Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008
5.5.2008 | 21:31
Svefnleysi
Ég er kannski hlutdræg, ég veit það ekki, en mér fannst strákurinn minn rosalega skemmtilegur í Kastljósinu í kvöld. Ég hef heyrt flest af því áður sem hann talaði um en finnst alltaf jafn gaman að hlusta á hann segja frá. Hann var mest hissa á því sjálfur hvað hann var ljótur og með asnalega rödd. Honum fannst hann vera eins og fullur Hobbiti. Mér fannst hann fallegur og flottur en röddin ber þess merki að hann hefur áunnið sér ofnæmisasma með árunum.
Svefn er furðulegt fyrirbæri frá mínum bæjardyrum séð. Ég svaf t.d. í nótt frá klukkan 11 í gærkvöldi til klukkan 4 í nótt. Punktur og búið. Ég lét það ekki eftir mér að kveikja ljós og fara að lesa en stundum geri ég það. Ég var þreytt í dag, sérstaklega seinnipartinn, en það er bara eins og það er. Djöfull að draga.
Því miður erfði svefndoktorinn þennan svefnleysisfjanda frá mér. Ég hef átt við þetta vandamál að stríða síðan ég hóf búskap með honum Simma mínum. Ég ætla samt ekki að kenna honum um. Þetta er eitthvað óskilgreint fyrirbæri. Vonandi tekst doktornum að finna meinið einn góðan veðurdag.
En þó að Kalli hafi sagt eitt sinn: "Greind erfist frá móður og fegurð frá föður og aumingja ég," þá vona ég samt að þetta gangi.