Bloggfærslur mánaðarins, september 2008
29.9.2008 | 23:15
Góð gjöf
Hann Simmi minn færði mér óvænta gjöf í dag þegar hann kom heim úr vinnunni. Hann kom með svaka fína útivistarúlpu handa mér. Mig vantar eiginlega ekkert svoleiðis úlpu en gjöf er gjöf og mér fannst hann bara sætur að færa mér þetta. Það er reyndar búið að sauma út nafn fyrirtækisins sem hann vinnur hjá á aðra ermina þannig að mér finnst úlpan ekki eins fín fyrir vikið en gjöf er gjöf.
Það besta við úlpuna er að hún er svona tveimur númerum of lítil á mig.
Ég veit núna hvaða augum hann Simmi minn lítur á mig.
Hann hefur greinilega ekkert tekið eftir þessum 15 kílóum sem ég hef bætt á mig gegnum tíðina.
27.9.2008 | 21:02
Frænkupartí
Við erum, hvorki meira né minna, en 33 frænkur í annarri kynslóð frá ömmu og afa á Velli. Við vitum allar hver af annarri en hittumst ekki oft. Einhver fékk þessa frábæru hugmynd að hafa frænkupartí og fyrsta partíið var fyrir ári síðan og annað partíið í dag. 23 frænkur af 33 komu saman til að eiga góðan dag og það var svo sannarlega raunin. Við spjölluðum og hlógum, sögðum frá högum okkar og afkomenda og borðuðum allan góða matinn sem safnaðist á borðið.
Það var ákveðið að halda áfram að hittast og vildu frænkurnar endilega koma í Höfnina að ári og ég var kosin í nefnd til að sjá um að það yrði að raunveruleika. Af því að engin nefnd er bara ein manneskja kaus ég systur mínar með mér. Við byrjuðum strax að skipuleggja á leiðinni heim og erum alveg tilbúnar með þetta.
Nema hvað það verður ekki bara frænkupartí að ári heldur fá frændurnir einnig að vera með. Þegar það fréttist að þeir væru súrir út í okkur að fá ekki að vera með ákváðum við að auðvitað yrðu þeir með næst. Frændurnir eru 23 þannig að partíið gæti orðið 56 manna partí.
Frænku-og frændapartí.
Systkinabörnin frá Syðra-Velli í Flóa.
23.9.2008 | 17:32
Nemi í myndlist
Ég er búin að ganga með það í maganum síðan í vor að ég yrði að læra að mála. Ég vaknaði svona einn morguninn. Til þess að prófa hvort ég gæti málað keypti ég ýmiss konar málaradót og kennslubækur. Ég fann líka margt á netinu sem gaman var að skoða. En eftir því sem ég las meira og prófaði að meira að mála vissi ég hvað ég kynni lítið og yrði að fá kennslu.
Ég byrjaði í gærkvöldi á námskeiði hjá Sjöfn Har.
Ég er byrjuð í 1. bekk í myndlist.
Það var æðislega gaman.
22.9.2008 | 17:02
Persónulegt met í sundi
Ég byrjaði í reglulegri líkamsrækt um leið og skólinn byrjaði. Það er ekki amaleg aðstaðan við nýju sundlaugina okkar enda er ég mætt á húninn fyrir klukkan sjö á morgnana í þeirri von að starfsmaðurinn þann morguninn sjái aumur á okkur frekjuhundunum og hleypi okkur inn örlítið fyrr. Það gerist oft. Það munar ótrúlega miklu um fimm mínútur þegar maður þarf að vera mættur í vinnu klukkan átta, uppstrílaður og fínn með þurrt hár.
Í gömlu lauginni synti ég 5-7oo metra á hverjum morgni en núna syndi ég meira en það. Ég veit ekki af hverju. Ég syndi a.m.k. 800 metra og setti persónulegt met í síðust viku þegar ég synti heilan kílómetra og ekki bara einu sinni heldur tvisvar í sömu vikunni. Ég er svakalega montin af sjálfri mér.
Í morgun fór ég bara 800 metra, hafði ekki tíma í meira.
Það er rosalega gott að vera búin að hreyfa sig áður en vinnudagurinn hefst. Ekki nenni ég því seinnipartinn.
