Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Sjálfsblekking

Vá, hvað er gaman að fá símhringingu þegar sá sem hringir er að tilkynna að maður hafi unnið í happdrættinu.

Þó að það sé bara sjöþúsund kall.

Rétt áður en ég fékk símhringinguna var ég að renna yfir sparikjólarekkann í skápnum og fann þar kjól sem ég var búin að steingleyma að ég ætti, sem þýðir að ég þarf ekki að splæsa í nýjan kjól fyrir þorrablótið.

Ég græddi sem sagt miklu meira en sjöþúsund.

Meðan ég er í þessari sæluvímu hvíslar skynsemispúkinn á öxlinni á mér að ég sé búin að eyða miklu meira en sjöþúsund í þennan happdrættismiða og að það sé ekki nauðsynlegt að kaupa nýjan kjól fyrir hvert einasta þorrablót.

Jæja þá.


Í blíðu og stríðu á bóndadaginn

"Við verðum að splæsa í brennivínspela úr þessu," sagði Simmi minn þegar við vorum búin að velja sitt lítið af hverju af þorramat úr kjötborðinu í Nóatúni á Selfossi í gær.

Á sjálfan bóndadaginn.

"Af hverju?"

"Nú, með hákarlinum."

"En þú borðar ekki hákarl."

"Nei, ég veit það en þú gerir það."

"Já, en ég drekk ekki brennivín."

"Já, en skilurðu þetta ekki manneskja, hákarl og brennivín eiga að vera saman og nú eigum við hákarl og ekkert brennivín. Það gengur ekki."

Ég skildi þetta svo sem alveg. Ég gúffa í mig hákarlinn og henn drekkur brennivínið.

Samhent hjón.

Það er þannig sem þetta virkar.

Í blíðu og stríðu.

Hákarl og brennivín.


Rugludallur

"Ég skil ekkert í því hvar gemsinn minn er, ég var með hann í höndunum rétt áðan,"  sagði Simmi minn við mig í símann þegar hann var að týgja sig af stað í vinnuna eftir kvöldmat í gær. Ég sá hann fyrir mér stinga lyklum í vasann, fara í skóna og leita svo að gemsanum.  

Hann var bara með hann á  eyranu að tala við mig.

Það eru fleiri ruglaðir en ég.


A eða B inflúensa?

"Ertu með A eða B?" spurði pabbi mig, kankvís á svipinn, þegar hann og mamma komu í sjúkravitjun til mín í gær.

Ég var einmitt búin að  velta þessu fyrir mér eftir að ég las allt um inflúensu á vefnum inflúensa.is. Þar er ekki gefin nein mismunandi skýring á tilfellum A og B. En samkvæmt lýsingunni á einkennum ínflúensunnar fer ég ekki í neinar grafgötur um það hvað hefur hrjáð mig síðan á mánudagskvöld.

Ég er aftur á móti með samviskubit yfir því að hafa ekki tilkynnt þessi veikindi mín til landlæknisembættisins því að á vefnum stendur eftirfarandi:

Inflúensan er skráningarskyldur sjúkdómur á Íslandi og ber læknum og rannsóknarstofum að tilkynna um heildarfjölda inflúensutilfella til sóttvarnalæknis samkvæmt nánari ákvörðun hans.

Ég verð ekki með í tölunni hjá sóttvarnalækni því ég fer ekki að druslast til læknis með háan hita til að láta telja mig.

Í morgun vaknaði ég enn með hita og hausverk en leið samt miklu skár en þegar verst lét. Beinverkir í rénum, hóstinn enn til staðar en nefrennsli minnkað til muna.


Nýliðin áramót

Ég strengi þess heit að fara í megrun, lifa heilbrigðu líferni og kaupa mér hús, stóð á miðanum sem ég dró úr hattinum á gamlárskvöld. Stórfjölskyldan var samankomin heima hjá mér og við brugðum okkur í smá leik á milli þess sem horft var á heimatilbúna fjölskylduskaupið hennar Magnþóru og hins opinbera. Allir urðu að skrifa áramótaheit á blað og setja  í hattinn. Ég gæti alveg hafa skrifað það sem ég dró nema þetta með húsið. Ég er að hugsa um að svíkja það heit. Mér líður vel í húsinu sem ég á núna og hef ekki hugsað mér að gera neina breytingu þar á. Það hefði auðvitað veri betra að eiga stærra hús um áramótin þegar 24 af 33 afkomendum mömmu og pabba komu saman til þess að fagna áramótum en þröngt mega sáttir sitja og þar við situr.

Svava Rán og fjölskylda varð líka að láta sig hafa lítið og þröngt herbergi þessa daga sem hún var hjá okkur en hún kvartaði ekki og ég held að henni  hafa þótt alveg frábært að koma heim í 10 daga þrátt fyrir þrengsli. Okkur Simma fannst líka frábært að hafa velsku fjölskylduna hjá okkur þessa daga.Jólaleikur 089 Núna skiljum við Lúkas miklu betur, vitum hverju hann hefur gaman að og hann þekkir okkur betur. Jólaleikur 097

Við, mæðgur, stóðum okkur bara vel þegar árið fjaraði út á skjánum. Við sluppum við tár þetta árið en reyndum að syngja  Nú árið er liðið með sjónvarpinu. Ég mundi textann ekki nógu vel og fannst þess vegna skondið að sjá sjálfa mig á skjánum syngja þetta lag alveg hástöfum. Mér fannst gaman að því að þeir hjá sjónvarpinu skyldu nota þessa tveggja ára upptöku á Nú árið er liðið ekki síst vegna þess að ég gat montað mig við hinn útlenska tengdason minn og bent honum á sjálfa mig á skjánum. Hann hefur ekki verið á Íslandi áður um áramót og fannst mikið til flugeldanna koma og  þess hvernig við skemmtum okkur á gamlárskvöld. Hann var vanur (áður en Lúkas fæddist) að fara á pöbbinn og eini munurinn frá öðrum pöbbakvöldum er sá að pöbbinn er opinn aðeins lengur á gamlárskvöld. 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband