Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Fjarstýring og "sushi"

"Ættum við ekki bara að hringja í Nönnu og spyrja hana hvort hún viti um fjarstýringuna," lagði Simmi minn til þegar við ætluðum að kveikja á sjónvarpinu í eldhúsinu á mánudagskvöldið og fundum fjarstýringuna hvergi og gátum þar með ekki kveikt á imbanaum.

"Hvað heldurðu að þú farir að rugla í barninu með það," svaraði ég að bragði, "þó að fjarstýringin sé týnd."

Ég veit samt að Nanna tekur eftir ótrúlegustu hlutum og gæti þannig lagað alveg vitað um fjarstýringuna en ég lagði til að við skyldum leita betur.

Við leituðum og leituðum og fundum gripinn hvergi.

Mánudag og þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag, leituðum við allstaðar að fjarstýringunni og við fundum hana hvergi.

"Ég hringi í Nönnu, ég er viss um að hún veit um gripinn, sagði Simmi minn í kvöld og hringdi í barnabarnið sem var hjá okkur í heimsókn um síðustu helgi.

"Já, sko afi, þegar við amma vorum að fara að mála, þurfti ég að taka allt af eldhúsborðinu og vafði fjarstýringunni inn í borðmotturnar, svona eins og "sushi."

Fjarstýringin var vandlega vafinn inn í borðmotturnar ofan í skúffu, sem við vorum bæði búin að fara mörgum sinnum í gegn.

Minnti dulítið á "sushi."


Konudagsgjöf

Ég ætla bara rétt að vona það að hann Simmi minn hlusti ekki á auglýsingar frá skartgripasölum og fari að gefa mér skartgrip á konudaginn. Mér hefur aldrei fundist að ég eigi að fá gjöf þennan dag. Hvað þá ef Simma mínum er skipað að kaupa eitthvað handa mér.

Það er nú samt þannig að ég get alveg á mig skartgripum bætt, ekki síst í ljósi þess að ég týndi úrinu mínu í síðustu viku, dýru og fínu úri, tapaði eyrnalokk á mánudaginn og í gær datt perla úr hring.

Ég vona að allt sé þegar þrennt er því ég má ekki við meiri skaða í bili.

Ég víl samt enga konudagsgjöf.

En ég afmæli einu sinni á ári.


Þjóðarstoltið

Ég meira hlustaði en horfði á afhendingu íslensku tónlistarverðlaunana í sjónvarpinu í kvöld af því ég var að vanda mig svo mikið við að prjóna lopapeysu á Baby born. Ég heyrði öðru hverju útundan mér karlakór syngja smástef á meðan kynnarnir voru að koma sér á svið. Það var bara fyndið og skemmtilegt.

Þess vegna brá mér þegar þeir byrjuðu að syngja þjóðsönginn í lok afhendinganna. Mér datt ekki annað í hug en að þetta yrði smástef eins og allt sem þeir höfðu flutt áður og hvernig er þjóðsöngurinn sem smástef. Hjartað í mér tók ýmis aukasjokkslög. Ég átti jafnvel von á því að þeir segðu allt í einu, "djók" og hættu að syngja í miðju lagi. Mér leið ekki mjög vel.

Þeir voru að syngja þjóðsönginn okkar.

Þeir kláruðu sönginn allan og gerðu það bara nokkuð vel. Mér létti. Ég hugsaði með mér að við ættum að nota þjóðsönginn miklu oftar og mér leið betur og betur þegar þjóðarrembingurinn smaug inn í merg og bein.

Allir í salnum stóðu upp eins og vera ber.

Allir í salnum klöppuðu í lok söngsins eins og má alls ekki gera.

Meira að segja Ólafur og Dorrit.

Allir klöppuðu fyrir þjóðsöngnum.

Þjóðarstoltið mitt seig langt niður.


Göngutúr í kreppu

"Ég hef alltaf sagt þetta." Já, var það ekki." Helvítis hálvitarnir."

Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið í morgungöngunni sem við hjónin tókum á okkur. Ég hélt eitt augnablik að hann Simmi minn væri endanlega að missa vitið en þá hafði hann tekið vasaútvarp með sér og var að hlusta á einhvern umræðuþátt í því. Ég sem hélt að göngutúrinn væri til þess að hressa upp á sálartetrið og gleyma þjóðfélagsástandinu um stund.  En það gleymist ekki svo glatt. Umræðan er alls staðar.

Ég neita því samt ekki að við komum ögn hressari heim.  


Nýyrðasmíð

Oft hef ég lent í umræðum þar sem rætt er um nýyrði og þykir mér það alltaf skemmtilegt. Nú  las ég á Vísi.is að Baldur, málfræðingur, Jónsson leggi  til að gúggla verði glöggva. Ég treysti fáum betur en Baldri til að finna nýyrði og mun ég fallast á hans tillögu eins og skot.

