Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Kjúlli á bjórdós

"Ég er búinn að græja bjórdósina."

Ha, hvað, sagði ég annars hugar, við að telja lykkjurnar á prjóninum.

"Ætlarðu ekki að hafa grillaðan kjúlla á bjórdós í matinn?" spurði Simmi minn.

"Jú, elsku kallinn minn, er ekki allt reddí?"

"Jú, ég var að segja það. Ég er búinn að græja bjórdósina."

Þessi elska, sem ég dró upp að altarinu fyrir margt löngu síðan, var byrjaður að undirbúa kvöldmatinn, eins og hans er von og vísa, þrátt fyrir að hann vill helst ekki borða kjúlla.

En þegar kjúllinn er grillaður á hálffullri bjórdós tekur hann fullan þátt, allavega í undirbúningi.


Tapað og fundið

Ég týndi úrinu mínu mánudaginn 9. febrúar. Stundum set ég svona óþarfa á minnið eins og þessa dagsetningu.

Ég uppgötvaði að úrið var týnt þegar ég ætlaði að taka það upp úr kápuvasanum áður en ég snaraði mér í kennslustund en þar geymi ég úrið yfirleitt á meðan ég syndi morgunsundið mitt. Úrið var, þennan morgunn, ekki í vasanum svo ég þurfti að spóla til baka í huganum og finna út hvar ég hefði sett úrið. Ég gat ekki rifjað neitt upp svo öruggt væri þannig að það var bara tilfinning að ég hefði tapað úrinu þarna um morguninn einhvers staðar við sundlaugina. Fannst einhvern veginn að ég gæti hafa misst það við bíllinn á bílastæðinu. Ég veit varla af hverju ég hafði þessa tilfinningu.

Ég leitaði alls staðar og spurðist fyrir hér og þar og leitaði meira. Í bílnum, heima, í Íþróttamiðstöðinni, á bílastæðinu við Íþróttamiðstöðina og í skólanum. Ég gat ekki hætt að leita. Þetta er nú samt ekkert Rolex, heldur bara úrið mitt.

„Hvað viltu borga fyrir úrið þitt?“ spurði Simmi minn í dag þegar við vorum að leggja af stað í Bónus og vorum að koma okkur fyrir í bílnum.

Það hafði dottið ofan í hliðarvasann á bílhurðinni.

Ég veit núna hvað tímanum líður.


Litla systir

Ég var ráðin í vist þegar ég var níu ára. Það þótti mikil upphefð að vera ráðin í vist. Þá hafði maður einhverjum skyldum að gegna og fékk jafnvel laun fyrir. Mínar skyldur voru þær að passa Rut systur mína. Hún er átta árum yngri en ég, þannig að þegar hún var eins árs var ég  níu ára gömul og treyst fyrir því að keyra litlu systur mína í vagninum og gæta hennar þegar hún hafði sofið lúrinn sinn eftir hádegi.

Venjulega fór ég með hana beina leið á stóra róló. Við vorum sendar með nesti. Mjólk í tómatsósuflösku og brauð í boxi. Það var regla hjá krökkunum að klukkan hálf fjögur settust allir í grasið sem var á afgirtu svæði við hliðina á leikvellinum sjálfum og snæddu nestið sitt. Þegar rigndi var setið við bekki undir skýlinu hjá gæslukonunum.

Þarna var alltaf aragrúi krakka að leika sér og var þetta mikill ævintýraheimur. Gæslukonur voru til staðar allan daginn og var gott að vita af þeim. Þarna voru sandkassar, rólur af mörgum stærðum, vegasölt, bæði há og lág en það  sem var skemmtilegast voru kaðlarnir. Það varð að klifra upp á háa kistu, ná kaðlinum og sveifla sér yfir á kistuna hinum megin.

Við þessa iðju gat ég gleymt mér og barninu sem mér var trúað fyrir.

Einn rigningardaginn komst Rut upp úr vagninum. Hún hlýtur að hafa dottið því vagninn var nokkuð stór. Hún fannst skríðandi í polli, rennandi blaut og illa til reika.

Ég man ekki eftir því að hafa verið skömmuð. En ég man að gallinn hennar var ljósgulur.

Ég varð svo hrædd um hvað hefði getað orðið um litlu systur mína að ég gleymi þessu aldrei.


Minningarbrot

Við eigum enn heima á Selfossi. Ég er líklega  tólf ára.

Mamma var að vinna í sláturhúsinu í Höfn. Hún gerði það stundum á meðan á sláturtíðinni stóð. Jón, frændi, á Velli var hjá okkur í hádegismat. Hann var líka að vinna í sláturhúsinu þetta haust. Þetta var uppgripsvinna fyrir fólk. 

Einn morguninn bað mamma mig um að sjá um hádegismatinn. Það var í fyrsta skipti sem mér var trúað fyrir þessu mikilvæga húsmóðurhlutverki. Venjulega skellti mamma einhverju á borð þegar hún kom heim úr vinnunni en nú átti ég að sjóða ýsu og kartöflur. Ég vandaði mig mjög við þetta og vissi alveg hvaða pott átti að nota undir fiskinn og hvaða pottur var kartöflupotturinn. En þar sem ég er að stússa þarna í eldhúsinu og velta eldamennskunni fyrir mér, finnst mér alveg óþarfi að nota tvo potta. Það átti bara að sjóða hvort tveggja, fiskinn og kartöflurnar. Ég setti kartöflurnar og þverskorna ýsubitana í sama pottinn og var heldur hróðug með þessa frábæru uppgötvun mína. Síðan bræddi ég flot. Það var gert þannig að tólgin var sett í óbrjótandi mjólkurglas og glasið síðan ofan í pottinn hjá fiskinum. Það var mikilvægt að passa sig á að brenna sig ekki þegar glasið var tekið upp úr.

Þegar allir komu heim í hádegismatinn, þennan haustdag, var ég með húsmóðurbros á andlitnu og búin að leggja á borð.

Hugmyndin mín þótti ekki mjög sniðug. Ég hafði ekki þvegið kartöflurnar nógu vel, þannig að fiskurinn var allur í sandi og þótti ekki lystugur.

Ég hef ekki reynt þessa aðferð síðan.


Myndlist ll

Ég er byrjuð á nýju myndlistarnámskeiði. Myndlist ll. Ég er sem sagt í öðrum bekk í teikningu. Það versta er að eftir því sem ég læri meira því vissari verð ég að ég get ekkert teiknað eða málað. Ég vona bara að ég verði fyrir svona áhrifum eins og fólk lendir í sem fer á námskeið hjá Dale Carnegie. Þar er fólk fyrst brotið niður og svo byggt upp aftur.

Mig vantar sjálfstraust og ég þarf að læra miklu meira.

En það er gaman. Rosa gaman.

 


Hégómi

Ég hef þurft að fórna hégómanum fyrir morgunsundið. Eitthvað verður að láta undan fyrir að rækta skrokkinn. Ég hef sem sagt verið eins og argintæta í skólanum síðan ég byrjaði að synda áður en vinna hefst á morgnana. Það munu vera orðin ein fimm ár síðan, með eins árs hléi.( Þeir lokuðu sundlauginni í eitt ár til þess að rífa hana og byggja nýja.)

Málið er að ég get ekki puntað mig eins og vel og ég vil punta mig áður en ég geng til vinnu minnar. Ég er ekki búin að jafna mig á sundinu þegar ég þarf að greiða mér og mála. Þannig að hárið er eins og á lúðulaka og andlitið eins og á lufsu. Ég hef samt reynt að bera höfuðið hátt og þykjast vera fín. Verst þykja mér förin á augnlokunum eftir sundgleraugun og djúpt farið þvert yfir ennið eftir sundhettuna.

Skítt með smellinn. Ég ætla að synda áfram.

Öskudagur, síðastliðinn, hjálpaði mér ótrúlega mikið með að halda í hégómann. Ég var alveg andlaus með grímubúning svo ég fór bara með morgunsloppinn minn með mér í vinnuna og nokkrar franskar rúllur sem ég skellti í hárið á mér og reyndi svo að tala eins Gréta systir þegar hún er í  stuði . Þarna varð úr mér kellingartuðra, nokkuð morgunlöt en alveg ágæt.Þegar öskudagshúllunhæinu lauk og ég gat farið úr múnderingunni, var ég bara nokkuð fín um hárið, kannski einum of mikil lyfting í því en slapp til.Síðan á öskudag gef ég skellt þeim frönsku í hárið upp í sundlaug, hef þær í mér á meðan ég gúffa í mig morgunkorninu á kaffistofunni, tek þær úr mér og smyr á andlitið smá málningu rétt áður en hringt er inn.

Mér líður miklu betur.

Máluð og greidd.

Það verður líka að rækta hégómann.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband