Sniglaveisla

Nanna og Jara, vinkona hennar, voru að leika sér úti í garði í gærkvöldi þegar þær komu hlauðpandi inn til að segja okkur frá sniglum sem þær fundu í grasinu. Mér finnst sniglar ógeðslegir, þannig að ég hélt mér til hlés en Simmi setti djöfsana í krukku til að geta skoðað þá betur.
Þetta eru heljar hlunkar brúnir eða rauðbrúnir að lit og verða nokkrir sentimetrar að lengd þegar þeir teygja úr sér. Okkur datt Spánarsnigillinn í hug en ég held að hann sé svartur.
Þetta minnti okkur líka á "the slugs" sem við urðum vör við í fyrrasumar hjá Svövu Rán í Wales. "The slugs" koma upp á yfirborðið eftir að dimma tekur og skilja eftir sig slikju af einhverju ógeði hvar sem þeir fara. Og miðað við hraða snigilsins var oft ótrúlega mikil slikja á jörðinni þegar við komum út á morgnana. Einu sinni voru skórnir hans Simma míns þaktir þessu dularfulla efni. Honum var nær að gleyma þeim úti.
Simmi minn, hringdi áðan og bað mig um að halda lífi í sniglunum í krukkunni með því að gefa þeim hundasúrur eða eitthvað að borða. Hann var búinn að hringja í einhvern fræðing og sá vill fá sniglana.
Ég get ekki hugsað mér að opna krukkuna svo ég bíð eftir að stelpurnar vakni svo þær geti hjálpað mér.
Þær eru ekkert smeykar við kvikindin.

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband