Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Bókhald og afstemmingar

Ég veit ekki í hvers konar kasti ég var fyrir tæpu ári síðan þegar ég gekkst inn á það að taka sæti í stjórn Söngfélagsins og ekki nóg með það heldur fékk það hlutverk að vara gjaldkeri. Ég sem kann ekkert með tölur að fara.

Þetta hefur gengið ágætlega, þannig lagað, þangað til í kvöld að ég dreif í að klára að færa bókhaldið og stemma af því nú nálgast aðalfundur. Ég er mikið búin að rífa hár mitt og dæsa og svitna og kólna á víxl yfir tölum og færslum og bankayfirlitum. Það var ekki fyrr en fyrrum gjaldkeri kom í heimsókn til mín sem eitthvað fór að gerast, og viti menn, eftir þriggja klukkutíma yfirsetu passaði allt upp á krónu. En það tók langa leit. Við fundum ýmsar villur t.d einn óborgaðan reikning sem ég hafði bara sett i möppuna og haldið að ég hefði borgað. Það verður einhver glaður á morgun þegar greið þann reikning, Svo hafði ég ekki fært styrki og svoleiðis af því ég fékk ekkert blað um það nema bankayfirlit og svona smávægilegar klaufaskapur enda ér ég að læra þetta.

Hver veit nema ég skelli  mér á bókhaldsnámskeið til þess að verða öruggari með þetta eða til þess að ég  fái vinnu á skrifstofu í ellinni.

Mér hefur alltaf þótt gaman að vinna með tölur.

Gaman að vera svona akkúrat.

Gaman að vera rúðustrikaður.


Smáfuglar fagrir

Rífast um gamalt brauðÍ fyrravor gat ég ekki farið út á lóð, í einhvern tíma, því ég sá út um stofugluggann hjá mér að það lá dauður fugl á miðri flötinni. Ekkert í heimi er ógeðslegra en dauður fugl. Ég varð að bíða eftir að Simmi minn kæmi heim af sjónum til að fjarlægja viðbjóðinn.

Ég vil hafa fugla í vissri fjarlægð. Þeir eru flottir á flugi og fuglasöngur er fallegur. En þeir mega ekki koma nálægt mér. Ég hef einhvern tíma haldið á fugli og það var hræðilega erfitt.  Að finna fyrir fjöðrunum og beinunum, halda að maður taki jafnvel það fast á þeim að fingurnir snerti innyflin er tilfinning sem ég ræð ekki við. Hrollur. Bara hrollur.

Það hefur komið fyrir, oftar en einu sinni, að fugl hefur komið  inn í húsið mitt. Í eitt skiptið gerðist það á aðfangadagskvöld, rétt fyrir matinn. Fuglinn varð ær og ég brjáluð. Simmi og krakkarnir komu greyinu út. Í annað skiptið var ég ein heima og hringdi dauðskelkuð í Rut systur mína, sem kom í rólegheitum yfir til mín með skóflu, mokaði snjónum frá svalahurðinni svo ég gæti opnað hana og hleypt kvikindinu út. Mér hafði hvorki hugkvæmst að opna hurð né glugga. Ég bara gólaði.

Nú hef ég í nokkur skipti gefið fuglunum að borða af því ég held að þeir séu svo svangir. Það klingdi í eyrum manns fyrir nokkrum árum Gefið smáfuglunum og það hefur þessi áhrif á mig í dag að ég er sífellt hlaupandi út á lóð með alls konar góðgæti handa kvikindunum.

Ég held að það sé betra að gefa þeim að éta svo þeir geti hypjað sig heldur en að þeir detti niður dauðir úr hungri á lóðina mína.

 


Leikhúsferð

"Ég er búin að kaupa miða í leikhúsið fyrir okkur þann 22. febrúar," sagði svilkona mín við mig um daginn.

 "Frábært, "sagði ég "hvað ætlum við að sjá?"

"Ég man ekki alveg hvað leikritið heitir en ég er búin að lesa dóma um það og það lofar góðu."

Ég treysti þessari svilkonu minni fullkomlega til þess að velja leikrit fyrir okkur því hún fer miklu oftar í leikhúsið en ég.  Mér finnst mjög gaman að fara í leikhús en ég hef aldrei rænu á að skipulegga leikhúsferð en það þarf auðvitað að gera það með góðum fyrirvara. Þess vegna segi ég að það sé gott að eiga góða að sem sjá um hlutina fyrir mann.

Við fórum í gærkvöldi og sáum Vígaguðinn sem sýndur er á Smíðaverkstæðinu. Þetta er alveg frábært stykki eftir Yasmina Reza sem mun vera einn af vinsælli leikritahöfundum samtímans.

Leikritið fjallar um tvenn hjón sem hittast heima hjá öðru parinu til þess að tala um atburð sem henti 11 ára gamla syni þeirra. Sonur annarra hjónanna lamdi hinn með priki og fannst mömmunni, sem á þann drenginn sem var laminn, að það þyrfti að útkljá málið. Það kemur svo í ljós að ekki er allt sem sýnist því undir fáguðu yfirborðinu leynist ýmislegt sem kemur í ljós þegar hjónin fara að tala saman.

Á köflum er leikritið bráðfyndið en fær mann líka til þess að hugsa um hve stutt er á milli siðmenntaðrar framkomu og þess að fólk sleppi sér og hleypi jafnvel villimanninum út.

Minnti mig á partýin í gamla daga.

Ég bíð núna spennt eftir að svilkona mín hringi aftur og tilkynni mér um næsta leikrit.


Afmælisferð

Á þriðjudaginn varð pabbi minn áttræður. Áður en við, ferðafélagar hans á Tenerife, komumst á fætur þann dag var hann búinn að skokka eina ferð lengst upp í hlíð. Hann hafði líka, daginn áður, farið í tveggja og hálfstíma gönguferð með okkur "unga fólkinu."

Honum er ekki fisjað saman honum pabba.Tenerife feb.2008 078

Dagurinn var mjög skemmtilegur. Veislan tekin í þremur hollum. Það var morgunsöngur, eftir að hann kom úr fjallahlaupinu, síðdegisfjör og hátíðarkvöldverður.

Eina sem skyggði á gleðina var að Gréta systir skyldi veikjast.

Við náðum að koma eins og brenndir snúðar heim enda var sólbaðið tekið eins og fúll tæm djobb, frá 10 til 18.

Frábært vikufrí. Frí frá snjó og kulda.


Vetrarmyndir

Vetrarmyrkur

ég kveiki á kertum

það yljar

Vetrarþungi

ég fæ mér sérrítár

það yljar

Vetrarkuldi

ég lem mér á brjóst

það yljar

Vetrardrungi

ég spjalla við vin

það yljar

Vetrarsól

hrekur í burtu myrkur og þunga

kulda og drunga

og yljar


Ljóðaslamm

Ég varð ein eyru í gær þegar Hugleikur fór að "slamma" hjá Agli í Kiljunni í gærkvöldi.  Ég hafði aldrei heyrt þetta orð áður en er búin að heyra það tvisvar í dag í útvarpinu. Að slamma og ljóðaslamm. Ég er örugglega að einhverju leyti langt á eftir en ég hélt að ég ein ætti þetta stílbragð , sem ég kalla reyndar leirburð, þannig að einhverju leyti er ég á undan minni samtíð. Ég hef samið svona bálka fyrir vini mína sem eiga stórafmæli eða þegar ég hef þurft að koma fram einhvers staðar og tala. Ef ég man rétt eru svona 25 ár síðan ég byrjaði á þessu. Ég get ekki gefið nein dæmi hér því að þetta er þannig vaxið að enginn getur farið með bálkinn minn nema ég ein. Það verða að vera áherslur á hárréttum stöðum og alls ekki sama hvernig þetta er flutt. Ég held að ég hafi aðeins einu sinni látið svona leirburð af hendi og sé pínulítið eftir því.

Ég ætti kannski að hætta að kalla þetta leirburð og kalla þetta héðan í frá ljóðaslamm.


Þorrablótið

Þorrablótið var frábært í alla staði. Fólk var dálítið kvíðandi yfir því þetta árið af því nú var það haldið í Versölum en ekki í Íþróttamiðstöðinni eins og undanfarin átta ár. Auðvitað var stemmingin ekki alveg sú sama en frábært blót samt. Veislustjórinn, Freyr Eyjólfsson, fór á kostum eins og hans var von og vísa. Hann söng og sprellaði út í eitt. Ég er búin að þekkja kauða síðan hann var menntaskólastrákur og vissi að hann gerði þetta vel.

En við eigum svo mikið af frambærilegu og frábæru listafólki í okkar litla samfélagi að mikill sómi er að. Það var aðal ástæðan fyrir því að ég fór á blótið í ár. Það var að sjá og heyra í mínu fólki eða eiginlega krökkunum hennar Grétu systur. 75% þeirra voru að skemmta og tengdadóttirin einnig og átti  hún beinagrindina í annálnum.  Hulda og Kolbrún eru fæddar leikkonur og svo sungu þær líka, ég vissi ekki að þær gerðu það svona opinberlega. En ég vissi að Magnþóra gæti sungið og vissi líka að hún er ljóðskáld og leikritaskáld og ég vissi líka að hún gæti leikið og ég vissi líka að hún er kvikmyndagerðarmaður. Enda var ekki hægt að vera heima og missa af þessu. Rúsínan í pylsuendanaum var svo hann Rúnar minn. Hann er í hljómsveit og syngur rosalega vel og semur líka lög og texta. Lagið hans Dettum í það var flutt þarna. Ég var búin að heyra það áður í tölvunni. Þrælgott lag hjá pilti.

Ég ætlaði sem sagt bara að borða þorramat og horfa á skemmtiatriðin og fara svo heim. Það fór nú ekki alveg þannig. Hann Simmi minn hringdi klukkan hálf átta frá Ólafsvík og sagðist vera að leggja af stað heim og hvort ég gæti reddað honum miða á blótið. Hann fékk nokkurra klukkustunda frí í vinnunni til að kíkja á þorrablótið.

Fyrir klíkuskap fékk ég miða handa honum og var þess vegna að skemmta mér fram eftir nóttu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband