Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
24.12.2007 | 16:12
Hátíðleg jól
Helgi jólanna færist yfir.
Ég var að tala við dótlu mína, rétt gat sagt bless án þess að grenja en eitt saknaðartár féll ofan í jólagrautinn en það hlýtur að gera hann betri. Hún hefur skapað sína jólasiði og hefur þá mest megnis íslenska. Hún segist ná íslenskum hátíðaleika þrátt fyrir að vera á erlendri grundu. Hún spilar af diski jólamessu, tekna í Hallgrímskirkju fyrir nokkrum árum, til að ná hátíðleikanum.
Sonurinn ætlar að halda eigin jól með sinni fjölskyldu í fyrsta skipti og hlakkar til.
Við verðum tvo í tangó og höfum verið það áður en ekki í nokkur ár. Við hlökkum líka til.
Nú erum við Simmi minn að bíða eftir að Gestur Einar spili Ó helga nótt með Jussa Björling og um leið óskum við öllum vinum, nær og fjær, gleðilegra jóla.
22.12.2007 | 16:05
Gömul börn
Í dag eru 36 ár síðan ég varð móðir. Litli strákurinn minn er orðin svona gamall. Ég held bara að hann sé alveg að ná mér. Mér finnst hann vera litli strákurinn minn þó hann hafi einhverja fína titla eins og lektor í heilbrigðisverkfræði eða vísindamaður eða eitthvað svoleiðis. Hann væri líka alveg til í það stundum að hnýta naflastrenginn aftur en ég er orðin eins og grimm læða við kettlinga sína þegar henni finnst tími til kominn að kettlingarnir sjái um sig sjálfir.
Þegar Kalli litli var alveg að verða þriggja ára kom systir hans í heiminn. Ég á tvo jólabörn. Við Kalli þurftum að vera á fæðingarheimilinu yfir jólin, því í þá daga var konum ekki hleypt heim fyrr en eftir viku sængurlegu. Við Svava Rán sluppum heim á Þorláksmessu og gátum haldið heilög jól með körlunum okkar.
Já, börnin mín eru bæði komin á fertugsaldur.
Þetta er furðulegasta setning sem ég hef skrifað á æfi minni. Ég trúi ekki að þetta standi þarna en samt, svona er lífið.
16.12.2007 | 19:35
Jólatónleikar
Við, Simmi minn, ákváðum í gær að gera hlé á undirbúningi jólanna hér heima og undarbúa sálartetrin aðeins fyrir komandi hátíð. Við fórum á jólatónleika í Skálholti, þar sem lögðu saman krafta sína Kammerkór Suðurlands og Kammerkór Biskupstungna ásamt hljómsveit Gunnars Þórðarsonar. Einsöngvararnir sem komu fram voru ekki af verri endanum en þar trónir á toppnum Raggi Bjarna. Heila gallerínu stjórnaði svo stórsnillingurinn hann Hilmar Örn.
Ég fékk um mig léttan sæluhroll nokkrum sinnum vegna fagurs flutnings og tár komu í augun og kökkur fyllti hálsinn. Ég bara ræð ekki við þessar tilfinningar, þær ráða yfir mér. Mér fannst þess vegna ágætt þegar Simmi minn hallaði sér að mér, þegar Ó helga nótt var flutt, og sagði :
"Ég fæ bara gæsahúð!"
13.12.2007 | 21:20
Nýr veitingastaður
Labbaði út í kvöld með elskuna mína mér við hlið, settumst inn á mjög svo huggulegum stað, pöntuðum okkur pizzu og rauðvín og höfðum það huggulegt í kertaljósi og rólegheitum.
Málið er að við vorum bara samt í Þolló.
Megi Svarti sauðurinn dafna vel, fitna og festast í sessi.
10.12.2007 | 15:52
Gott er að eiga góða að
Þegar Nanna litla ömmustelpa frétti það á laugardaginn að ég ætlaði að fara að baka smákökur gat hún ekki hugsað sér að ég væri alein í því stússinu svo hún bauð fram aðstoð sína. Auðvitað þáði ég hjálpina og var henni skutlað til mín yfir fjallið. Hún saxaði súkkulaði og horfði svo aðallega á og fylgdist með.
Það sem hún beið spennt eftir var að fá að skreyta piparkökurnar. Þegar þær höfðu loks bakast var hún orðin svo þreytt að hún steinsofnaði eftir að hafa málað á 4 eða 5 kökur.
Næst mun ég byrja á piparkökunum.
7.12.2007 | 15:04
Gleymska
Það er ekki einleikið hvað ég er orðin gleymin. Ég veit ekki alveg hvort á að flokka þetta undir elliglöp eða eitthvað þaðan af alvarlegra. Svefndoktorinn segir að minnistap geti orðið vegna svefnleysis. Ég hef alltaf vitað að langvarandi svefnleysi sé ekki nógu gott en ég var að vona að ég slyppi með eitthvað alvarlegt. Ég hef sofið alveg ágætlega að undanförnu en í den las ég heilu bækurnar á nóttinni eða horfði jafnvel á bíómynd. Kannski að minnistapið í dag sé afleiðing gamalla vökunótta.
Ég átti að mæta í upphitun klukkan 20:00 í gærkvöldi því jólatónleikarnir byrjuðu klukkan 20:30. Ég var með allt klárt, sem ég átti að sjá um, þ.e. barmskrautið í söngfélagana og gjafirnar sem leigutenórarnir fengu og beið eftir að klukkan yrði rúmlega átta. Þegar ég mætti upp í Ráðhús fannst mér skrýtið að enginn væri kominn á undan mér en ég kom mér fyrir með kassann með skrautinu tilbúin að næla í félaga mína þegar þeir mættu á svæðið. Allt í einu standa þeir allir fyrir aftan mig. Mér dauðbrá og spurði hvaðan í ósköpunum þeir hefðu komið.
Við vorum að koma af upphitunaræfingu innan úr sal, svöruðu félagar mínir.
Ég hafði gleymt mér.
Ég gleymdi að fara í klippingu um daginn.
Ég gleymdi að ég er í jólakúlunefndinni og spurði hina í nefndinni ekki einu sinni hvernig hefði gengið að skreyta jólatréð fyrir Litlu jólin.
Ég gleymdi í gær að hringja fyrir Svövu Rán á Sýsluskrifstofuna en ég gerði það áðan.
Ég gleymi nestinu mínu oft heima.
Ef ég fer út úr húsi með eitthvað annað meðferðis en veskið mitt þá gleymi ég veskinu og verð að snúa við.
Ég verð víst að lifa við þá staðreynd að ég er gleymin.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)