Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
31.12.2008 | 15:57
Gamlársdagur
Ég verð alltaf dálítið döpur á þessum degi. Ég held að það tengist því að tíminn sem ég þekki er að fjara út og það er ekki vitað hvað tekur við. Nýtt ár, nýtt númer og auðvitað ný tækifæri en það huggar mig ekki. Depurðin rís hæst þegar klukkan slær tólf á miðnætti, ártalið fjarar út á sjónvarpsskjánum og sungið er Nú árið er liðið. Þá bara grenja ég. En það varir bara stutta stund, ég hristi þessa viðkvæmni af mér og næ mér á strik.
Nú er eitthvað aðeins öðruvísi.
Ég hef aldrei kviðið nýju ári fyrr en núna. Mér finnst þessir óvissutímar mjög erfiðir. Hvernig fer fyrir íslensku þjóðinni? Hvernig fer fyrir börnunum mínum og hvað bíður barnabarnanna? Hvernig fer fyrir mér og Simma mínum? Úff!!
Ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér.
Það er kannski eins gott.
Ég óska öllum gleðilegs árs, farsældar og hagsældar.
Maður verður að lifa í voninni um að allt fari vel.
24.12.2008 | 12:18
Hátíð í bæ
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.12.2008 | 13:57
Að fá gott í skóinn
Ég reyni af bestu getu að gera nemendur mína af erlendu bergi menningarfæra á Íslandi, útskýri fyrir þeim íslenska siði og venjur og nota hvert tækifæri sem gefst.
Um þessar mundir eru það náttúrlega jólin og jólahaldið og allir siðirnir í kringum það. Ég hef látið börnin gera alls konar verkefni um jólasveinana og þar með sagt þeim frá þeim ágæta sið að setja skóinn út í glugga í þeirri von að fá eitthvað gott í hann. Jafnframt hef ég sagt þeim að óþekk börn fái kartöflu.
Þarna rakst ég heldur betur á menningarmun. Pólsk börn og rússnesk gátu alls ekki fundið neina refsingu í því að fá kartöflu í skóinn. Kartöflur eru verðmæti í þeirra augum.
Einn nemandi minn sagði að ef hann vantaði mat á Íslandi ætlaði hann bara að vera óþekkur á hverjum degi og fá margar kartöflur þannig að hann gæti þá eldað sér mat.
11.12.2008 | 23:30
Í den
Ég skellti mér á Selfoss í gær. Mig vantaði garn í púða sem hún dótla mín bað mig um að prjóna fyrir sig. Hún er örugglega orðin langeygð eftir púðanum en garnabúð hefur ekki rekið á mínar fjörur nýlega svo ég varð að gera mér erindi. Ég fór beint í Hannyrðaverslunina Írisi því þar hef ég alltaf fengið svo góða þjónustu og ég er búin að kannast við hana Írisi síðan ég fæddist.
Þegar ég spurði hana um garn sagðist hún hafa hætt að selja það fyrir 14 árum. Þarna komst upp um mig hvað ég tek illa eftir en hvað um það ég spurði hana hvar garn væri selt á Selfossi og hún nefndi Skrínuna og sá um leið aulasvipinn á mér því hún bætti við: Hún er við hliðina á Alvörubúðinni. Hún sá greinilega að ég varð engu nær svo hún sagði að Fossraf hefði verið þarna til húsa áður. Þá fór aðeins að rofa til í hausnum á mér, mig rámaði í að hafa séð Fossraf á húsi og spurði Írisi hvort Skrínan væri þar sem Daddabúð var í den eða Kaupfélagsbakaríið.
Hún fór að skellihlæja og sagði:Nú, þarf ég að fara svona langt aftur í tímann með þig."
Ég man hvað það var gaman að koma við í lúgunni á bakaríinu og sníkja vínarbrauðsenda. Það var rétt eftir miðja síðustu öld.
10.12.2008 | 19:16
Jólaundirbúningur
Á ég ekki að vökva ekta ensku fyrir þig, elskan?
Jú, það væri fínt, segi ég, yfir mig ánægð með aðstoðina.
Á ég þá ekki að kaupa koníakspela í dag.
Jú, ef það vantar koníak þá verðurðu að gera það.
Þegar fjórar vikur voru liðnar fannst mér þetta eitthvað orðið skrítið og spurði hann hversu mikið koníak hann setti eiginlega út í kökuna. Hann sagðist gera bara eins og ég hafði sagt honum þ.e. að ein matskeið væri mátuleg vökvun.
Fyrst svo er hlýtur pelinn eða leka enda úr plasti.
Best að ég segi honum að prófa að kaupa pela úr gleri næsta föstudag.8.12.2008 | 17:12
Skólaheimsókn
Þegar ég skrapp til Wales, í helgarrispu, um daginn var ég svo heppin að geta fylgt Lúkasi í skólann á mánudagsmorgninum og forvitnast aðeins um skólann hans.
Mér fannst mjög spennandi að fá að skoða skólann af því skólahúsið er nýbyggt og með opinn skóla í huga en þannig skóla skoðaði ég fyrr í vetur á Selfossi og var spennt að sjá hvort ég sæi einhvern mun. Heimsóknirnar voru ekki undirbúnar á sama hátt, Selfyssingar tóku á móti okkur, starfsfólki Grunnskólans í Þorlákshöfn og sýndu okkur alla bygginguna og sögðu okkur frá starfsháttum en í Ysgol Maes Y Mynydd, skólanum hans Lúkasar, kom ég bara rétt si svona og spurði kennarana hvort ég mætti koma inn. Það var alveg sjálfsagt en ég gat ekki spurt að neinu því enginn mátti vara að því að tala við mig. Það þurfti að sinna börnunum. Svava Rán var með mér og sýndi mér það helsta.
Af því ég veit ekki nóg um kennsluna í welska skólanum get ég ekki borið hana saman við þá íslensku en skólahúsnæðið sjálft var nokkuð frábrugðið því íslenska þó ekki sé meira sagt.
Íslenski skólinn sem ég skoðaði rís eins og glerhöll upp úr íbúabyggð, þar sem er mikill íburður og mikið pláss. Sá welski er látlaus, á einni hæð og allt miklu þrengra og minna í lagt. Það hvarflaði að mér að við hefðum kannski getað lært eitthvað af keltneskum frændum okkar og sparað dullítinn aur.
Börnin voru áberandi stillt og prúð. Þau gengu öll beint til verks. Fyrst hengdu þau upp úlpurnar, hver á sinn snaga, og fóru svo á sinn stað í stofunni. Settust á gólfið og fóru að skoða bækur. Öll fóru þau inn á útiskónum. Á göngunum eru teppi, þannig að skórnir voru allir orðnir hreinir þegar inn í skólastofuna kom. Það var svolítið skrýtið að horfa yfir hópinn, 5 ára nemendur í svörtum skólabúningum. Það hvarflaði líka að mér að við gætum lært eitthvað um agann hjá þeim. En ég var þarna í byrjun dags. Ég veit ekki hvernig hann endar.
En Lúkasi mínum líður greinilega vel í skólanum eða ekki gat ég séð annað og þá líður ömmuhjartanu vel.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)