20.5.2009 | 14:04
Læst úti
Ég þurfti að skjótast heim úr vinnunni til að redda smávegis. Sá þá að ruslafatan í eldhúsinu var full og tók ómeðvitaða ákvörðun að fara út með ruslið. Hurðin kom á eftir mér og skelltist í lás.
Fyrir tveimur dögum lenti Simmi minn í þessu sama nema hann var svo heppinn að stofuhurðin var, aldrei slíkum vant ólæst. Ég hreykti mér af því við hann að ég tæki alltaf úr lás þegar ég færi með ruslið því ég vissi það hurðin á það til að lokast af sjálfu sér.
Ég hefði betur ekki sagt neitt. Ég stóð þarna fyrir utan húsið mitt í djúpum skít. Við erum með varalykla alltaf geymda hjá mömmu en ég hafði þurft að nota þá í fyrradag og var ekki búin að skila þeim. Allir mínir lyklar voru inni í húsinu.
Venjulega eru allir gluggar lokaðir en tveimur mínútum áður en ég læstist úti hafði ég opnað gluggann í vaskahúsinu til að hleypa fersku lofti inn. Ég hef ekki opnað hann í marga mánuði. Þessi gluggi er það stór að maður getur skriðið inn um hann ef hann er opnaður upp á gátt.
Ég bankaði hjá nágranna sem kom með alls kyns græjur og tæki til að opna alveg og skreið meira að segja líka inn fyrir mig.
Það er gott að eiga góða nágranna.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.