17.9.2008 | 18:07
Aldrei aftur í megrun
Ég tók ákvörðun fyrir nokkrum dögum. Ákvörðunin fellst í því að ég er hætt í megrun. Ég er hætt í þessu bulli. Ég er búin að vera meira og minna í megrun síðan ég var 17 ára. Sumarið 1967 var ég í London í skóla og kom heim bústnari en ég fór út og einmitt þá um haustið heyrði ég fyrst talað um megrunarkúr. Ég skellti mér í hann og þar með byrjaði ballið. Ég hef prófað alla kúra sem ég hef heyrt um nema hvítvínskúrinn. Skrítið. Ég ætla samt að sleppa honum. Enginn kúr virkar á mig. Ég missi nokkur kíló þegar ég fer í kúr og bæti þeim síðan á mig þegar ég gefst upp og nokkrum kílóum að auki. Ég hef þannig safnað á mig 15 kílóum síðan ég var ung kona. Kannski hefði ég engu bætt á mig ef ég hefði aldrei farið í megrunarkúr.
Nú er ég hætt öllu bulli. Hætt að telja kalóríur, hætt að vera í aðhaldi, hætt að vera í fráhaldi, hætt að passa mig, hætt að vigta matinn ofan í mig, hætt að pæla í fituinnihaldi, hætt að pæla í sykurinnihaldi, hætt að pæla í transfitusýrum, kolvetnum, próteinum, og hvað þetta nú allt heitir.
Ég ætla að borða það sem mér dettur í hug, hvenær sem mér dettur í hug að borða og það besta af öllu, ég ætla að borða hvað sem er án samviskubits.
Án samviskubits.
Ég hef alltaf fengið samviskubit þegar ég hef "svindlað."
Og auðvitað hef ég oft "svindlað." Annars væri ég tággrönn.
Ég er hætt þessu bulli, ætla að borða það sem mig langar til og ef ég stækka þá ætla ég bara að kaupa mér stærri föt.
Ég nenni þessu bulli ekki lengur.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.9.2008 | 21:51
Síðbúin útilega
Ég veit vel að enginn er verri þó hann vökni en samt er það þægileg tilhugsun að geta flúið rigninguna ef maður vill. Þetta gerðum við Simmi minn nú um helgina. Við vissum að það spáði rigningu og leiðindum á Suðurlandi svo við tengdum Sólbrekku aftan í Lindu Black á föstudag, eftir vinnu og brunuðum alla leið í höfuðstað Norðurlands. Þar tók á móti okkur 18 stiga hiti og logn. Við reistum Sólbrekku á einu af uppáhaldstjaldstæðum mínum þ.e. við Þórunnarstræti á Akureyri og áttum náðuga helgi þar með góðum vinum. Þeim fer óðum fækkandi sem fara um landið með útilegugræjur í eftirdragi en þó eru nokkrir enn á ferð.
Við spókuðum okkur auðvitað í miðbænum, fórum út að borða, sóttum tónleika, kíktum í búðir, fórum á pöbbarölt, grilluðum á tjaldsvæðinu, hittum gamla kunningja, sváfum vel, gengum mikið, horfðum á andanefjur leika sér á pollinum, sóttum messu í Akureyrakirkju svo fátt eitt sé nefnt af því sem við afrekuðum um helgina. Prógrammið var svo stíft að við fundum ekki tíma til að banka upp á hjá vinum sem búa þarna. Það er nú eins og það er.
Það er frábært að geta keyrt í fimm klukkutíma og skipt um veðurlag og hitastig ef maður endilega vill.
1.9.2008 | 22:06
95 ára reglan
Einhvern tímann fannst mér það í óravíddarfjarlægð að ég kæmist á hina svokölluðu 95 ára reglu. Það væri nú bara fyrir gamla fólkið að hugsa um en ekki unglömb eins og mig.
En tíminn líður.
Og það hratt.
Ég komst á þessa reglu í dag.
Lífaldur + starfsaldur = 95 ár
58 ár + 37 ár = 95 ár
Mér skilst á reglum lífeyrissjóðsins míns að ég græði smávegis á þessu. Ef ég skil rétt þá þarf ég ekki lengur að borga iðgjöld í lífeyrissjóðinn.
Hlakka til að sjá það í framkvæmd.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)