11.2.2009 | 14:21
Nýyrðasmíð
Oft hef ég lent í umræðum þar sem rætt er um nýyrði og þykir mér það alltaf skemmtilegt. Nú las ég á Vísi.is að Baldur, málfræðingur, Jónsson leggi til að gúggla verði glöggva. Ég treysti fáum betur en Baldri til að finna nýyrði og mun ég fallast á hans tillögu eins og skot.
Ég var samt að vona að gúgla yrði notað og röksemdin yrði að sögnin gúgla aðlagaðist íslenskunni vel og samræmdist sögnum á borð við sigla, mygla og rugla. Sigla er reyndar sigldi í þátíð en gúgla er oftast notað í þátíð gúglaði. En rugla og mygla hafa aði endingu í þátíð þannig að þar er kom líking með ruglaði, myglaði og gúglaði.
rugla-ruglaði-hef ruglað mygla-myglaði-hef myglað gúgla-gúglaði- hef gúglað
Í boðhætti eru sagnirnar ruglaðu-myglaðu-gúglaðu.
Þá er spurningin hvernig glöggva kemur heim og saman. Að glöggva sig á e-u eru góð rök því að menn eru jafnan að glöggva sig á e-u þegar þeir eru að leita sér upplýsinga á leitarvef. Ég hafði áhyggjur af því hvernig glöggva færi í munni þegar sögnin væri notuð sem skipun, samanber þegar einhver skipar öðrum að gúggla, bara til að finna e-ð á netinu. Gúgglaðu það bara, amma, segir 8 ára ömmustelpan mín. Google it, amma, segir 5 ára ömmusnúðurinn minn. Hann segir það reyndar upp á engilsaxnesku. Á íslensku yrði það Glöggvaðu það bara ,amma. Sem er ágætt en hvernig verður þá skipunin: Farðu inn á g............... og g............ það."
"Farðu inn á "google" og gúglaðu það.
Farðu inn á "google" og glöggvaðu það.
Farðu inn á glögg og glöggvaðu það."
Google (leitarvefurinn)verður þá að heita glögg. Skyldi Baldur hafa hugsað út í það?
Baldur leggur einnig til að "facebook" verði kölluð vinabók. Mér finnst það í fínu lagi enda heyri ég alls konar þýðingar á facebook og það er eins og að fólk sé alltaf að grínast með öll þau orð sem eru nefnd. Facebook = fésbók, andlitsbók, smetta, smettuskrudda, sméttið svo eitthvað sé nefnt.
Vinabók.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:46 | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst Snjáldrið flott nafn á Facebook :)
Ég mun áfram ,,gúgla" á Google.
Magnþóra (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 15:58
Ekki veit ég hvort trúa á Vísi.is eða Mogga. Ég las grein í Mogganum áðan um Baldur og nýyrðin, greinilega það sama og ég var búin að lesa áður á Vísi.is og þar er ekki minnst á Vinabók heldur Vinamót og vitnar Baldur í ljóð Bólu-Hjálmars þar sem vina mót kemur fyrir í tveimur orðum.
"Ég ætla aðeins að kíkja á Vinamót." Eins og Íþróttamót eða Héraðsmót. Gæti gengið.
"Ég hékk á Vinamóti fram eftir nóttu." Já, já í lagi.
"Ég hékk á Snjáldrinu, Smettiskruddu, Fésbók, Nefskinnu, Snjáldurskinnu, Sviðsbók, Andlitsbók fram á rauða nótt." Ég á eftir að taka ákvörðun!
Guðrún S Sigurðardóttir, 11.2.2009 kl. 17:08
Já, ég held að maður gúgli enn um stund!
Guðrún S Sigurðardóttir, 11.2.2009 kl. 17:09
Ég hugsa að ég haldi áfram að gúgla, enda auðvelt að setja inn í beygingarmyndir. Andlitsbók finnst mér lélegt nafn, andlaust og leiðinleg beinþýðing. Vina mót, eins fallegt og það er hefur ekki nóga skírskotun í enska nafnið. Öll hin nöfnin eru góð, Nefskinna og Snjáldrið finnst mér best en gruna að Fésbók komi til með að hafa vinninginn, liggur einhvern veginn í augum úti.
Dabbiló (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 12:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.