Ég var samt að vona að gúgla yrði notað og röksemdin yrði að sögnin gúgla  aðlagaðist íslenskunni vel og samræmdist sögnum á borð við sigla, mygla og rugla. Sigla er reyndar sigldi í þátíð en gúgla er oftast notað í þátíð gúglaði. En rugla og mygla hafa –aði endingu í þátíð þannig að þar er kom líking með ruglaði, myglaði og gúglaði.

rugla-ruglaði-hef ruglað  mygla-myglaði-hef myglað   gúgla-gúglaði- hef gúglað

Í boðhætti eru sagnirnar ruglaðu-myglaðu-gúglaðu.

Þá er spurningin hvernig glöggva kemur heim og saman. Að glöggva sig á e-u eru góð rök því að menn eru jafnan að glöggva sig á e-u þegar þeir eru að leita sér upplýsinga á leitarvef. Ég hafði áhyggjur af því hvernig glöggva færi í munni þegar sögnin væri notuð sem skipun, samanber þegar einhver skipar öðrum að gúggla, bara til að finna e-ð á netinu. „Gúgglaðu það bara, amma“, segir 8 ára ömmustelpan mín. Google it, amma,“ segir 5 ára ömmusnúðurinn minn.  Hann segir það reyndar upp á engilsaxnesku. Á íslensku yrði það „Glöggvaðu það bara ,amma“. Sem er ágætt en hvernig verður þá skipunin: Farðu inn á g............... og g............ það."

"Farðu inn á "google" og gúglaðu það.“

„Farðu inn á "google" og glöggvaðu það.“

„Farðu inn á glögg og glöggvaðu það."

Google (leitarvefurinn)verður þá að heita glögg. Skyldi Baldur hafa hugsað út í það?

Baldur leggur einnig til að "facebook" verði kölluð vinabók. Mér finnst það í fínu lagi enda heyri ég alls konar þýðingar á facebook og það er eins og að fólk sé alltaf að grínast með öll þau orð sem eru nefnd. Facebook = fésbók, andlitsbók, smetta, smettuskrudda, sméttið svo eitthvað sé nefnt.

Vinabók.


Sorg og gleði

Ég ætla að skjótast á Selfoss á eftir og hitta nokkra skólafélaga frá Selfossi. Það er kominn tími á að hittast ogFermingarsystkin það þarf að undirbúa það. Ég renndi yfir nafnalistann sem ég hef í mínum fórum og varð alveg dolfallin þegar ég uppgötvaði að þrjú af bekkjarsystkinum mínum hafa kvatt þennan heim frá því við hittumst síðast fyrir aðeins 5 árum.

Enginn veit sína ævina fyrr en öll er.    Blessuð sé minning þeirra.

Á myndinni eru þeir saman komnir sem hittust fyrir tæpum 5 árum. Við stöndum á pallinum hans Hannesar í Hafinu Bláa með Ölfusárósa í baksýn.


Sprotafyrirtækið mitt

SnjólandMér datt það í hug, þegar ég las pistil dótlu minnar, að ég ætti að stofna sprotafyrirtæki sem biði upp á námskeið fyrir útlendinga sem kunna ekki að lifa með snjó. Bretar senda fólk heim úr vinnu og skólum ef spáð er snjókomu og í fréttum í gær kom fram að flugsamgöngur fóru úr skorðum vegna snjóa, lestarferðir lögðust af og meira að segja neðanjarðarlestir áttu í vandræðum. Fréttir voru einnig annars staðar úr Evrópu um vandræði vegna snjóa.

Þegar dótla mín var skiptinemi í Ameríku, fyrir nokkrum árum, kom það iðulega fyrir að skólahald lagðist af vegna þess að snjóföl var á vegum úti.

Þannig að á námskeiðunum mínum, sem ég bíð ekki bara Evrópubúum upp á heldur og einnig Ameríkönum,

-verður kennsla í snjómokstri, bæði með skóflu og stórvirkum vinnuvélum

-hvernig á að skafa af bílrúðum

-hvernig nota skal snjódekk,

-hvernig skuli klæðast, og þar með er ég farin að selja íslenska ull á vegum dótturfyrirtækis

-hvernig akstri í snjó skuli háttað,

-hvernig búa á til engla í snjó

-hvernig snjókarlar eru gerðir

Listinn er ótæmandi þannig að ég sé sæng mína útreidda. Ég þarf að ráða margt fólk í fyrirtækið og það stækkar svo hratt að ég verð kölluð útrásarvíkingur áður en við er litið og þar með er ég orðin, svo eitthvað 2007, að þessi hugmynd fellur um sjálft sig.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband