Þegar pabbi hans vildi allt í einu fara að læra á gítar á menntaskólaárunum hringdi ég í alla tónlistarskóla í Reykjavík til að finna einhvern sem kenndi á rafmagnsgítar en það var hvergi hægt að fá kennslu á svoleiðis apparat. Hann varð bara að læra af vinum sínum.

Sem betur fer er öldin önnur núna og þessi tónlistarskóli, sem unglingurinn minn lærir við, Tónheimar fer óhefðbundnar leiðir í tónlistarkennslu.  Eins og einn kennarinn sagði í gær þá kemur fólk á marga ólíka vegu að hljóðfærunum sínum og hann vill koma til móts við það. Hann vill að fólk fái að spila uppáhaldstónlistina sína strax en ekki neyða fólk til þess að spila klassík í þrjú ár áður en það fær að reyna sig við það sem það langar að spila.

Ég hef ekkert vit á því hvað er best að gera í þessum bransa en mér finnst gott að það skuli vera til val.

Í gærkvöldi brá ég mér í leikhús hér í bæ að sjá Einn koss enn og ég segi ekki orð við Jónatan sem Leikfélag Ölfuss sýnir. Þetta er bráðskemmtilegur farsi sem engum ætti að leiðast á. Leikararnir og þeir sem komu að sýningunni eiga hrós skilið fyrir frammistöðuna.


Með söngfuglum

Ég var með félögum mínum í Söngfélaginu í Vestamannaeyjum um helgina. Við vorum þar að endurtaka tónleikana sem við héldum á sumardaginn fyrsta í Versölum. Freyjukórinn úr Borgarfirði var með okkur, bæði í Þorlákshöfn og úti í Eyjum.

Kaffihúsakórinn, sem er frá Vestamannaeyjum, tók á móti okkur og söng þrjú lög á tónleikunum. Ég bjóst við rútubílasöng, vegna nafnsins á kórnum, en þetta er mjög kröftugur gospelkór sem væri gaman að heyra meira í.

Kórarnir þrír borðuðu saman kvöldverð og skemmtu sér við söng og dans á Hótel Þórshamri á laugardagskvöld. Fjórum strákum (á ýmsum aldri) voru afhentir gítarar og þeir spiluðu og sungu eins og þeir hefðu verið saman í hljómsveit í mörg ár og héldu uppi feiknastuði.

Áður en við fórum í matinn tók ný stjórn Söngfélagsins formlega við völdum, á léttu nótunum, og makakórinn sýndi atriði sem er hefð í vorferðinni okkar. Makakórinn kemur alltaf á óvart og fer alltaf á kostum. Í þeim kór eru dansarar, leikarar, söngvarar, einsöngvarar og látbragðsleikarar.

Ég var ekkert sjóveik í Herjólfi svo ég kvíði engu að fara aftur á miðvikudaginn en það stendur til að ég fari sem dómari í Stóru upplestrarkeppninni  þar sem börn úr 7. bekk í Grunnskólanum í Þorlákshöfn keppa við börn úr Eyjum í upplestri.

Ég hitti mann þarna úti í Eyjum sem heilsaði nokkrum úr hópnum sem könnuðust við hann. Ég hef aldrei séð manninn áður, svo ég viti. Þegar hann tók í höndina á mér sagði ég til nafns eins og kurteisum manni sæmir. Þá spurði maðurinn, sem var á mínu reki:

Áttu heima í Þorlákshöfn?

Já.

Ertu frá Selfossi?

Já.

Áttirðu heima í Smáratúni?

Já.

Ég sá þig síðast 1963.


Þjóðleikhúsferð

Við, Simmi minn, buðum barnabörnunum okkar, sem búa á Íslandi, í leikhúsið á sunnudaginn. Það var verið að auglýsa síðustu sýningar á Sitji guðs englar svo ég dreif í að kaupa miða. Ég vissi að Nanna myndi þiggja boðið. Ég hef áður farið með hana í leikhús en það gladdi mig mjög þegar nýfermdi rokkarinn þekktist boðið einnig. Hann hefur haft áhuga á Hítler og heimstyrjöldinni frá því rétt eftir að hann fæddist svo hann fékk dálítið í  leikritinu við sitt hæfi. Nanna þurfti stundum að hvísla spurningum í eyrað á mér til að fá nánari útskyringar. Henni fannst t.d. alveg óskiljanlegt þegar hermennirnir tóku krossinn af kirkjunni og settu byssu þar í staðinn. Hún þurfti líka að fá nanari skýringu þegar einhver féll útbyrðis og drukknaði.

