Síðbúin útilega

Ég veit vel að enginn er verri þó hann vökni en samt er það þægileg tilhugsun að geta flúið rigninguna ef maður vill. Þetta gerðum við Simmi minn nú um helgina.  Við vissum að það spáði rigningu og leiðindum á Suðurlandi svo við tengdum Sólbrekku aftan í Lindu Black á föstudag, eftir vinnu og brunuðum alla leið í höfuðstað Norðurlands. Þar tók á móti okkur 18 stiga hiti og logn. Við reistum Sólbrekku á einu af uppáhaldstjaldstæðum mínum þ.e. við Þórunnarstræti á Akureyri og áttum náðuga helgi þar með góðum vinum. Þeim fer óðum fækkandi sem fara um landið með útilegugræjur í eftirdragi en þó eru nokkrir enn á ferð.

Við spókuðum okkur auðvitað í miðbænum, fórum út að borða, sóttum tónleika, kíktum í búðir, fórum á pöbbarölt, grilluðum á tjaldsvæðinu, hittum gamla kunningja, sváfum vel, gengum mikið, horfðum á andanefjur leika sér á pollinum, sóttum messu í Akureyrakirkju svo fátt eitt sé nefnt af því sem við afrekuðum um helgina. Prógrammið var svo stíft að við fundum ekki tíma til að banka upp á hjá vinum sem búa þarna. Það er nú eins og það er.

Það er frábært að geta keyrt í fimm klukkutíma og skipt um veðurlag og hitastig ef maður endilega vill.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband