9.11.2008 | 11:54
Friðsæl mótmæli
Við, Simmi minn, vorum á Austurvelli í gær á mótmælafundi. Við urðum dálítið hissa þegar við horfðum á sjónvarpsfréttir í gærkvöldi og komumst að því að þar hefðu orðið einhver læti. Þau fóru alveg fram hjá okkur.
Við urðum jú vör við hávaðann og reykspólunina frá mótórhjólagæjunum en þeir létu Alþingishúsið hverfa í reyk rétt áður en fundur hófst. Það var tilkomumikið, ég viðurkenni það. Þeir voru ekki á vegum þeirra sem skipulögðu fundinn. Hörður Torfa sagði að þeir hefðu lofað að gera þetta ekki.
Við sáum líka strákinn sem dró Bónusfánann að húni. Hann truflaði fundinn þannig að það sem ræðumaður var að segja á meðan á fánadrættinum stóð fór fyrir ofan garð og neðan hjá flestum því það var dálítið fyndið að sjá Bónusfánann þarna við hún í nokkur augnablik.
Við misstum af fleiri uppákomum. En það gerðu fjölmiðlar greinilega ekki.
Ég held að þeir hefðu frekar átt að fjalla um efni fundarins heldur en að koma með æsingafréttir af honum.
Fjölmiðlar bera ábyrgð.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.