Við skemmtum okkur öll mjög vel. Þetta er frábært stykki eins og von er frá Guðrúnu Helgadóttur. Ég las bókina þegar hún kom út svo ég kannaðist við söguna.

Það versta var að Nanna fékk á heilann blótsyrðin hans afa í leikritinu og sönglaði "andskotinn" aftur og aftur alla leið frá Þjóðleikhúsinu og að veitingastaðnum Ítalíu þar sem við hittum foreldra þeirra. Þeim hefur oft fundist við, Simmi minn, blóta of mikið í návist barnanna en þetta tók steinninn úr.

Ég vona að þetta hafi rjátlast af krakkanum og að hún sé hætt að blóta.


Jafnaðarmannahjartað

Fyrir mig, sem hef aldrei áður farið á landsfund hjá stjórnmálaflokki, var landsfundur Samfylkingarinnar mikil upplifun. Ég var komin í Egilshöll um tvöleytið á föstudag og var fram á kvöld og mætt klukkan níu morguninn eftir og sat allan daginn. Ég var alveg heilluð af baráttuandanum sem þarna ríkti og  magnað að finna samstöðuna á svona fjölmennum fundi.

Ég var með öll skilningarvit galopin allan tímann  til þess að missa ekki af neinu og til þess að læra og skilja hvernig þetta fer nú allt saman fram.

Ég sleppti ekki einu sinni kokkteilboðinu hjá Róbert Marshall eða lokahófinu sem var á Grand hótel. Þar hló ég meira en ég hef gert í langan tíma. Þar fóru allir á kostum sem komu fram.

Veislustjórinn Karl Matthíasson virðist ekki geta opnað munninn án þess að vera fyndinn. Hallgrímur Helgason, sem flutti hátíðarræðuna, skaut pólitískum grínskotum í allar áttir, Hannes og Smári gáfu góð meinfyndin ráð. Þeir eru dags daglega Ólafía Hrönn og Halldóra Geirharðsdóttir. Guðmundur Steingríms og Róbert Marshall stigu á stokk með Samfylkingarlagið sem við sungum með um leið og við náðum textanum.

Nú er bara að spýta í lófana og sannfæra þessa óákveðnu um hvað þeir eigi að kjósa. Ég er byrjuð.

Já, jafnaðarmannahjartað mitt slær ört þessa dagana.


Nám barna af erlendum uppruna

Ég þurfti í dag að setja hugsanir mínar á blað, án mikillar umhugsunar, og senda það sem ég skrifaði í tölvupósti til ókunnugrar manneskju.

 

Ég fékk, í tölvupósti frá einum framhaldsskóla í landinu, beiðni um það að ef ég hefði einhverjar hugmyndir um hvernig framhaldsskólinn geti bætt móttöku nemenda af erlendu bergi brotnir þá væru allar ábendingar vel þegnar.

 

Ég lét skoðun mína flakka en hún er sú að ef grunn-og framhaldsskólinn ætli að koma til móts við þarfir nemenda af erlendum uppruna þá verði að ráða til starfa kennara sem tala móðurmál nemendanna. Það er útilokað að nemendur sem koma erlendis frá og fara beint í efstu bekki grunnskólans, geti með nokkru móti nýtt sér það námsframboð sem framhaldsskólar bjóða upp á. Þeir geta ekki verið orðnir það færir í íslensku og íslenskri menningu að námið verið þeim að gagni.

 

Fjöldi nemenda af erlendu bergi, sem flosnar upp úr námi, sýnir þetta.


Að loknu páskfríi

Senn lýkur þessa indæla páskafríi. Ég hef verið að velta því fyrir mér í hvað ég hef eytt frídögunum eftir að ferming var yfirstaðin og Veilsverjarnir voru flognir til síns heima. Ég hef mestmegnið:

Borðað, drukkið, bragðað, snætt,

blásið, gúffað og etið,

hugsað, talað, hlegið, rætt,

hangið, legið og setið.

Sem sagt, varla gert neitt af viti og er því meira en tilbúin til þess að hitta samstarfsfólkið á morgun og ekki síður nemendur mína.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband