Skemmtileg menningarnótt

Menningarnótt byrjaði hjá okkur Simma mínum með því að horfa á Latabæjarhlaupið. Af því að ég hafði skráð sonardótturina í hlaupið fannst mér ég bera svolitla ábyrgð á þessu.  Nanna stóð sig aldeilis vel, hljóp af miklum krafti alla leiðina og tók þessu af mikilli alvöru. Enda var hún að hlaupa fyrir fátæk börn í útlöndum.

Eftir hlaupið fórum við á rand. Við vorum í því að sýna okkur og sjá aðra. Alda og Valdi voru með okkur og lentum við á hinum og þessum stöðum eins og á jasstónleikum í glertjaldi, rokktónleikum í porti við Laugaveginn, hlustuðum á  Stjána stuð og konu hans, drukkum bjór, hlustuðum á Þorvald Halldórsson og konu hans syngja Drottinn er minn hirðir, keyptum geit í Malaví, sáum dansflokka, misstum af vinum okkar Færeyingum, nutum veðurblíðunnar, spjölluðum við fólk, fengum okkur pizzasneið og pepsí svo fátt eitt sé nefnt.

Um kvöldmat mættum við svo á pallinn hjá Vesturgötuliðinu og tókum þar þátt í 200 manna garðveislu. Eigendur hússins voru að fagna að þeir eru næstum því búnir að taka húsið í gegn að utan. Tveggja ára vinnu að ljúka. Húsið hefur líka tekið stakkaskiptum. Þar var búið að hengja upp skrautljós, allskonar, og koma fyrir hátalarakerfi.  Þar tróðu upp hljóðfæraleikarar og skemmtikraftar á öllum aldri og öllum boðið í grillaðan mat. Heill lambaskrokkur var grillaður á teini og 20-30 kíló af fiski. Gestir voru líka á öllum aldri, frá nokkurra mánaða til rúmlega áttræðs.

Við skemmtum okkur konunglega. Við erum að vonum rosalega ánægð með að skólafélagar Kalla, sem við höfðum ekki hitt áður,  trúðu því ekki að við værum foreldrar hans. Héldu að við værum jafnaldrar hans. Annaðhvort erum við svona ungleg eða Kalli svona karlalegur. Ha, ha!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband